Afkúpluð ólínuleg þjóðasálfræði

Nýlega var gefin út Íslensk skýrsla um örplastmengun byggð á nýlegum Íslenskum rannsóknum. Ég niðurhalaði skýrslunni eftir að hafa lesið fréttina en ég viðurkenni að ég á eftir að kemba hana. Ég mun þó gera það með tíð og tíma og veit að fenginni reynslu að ég mun finna einhver svarthol í henni.

img-coll-0604Það eru tæp tvö ár síðan við Ragnar Proppé yfirfórum skýrslu, sömu ættar, sem þá var notuð í áróðurstilgangi hérlendis sem víðar.

Við gerðum yfirferðina í myndskeiði sem ég setti samdægurs á YouTube en við fundum í greinargerðinni mörg svarthol.

Samsæringurinn í mér glotti þegar um sama leyti var sett á laggirnar Íslensk rannsókn. Að ég hef ekki enn yfirfarið þá nýju, sem m.a. rannsakar Íslenska Fýla, er sú að ég hef takmarkaðan áhuga á plastáróðri sem notaður er til að móta viðkvæman huga neytenda.

Sýndarveruleikinn sem búið er að draga yfir hausinn á fólki síðustu fjórar aldirnar er svo stútfullur af villuljósum og svartholum að af nógu er að taka og ef maður ætlar að rannsaka alla hluti verður maður vitfirrtari en sú vitfirring sem maður er að greina.

Framangreint er ein aðalástæðan fyrir því að í minni orðræðu er meira horft á hugmyndafræðilega sálfræði með hæfilegri blöndu af atburðaverkfræði. Óþarft er að greina þessi hugtök fyrir hæfa lesendur.

Ég las fyrst um að öragnir í plasti væru líkar kvenhormónum í samsetningu þegar ég var fjórtán ára, fyrir tæpum fjórum áratugum.

Þá snérust greinarnar um að þessar plastagnir eyddu fjölgunarhæfni fisktegunda og annarra vatnalífvera í þeim vötnum og vatnasvæðum sem lágu nærri iðnverum þar sem plast af ýmsu tagi var framleitt. Greinarnar fyrir hálfum mannsaldri höfðu öflug áhrif á stjórnmálin sem síðan þrýstu á að stóriðjur breyttu síun og öðrum þáttum framleiðslu sinnar og síðasta áratuginn hefur verið lítið um vanda af þessum völdum.

Það virðist þó henta ýmsum þjóðfélagsverkfræðingum – sérstaklega vinstra megin – að breyta iðnaðarmengun yfir í neyslumengun til að auka völd sín og áhrif í hugsun fólks. Það er langur vegur frá því að drekka vatn úr plastflösku eða bera matinn heim í plastpoka, yfir í efnablöndur frá iðnverum sem smjúga inn í lífríkið í næsta nágrenni.

Það er auðvelt að segja einhverjum að þar sem 98,5% af erfðamengi Sjimpansa sé sambærilegt við erfðamengi mannsins þá hljóti sama sálfræðihegðun að stjórna manninum með aðeins 1,5% fráviki. Hvað þá með Bonobo apann sem er 100% Sjimpansi en hagar sér þveröfugt?

Auðvelt er fyrir heiðarlegan genafræðing að sýna fram á að þetta eina og hálfa prósent sem aðskilji tegundirnar sé staðsett á verulega veigamiklum stöðum í menginu og benda sömuleiðis á að 97% af erfðamengi sveppa sé líkara okkar heldur en 97% af erfðamengi úr rottum.

Getur verið að rottur séu 96,9% með sama mengi og við?

Eða hvað? Eru prósentu fullyrðingar mínar réttar? Ég veit það ekki en það er hægt að slá ýmsu fram. Til er hellingur af vísindalegum greinargerðum í ýmsar áttir um sömu hluti sem þó stangast oft á, og oftar en ekki. Það fer þó eftir hvaða pólitísku vindar blása um heilabú þeirra sem skrifa, svo og hversu viðkvæmar framavonir þeirra kunna að vera.

Þó einhverjar plastagnir geti í einhverri smásjá túlkast í myndlíkingu við einhver hormón þá er það ekki hið sama og að allir karlmenn nútímans séu orðnir Metrósex útaf kókflöskum og plastpokum.

Á þeim tíma þegar við Ragnar gerðum opinbera greiningu á öragnaskýrslunni og samsetningu hennar, vigtaði ég innkaupapoka og skyrdós undan 500gr skyri. Bæði plastpokinn og plastdósin voru 170 grömm.  Því næst tók ég að horfa á fjölda af sambærilegum plastdósum sem sett voru á færiböndin hjá gjaldkerum í þeim matvöruverslunum sem ég stunda og bera þann fjölda saman við innkaupapokana sem fólk átti að hætta að nota.

Þar sem ég skrifaði ekki niður athuganir mínar eru þær ekki birtingarhæfar, ég get þó lofað þér að niðurstaðan var ekki áróðrinum í vil.

Á sama tíma gerði ég bráðabirgða athugun á olíuframleiðslu heimsins. Þumalputtareglan er sú að af hráolíunni sem dælt er upp, fer þriðjungur í eldsneyti, þriðjungur í gúmmí og þriðjungur í plast. Þá er eftir tíund sem fer í ýmislegt.

Hvergi er haldið að þér að nota minna af gúmmídekkjum og hvergi er haldið að þér að hafna plastpökkuðum matvælum eða að krefjast þess að Krúserinn þinn hafi viðarmælaborð í stað plastmælaborðs.

Ég reikna með því að langskólagenginn nútímaneytandi geti sjálfur reiknað út hversu litlu plastpokarnir skipta í þessari jöfnu og að augljóst sé að einhver áróður og valdabarátta sé hér í gangi.

Ég hef víða rætt við fólk í bílaiðnaði og svo til allir sem ég tala við tóku eftir fréttinni fyrir tveimur árum um mengunarhlutfall 15 stærstu skemmtiferðaskipa heimsins á móti hlutfalli einkabifreiða á heimsvísu. Þetta vilja eða þora engir stjórnmálamenn né vísindamenn ræða um en þeir sem þora því eru dímoniseraðir og jaðraðir mjög grimmt.

Hvar sem ég ræði við venjulegt fólk heyri ég iðulega að fólk fussar yfir því hvernig áróðurinn er framsettur í samanburði við þá mengun sem hlýst af framleiðslu á bílarafhlöðum og endingu þeirra.

Vindmyllur eru einnig skemmtilegt dæmi í þessu samhengi því það tekur áratug fyrir rafmagnsframleiðslu einnar hefðbundinnar vindmyllu að borga fyrir efnisvinnsluna sem liggur að baki hennar og önnur fimm ár að borga fyrir fjárfestinguna og þá á hún fimm ár eftir af líftíma, ef hún er ekki búin að tæta af sér legurnar í næstu vindhviðu og springa í tætlur.

Flestir hafa séð eitt eða fleiri myndskeið af slíku svo ég spyr, miðað við hversu mikið er af vindmyllum og vindhviðum, hversu líklegt er að þessi tvö tilfelli sem ég hef séð séu þau einu sem náðst hafa með myndavél? Er kannski hugsanlegt að þetta sé svo algengt að fólk þurfi ekki að bíða dögum saman úti í glugga með myndavél til að setja geta átt sitt eigið eintak af vindmyllu að springa í tætlur?

Á sama tíma finna grúskarar út marga tugi af vindmyllum sem hægt er að setja saman með nær engum tilkostnaði og setja upp á þak hjá sér, samsett að mestu úr afgangshlutum úr næsta bílhræi.

Þetta hef ég skoðað í þaula og hef viðað að mér þessum hlutum úr bíl sem ég var nýlega að rífa.

Þess ber að gæta að bílar eru ekki rifnir nú orðið heldur er tíu ára bílum hent fullnothæfum í pressuna vegna þess eins að þeir eru tíu eða tólf ára. Eins og með svo margt annað í samtímanum, nútímaneytandinn sem áður hét nútímamaður er bæði hættur að hugsa og nýta.

Bíllinn sem ég reif var sléttra tuttugu ára og fullskoðaður og enn nothæfur en þannig stóð á að ég eignaðist annan ári yngri sem var í betra standi og þar sem báðir þykja verðlausir var ákveðið að sá eldri yrði líffæragjafi fyrir þann yngri.

Nýlega ákvað Bónus að gefa fólki stóra og fína innkaupasekki og þáðu flestir eitt til tvö eintök. Næstu tvo mánuði sá ég þá vera talsvert notaða en það hefur þó minnkað og mun væntanlega hverfa með haustinu. Ég geri því skóna að Frankfurt skólinn verði með endurmenntun í tæka tíð.

Um sama leyti hætti þessi verslunarkeðja að bjóða hefðbundna plastpoka og tók upp aðra umhverfisvænni. Ég hef enn ekki rannsakað hvort þeir séu umhverfisvænni eða hvort samsetning þeirra sé þannig að halda megi því fram.

Það er að segja, ég á eftir að athuga hvort hér sé blekking á ferðinni til að fullnægja einhverri tísku. Ég hef heyrt fullyrðingar frá grúskurum um að svo sé og að rétt eins og með rafhlöðurnar séu þeir jafnvel verri.

Sjáum til með það. Eins og kerlíngin sagði, síðasta lýgin er enn ekki fram komin. Ég tek þó eftir öðru sem mér finnst spaugilegt, sem er að þriðjungur þeirra poka sem ég nota eru ekki nothæfir sem ruslapokar þegar heim er komið.

Pokarnir þola illa vörurnar og því fer þriðjungurinn í ruslið sem áður var notaður sem ruslapoki. Þriðjungur þeirra er því meiri sóun en af því sem áður var. Þá er það svo að þeir sem hættu að nota innkaupapoka og fóru að nota innkaupasekki þurfa nú að kaupa ruslapoka í plastrúllum, svo plastnotkun minnkaði nákvæmlega ekkert, ef eitthvað er þá jókst hún.

Þú munt engar mælingar finna um framangreint. Ég lofa þér að fyrir hverja þrjá innkaupapoka eru fimm til sex skyrdósir (kotasæla meðtalin).

Hér fyrir ofan fullyrti ég að þriðjungur hráolíu fari til eldsneytisframleiðslu. Rétt er að taka fram að þessi blogg-grein er ekki vísindaskýrsla heldur hugmyndafræðileg sálfræðigreining en það fag er ekki til í Akademíunni.

Af téðum þriðjungi veit ég ekki hversu mikið af aukaefnum er notað né heldur hversu hátt hlutfall hráefnis fer forgörðum við vinnsluna. Vafalaust eru til um það skýrslur en þær eru ekki ofarlega hjá Google né í grúskheimum.

Það sem er hins vegar almennt vitað, er að þegar bensín brennur í bílvél þá nýtist á bilinu 12 til 18 prósent vökvans en sé Díselolía brennd þá nýtist frá 45 til 65 prósent af eldsneytinu. Brennslan fer eftir samsetningu vélarinnar og hvernig brunanum er stýrt, eins eftir því hvaða álag er á tækinu sem vélin knýr.

Augljóst hlýtur að vera, þó þú sjáir útblásturinn úr dísel vélinni en ekki útblásturinn úr bensín vélinni, hvor þeirra sé meiri raunmengun. Auk þess er fnykur ekki alltaf það sama og mengun. Þetta vita allar Hákarlaætur og sömuleiðis eru til Ostasælkerar sem hafa þetta á tilfinningunni.

Óþarft er að minna á að til er tækni til að minnka útblásturinn og sía hann og þá er ég ekki að ræða um hvarfakúta sem eru óvísindalegt rugl.

Til eru kolsíur, sandsíur og vantssíur sem eru ódýrari og skilvirkari og krefjast minni orku en þær síur henta ekki tískunni. Sé ferðast um héruð erlendis þar sem fólk þarf að sía jarðvatn þá lærist manni fljótt að ýmisskonar síur  er til og að margar bestu aðferðirnar má framleiða heima í bílskur.

Rétt eins og með vindmylluna sem ég er að setja saman í frístundum, ekki til að framleiða rafmagn heldur til að sannreyna kenningu mína, að allt húsarafmagn sé 80% „of“ og að nýtilegri hugsun geti gjörbreytt allri orkuhugsun á svo til einu sumri en ég held þó að til þurfi mannfólk en ekki neytendur.

Eitt sinn var bóndi sem ég þekkti sem ákvað að svæfa hundinn sinn með útblæstri. Þó hann hafi oft aflífað kindur, hænur og nautgripi þá þótti honum svo vænt um þennan einstaka hund að hann treysti sér ekki til að aflífa hann með hefðbundnum aðferðum. Hann var af þeim skóla fólks sem aflífar sjálft dýrin sem því tilheyra frekar en að fela það óviðkomandi.

Hann setti því dráttarvél í gang úti í skemmu um kvöldið og kom hundinum þannig fyrir með bælið sitt að hann myndi örugglega anda að sér útblæstrinum og sofna um nóttina. Morguninn eftir var hundurinn veikur en sprelllifandi og varð síðar ellidauður. Frásaga bóndans hvatti mig til að grúska smávegis – því rétt eins og bóndinn – vissi ég að fólk hefur oft framið sjálfsvíg með útblæstri.

Reyndin er sú að mjög ólíklegt er að fólk deyji á einni nóttu við útblástur úr díselvél. Ég segi ólíklegt því hafa þarf í huga að máli skiptir hversu stór vélin er og hversu lítið rýmið er þar sem útblæstrinum er andað inn.

Eðlilega er ekki til rannsókn á þessu og harla óskemmtilegt umræðuefni. Neytendur eru aldir upp við að ýmist hlaupa í burtu frá óþægilegum málefnum eða reiðast með öskrum og athugasemdum þeim sem leyfa sér bönnuð umræðuefni.

Staðreyndin er sú að bensínvélin steindrepur þig en díselvélin ekki. Þeirri síðari var haldið að Evrópubúum fyrir áratug en er nú að verða ólögleg hjá hinum upplýsta neytanda víða um heim án þess að nokkur spyrji sig hvort ráði frekar pólitísk tíska eða raunveruleg vísindi.

Viti menn! Í fyrra var gert upplýst að fyrir tæpum áratug voru fjórir bílaframleiðendur sem sameinuðust um að rannsaka hversu lífshættuleg díselvélin væri. Var framkvæmd á því stýrð rannsókn sem leiddi í ljós mjög áhugaverðar niðurstöður. Um leið og flett var ofan af skýrslunni í fyrra, varð allt vitlaust í fjölmiðlum og stjórnmálum.

Umræðuefnin einblýndu á tvennt. Annars vegar ómannúðlega rannsókn á smáöpum og hins vegar sá áróður að þetta tengdist eitthvað ólöglegum mengunarvarnaútbúnaði og hefði vafalaust verið gert til að auðvelda lögbrotið. Engin málefnaleg umræða fór fram og bílaframleiðendurnir neyddust – eftir að verðbréf þeirra voru lækkuð með kauphallarárásum – að biðjast auðmjúklega afsökunar.

Ég leyfði mér að lesa fréttirnar um tilraunina frá fyrirsögn til endapunkts en ég er í minnihluta.

Flestir neytendur lesa – að því er mér sýnist – aðeins fyrirsagnir. Ég áttaði mig á því fyrir mörgum árum að bestu bitarnir eru yfirleitt neðst í fréttum og að ákveðnir hlutar texta eru oft í orðhengilshætti og flækjusetningum (sem þarf þá að lesa tvisvar og þá orð fyrir orð).

Ennfremur skanna ég oft eftir tilvitnunum t.d. í skýrslur og athuga þá hvort ég geti fundið heimildirnar og niðurhalað þeim þó ég kannski lesi þær síðar. Skýrslan um díselrannsóknirnar var nefnilega áhugaverð og þó ég gefi í skyn hér að dísel sé goðaprump þá er það ekki svo einfalt.

Snúum okkur aðeins að CO2 eða kolefnis mengun. Þú finnur engar áreiðanlegar mælingar eða neina grunnvinnu til að styðjast við, sem bendir til þess að áróðurinn og stjórnmálin séu fyrst og fremst að tryggja nýja skattheimtu og þá ekki síst hugarstjórnun.

Ef um hugarstjórnun og valdabaráttu er að ræða hlýtur að liggja beint við að spyrja hvaða alþjóðahópur eða hugmyndafræðiklíka sé að græða á vitleysunni.

Þú finnur hins vegar fjölda vísindamanna sem halda því fram að áróðurinn um kolefnislosun sé hreinn þvættingur en þeim er kerfisbundið úthýst úr akademíunni og gert lítið úr þeim bæði af stjórnmálafólki og athugasemdatröllum.

Þó eru til fjöldi vísindamanna, sem eru of öflugir og viðurkenndir til að hægt sé að útiloka þá, sem halda því fram að kolefnislosun sé hreinlega holl fyrir náttúruna og þeir benda á mjög sterkar vísbendingar. Þú finnur ekkert um þetta efst í leitarvélum og verður að grúska vel til að finna það og þegar þú finnur það þá hlýtur að vakna sú spurning hvernig algrím leitarvélanna séu samsett.

Ekki er það markmið þessarar greinar að rífast um kolefnisþvættinginn sem slíkan heldur ítreka það sem áður hefur komið fram: Hér er rætt um hugmyndafræðilega sálfræði en ekki vísindin sjálf.

Þegar maður ræðir þessi málefni við fólk verður það iðulega reitt. Rétt eins og þegar maður af einni trú ræðir við annan mann sem hefur aðra trú en sá fyrri reynist hafa betri undirstöður. Sá sem hefur veiburða undirstöður verður yfirleitt reiður ef sá sem hefur betri getur sýnt fram á að það sem fólk  heldur að sé sannleikur eða veruleiki reynist vera þvættingur og trúarofsi. Af slíku hef ég talsverða reynslu.

Þá benda sumir manni á „nasa.org/climate“ og segir manni að lesa greinarnar þar.  Það hef ég gert og ég bendi fólki á – rétt eins og með greinina sem við Ragnar yfirlásum opinberlega – að þú finnur engar mælingar hjá Nasa, nema grafa mjög djúpt, en þú finnur mjög mikið af yfirlýsingum og tilgátufullyrðingum (þetta er fínt orðalag fyrir Áróður).

Vissulega geturðu fundið mælingar en þú kemst fljótt að raun um að þær krefjast túlkunar og það er hægt að túlka mælingar á ýmsa vegu, svo og mælingarnar á bak við mælingarnar og ef þú kannt að kíkja eftir svartholum þá finnurðu mikið af þeim.

Á þessu stigi verður fólk enn reiðara og kemur með barnalegar fullyrðingar á borð við „þú trúir ekki á vísindin.“

Sé hinum sömu bent á að hin vísindalega nálgun eða hin vísindalega aðferð sé eitthvað til að beita en ekki til að trúa á og að staðreyndir hafi ekkert að gera með trú endurtaka þeir fullyrðinguna eða demba í mann helling af Copy-og-Paste áróðri af einhverjum þokumiðli – að ekki sé talað um einhverjar vitgrannar yfirlýsingar um trúað fólk.

Stundum er freistandi að benda á að 99 prósent af öllum vísindaframförum eru smíðaðar af andlega sinnuðum og trúuðum vísindamönnum (körlum og konum) en þá verður hinn sanntrúaði neytandi enn reiðari og samræðan endar í einhverri yfirlýsinga vitleysu sem er hugsandi fólki hrein tímasóun.

Oft er betra að gefa frá sér einn eða tvo vel íhugaðan staðreyndafrasa og fara svo heim að horfa á bíómynd frekar en að klifra niður um nokkur þrep í menningu.

Grínið er þetta: Af öllum sem ég ræði við þá er mjög sjaldgæft að tilbiðjendur lofslagsbreytingagoðsins viti hvað loftslagsbreytinga vísindin heita og skal taka hér fram fáein dæmi þessu til stuðnings.

Vísindamenn ræða yfirleitt um Anthropomorphic Climate Change sem er sérgrein innan þessara fræða. Aðeins er það um að meginmiðlar hérlendis séu farnir að ræða um Lofslagsbreytingar af mannavöldum frekar en Loftslagsbreytingar eins og þeir iðkuðu fyrir fáeinum árum.

Til eru vísindamenn sem rýna talsvert í á Heliacal Climate Change en um þau vísindi – sem eru vel í grunduð – er aldrei rætt í áróðursmiðlum eða í yfirborðsstjórnmálum. Einnig eru til vísindamenn sem rannsaka Geological Climate Evidence og eru þá að horfa á bíóryþma náttúrunnar meðal annarra þátta.

Í fyrra rakst ég á – í vönduðum ritum – að í margar aldir var til fyrirbæri sem hét Lunar Meteorology og var með þeim fræðum hægt að spá mjög vandlega fyrir um veðurfarsbreytingar allt að því mánuð fram í tímann. Þau vísindi voru mjög vandlega unnin og framsett en hafa dottið uppfyrir í tískustraumum.

Gaman væri að sjá hvort einhverjir sérvitringar hafi yfirfært þau vísindi til nútímahorfs.

Persónulega finnst mér þau fræði frekar áhugaverð en ég hef lengi haldið því fram að þvermenningarlegur tíðahringur kvenna sé áhrifavaldur á tunglið og sjávarföllin en ekki öfugt. Kannski fáránleg tilgáta en ekki fyrr en það hefur verið afsannað.

Sjáðu til: Það eru mörg skref á milli tveggja póla þegar eitthvað er sýnt, um leið og manni er sagt hvað það merkir. Hvort heldur það eru femínískar plastagnir eða allskyns tíðahringir. Hversu margir tilbiðjendur húmanismans skyldu vita að Sólmiðjukenningin er alls ósönnuð?

Rétt er að minna á að fyrir tveim til þrem árum eyddi ég talsverðri vinnu í heimildagrúsk á vefsíðum opinberra veðurstofa í Suður-Afríku, Indónesíu og Nígeríu til að leita að mælingagögnum um veðurfar og veðurfarsþróun – ekki síst hitastigsþróun – auk þess að skoða okkar eigin veðurstofu.

Menning og vísindi í þessum fjölmennu ríkjum er mjög þróuð og aldagömul.

Var þetta gert til að athuga hvort fullyrðingar erlendra grúskara væru réttar, að við leikmenn fengjum ekki aðgang að raunhæfum mælingum til að ganga sjálfir úr skugga um tölfræðina og túlkun hennar.  Valdi ég þessar fjórar stofnanir af handahófi en fann engar raunhæfar mælingar til að vinna úr en nóg af meðaltalsfullyrðingum.

Þá hef ég oft tekið eftir umfjöllun í Netheimum (sem útvarpsþættir segja að ekki megi taka mark á) frá áhugafólki um veðurathuganir um mismunandi mælingaaðferðir og mælingavinnu. Umfjöllun sem er verulega áhugaverð og virðist hvergi vera leyfð í neinum umræðum.

Að lokum skal minnast á að International Panel on Climate Change eða IPCC sem gefur út þær skýrslur sem pólitíkin og áróðurinn byggjast mest á. Þeir sömu sem skipa mér að tilbiðja goðið sitt vita yfirleitt ekki af þessari stofnun en gagnrýnendur vísindanna hafa iðulega lesið skrýrslur þar niður í net-kjölinn.

Ennfremur virðist mér að fæstir réttrúaðra viti að fyrirbærið sem þeir kalla Hnattrænt Loftslag (og/eða veðurfar) heitir Coupled Non-linear Chaotic System og að IPCC hefur margoft viðurkennt í eigin skýrslum – sem ég hef sjálfur niðurhalað – að lofslagsvísindin séu eingöngu byggð á tölvulíkönum en ekki á mælingum enda sé viðfangsefnið of stórt til þess.

Það er hins vegar ekki of stórt til að uppdikta nýja gjaldheimturöskun.

Að lokum biðst ég fyrirgefningar á að særa tilfinningar þeirra sem eru á röngum lyfjaskammti. Fullyrðingar um tölur eru mín mistök og ég lofa að uppfæra engar leiðréttingar á þeim fyrr en stjórnmálin uppfæra sín.

Varðandi rannsóknina sem minnst var á í upphafi:

Við höfum engar samanburðarmælingar um það hvort eitthvað af örplasti sé til af náttúrulegum ástæðum og þaðan af síður hvort slíkt hafi lengi verið til í náttúrunni og síðast en ekki síst hef ég hvergi séð neina vísindalega rannsókn sem sannað hafi að örplast sé náttúrunni óhollt. Ég hef þó séð mikið magn af greinum sem segja frá örverum í náttúrunni sem éta örplast og eyða því.

 

This entry was posted in Heimssýn. Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.