Persónuleg hugleiðing um að halda sig við efnið

Enska síðan mín – logostal.com – er smátt og smátt að saxa á íslensku síðuna mína – hreinberg.is – og sumpart að taka framúr. Sem er verulega sérstakt.

gudjon-img--0054Í fyrsta lagi geta pennar af mínu tagi sjaldan gert sér vonir um mikla lesningu og sérstaklega ekki þegar blandað er saman jafn mörgum og ólíkum straumum og ég geri.

Enn síður þegar skoðanir eru jafn langt út fyrir rammann og mínar eiga það til að eigra.

Þá er alltaf vafasamt að gera sér vonir um að geta náð árangri með öðru tungumáli en því sem maður hugsar á, því jafnvel þó maður nái að hugsa á öðru máli þá er setningaskipan með tilhneigingu til að lenda á gráu svæði.

Til dæmis er algengt að Íslendingar sem vinna mikið með Ensku, hvort heldur ritun eða lestur, lendi í að brengla setningaskipan þegar þeir skrifa á móðurmáli og öfugt. Ég viðurkenni heilshugar að oft þegar ég skrifa á öðru hvoru tungumálinu missi ég sjónar á öllum áttum varðandi hvorrar tungu setningaskipan ég nota og sigli bara á sjálfstýringunni.

Svo gripið sé í hina tunguna „I just wing it.“

Fyrir ári síðan var enska síðan mín með 15% af lesningu miðað við þá Íslensku en í dag er komin í u.þ.b. 60% að meðaltali. Auk þess er mun hærri endurheimsókn en 25% íslenskra lesenda koma aftur – samkvæmt Google Analytics – en tæplega 40% útlenskra lesenda koma aftur á þá ensku.

Einnig er meiri tíma varið á þeirri ensku – eða tvær til þrjár flettingar að meðaltali en að meðaltali ein og hálf á þeirri íslensku og varið er 50% meiri tíma á þeirri ensku. Þá er athyglisvert að árið 2014 tvöfaldaðist umferð á báðum síðum en árið 2013 jókst umferð um tvo þriðju.

Þetta síðasta er mér auðvitað kærast því þegar maður ákveður að marka sér braut á einstigi orðsins tekur við löng og ströng braut lærdóms og reynslu. Rétt eins og með tónlistarmenn má segja að andagift sé tíundi hluti og ástundun níu tíundu og það tekur yfirleitt mörg ár að marka sér nafn og finna lesendahóp.

Stærsta ábendingin sem ég fékk á þessari braut var fyrir tveim árum að ég rakst á tilvitnun eftir Seth Godin, sem löngu er orðinn vel þekktur skríbent á sviði Vefskrifa, og Vefútgáfu, um notkun Vefsins. Tilvitnunin hljómar svo; blog is not created, it is built.

Fram að þeim tíma hafði ég aldrei litið á smágreinarnar mínar sem neitt meira en eitthvað sem mér lá á hjarta og braust út. Ég hafði þær til skiptis á ýmsum ónotuðum lénum sem nalgun.is átti og þá eftir hentugleikum því ég færði þær til eftir því sem lénin voru tekin í notkun og undir það síðasta á undirlénum á útgáfuvefnum mínum not.is.

Þegar ég sá fyrrgreinda tilvitnun ákvað ég að kaupa sérstök lén, annað fyrir Íslenskar greinar og hitt fyrir enskar. Sú ákvörðun er án vafa hluti þess að skrif mín eru í sókn, því Google er stór hluti þess að efni fær lesendur og þegar greinaskrif á Vefnum eru á flækingi milli léna eða á undirlénum lækkar vægi þeirra í leitarniðurstöðum.

Ég segi smásókn því skrifin mín eru ekki með stóran lesendahóp í hausatölu, en þó, séð frá hlaðinu heima er hver haus merkilegur í mínum augum.

Reglulega fæ ég ábendingar og athugasemdir frá fólki, bæði vorlendingum og útlendingum, og þær saman við það sem að framan er talið segir mér að halda áfram að tjá mig um þann heim sem ég meðtek (perception) og upplifi. Þetta er skemmtilegra þannig, því viðbrögð skapa óbeina samræðu og lesandinn eykur því á dýptina ef maður veit af honum.

Ég var sumsé, rétt áðan að skoða Google Analytics mælingar, sem nalgun.is er með á öllum sínum vefsíðum, og þessar hugrenningar runnu um hugskotið.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.