Að mennta í hugsun eða kenna hugsunarhátt

Ég var alinn upp í menntakerfi sem gerði hiklaust grín að þeim nemendum sem hugsuðu út fyrir þann ramma sem meginstraumur hinna krakkanna og kennarans þóttu við hæfi. Þetta kerfi mældi gáfur nemenda sinna eftir minnisgetu sinni á prófum sem í raun mældu aðeins tvennt.

img-coll-0079Annars vegar hversu vel var tekið eftir í leiðinlegri og niðurdrepandi skólastofu þegar áhugaverðara var að horfa út um gluggann og láta sig dreyma um ógurleg ævintýri í viðureignum við ljóta dreka, bjargandi sætum prinsessum eða þá að leggja vegi um ónumin lönd, ímynda sér heri takast á með sverðum og vaðslöngvum fyrir daga leiðinlega staðreyndasögu kennarans. Hins vegar hversu vel maður las bókina daginn fyrir próf.

Aldrei man ég til þess að prófað væri úr getu nemandans til að tengja saman punkta sem við fyrstu sýn virtust óskildir, annnað hvort með því að nota ímyndunaraflið og spinna hugsanlega (en skapandi) fléttu á milli punktanna eða finna þann þriðja sem sameinar. Ekki man ég eftir neinni hvatningu til að vinna upp úr leiðinlegu og þurrlegu námsefninu eitthvað spennandi eða heillandi.

Þvert á móti man ég vel eftir mörgum dæmum – sem ekki eiga erindi hér – sem beinlínis hvöttu huga í mótun til að laga sig að normum og kassalaga viðmiðunum misþröngsýnna og misgrunnhygginna viðhorfa þeirra sem ekki skildu að þeir sjálfir höfðu verið mótaðir af skólakerfi sem beinlínis miðaði að því að framleiða þegna og vinnuafl.

Ég heyri sjaldan rætt um menntakerfi landsins öðruvísi en í sjálfbyrgingslegu monti yfir að við höfum svo fínt kerfi enda 80-90% þjóðarinnar talin læs. Sjaldan heyri ég spurt hvort nemendur þurfi að sitja í ferskri og skemmtilegri skólastofu daginn út og daginn inn frá sex ára aldri til fimmtán ára aldurs til þess að kunna að lesa, skrifa og reikna. Amma kunni þetta allt og hún gekk í fáeinar vikur til prestsins í tvo vetur.

Reyndar var amma mín hrifin af skapandi hugsun svo langt sem það náði. Ég sá það ekki þegar ég var að alast upp við pilsfaldinn hennar en ég þakka henni það í dag að hún var ekki steinrunnið diplómufífl.

Ég hef á síðustu tveim áratugum heyrt eina rödd gagnrýna Íslenska menntakerfið með rödd sem vert er að hlusta á. Því miður man ég ekki nafnið því ég heyrði hana tala í útvarpsþætti – þar sem viðtal var við hana tekið vegna bókar sem hún gaf út (fyrir u.þ.b. 2-3 árum). Hún hafði verið kennari um árabil en var komin á eftirlaun og hún benti í viðtalinu á margt sem hafði breyst í áranna rás.

Var ég feginn að sú neikvæðni sem ég hóf þessa athugasemd á var aðeins að hluta á rökum reist. Benti hún á að *kerfið* hefði þroskast en þó kom í ljós í viðtalinu að óvíst væri að hún hefði gefið út bókina væri hún ennþá á launum hjá kerfinu. Stór hluti landsmanna veit hvers vegna.

Það eru til í það minnsta sjö mismunandi aðferðir til að byggja upp menntakerfi. Ég veit aðeins til þess að ein hafi verið reynd hérlendis. Ég veit líka að heimskur er heimaalinn þverhaus. Því hvað er skapandi hugsun og á hverju er hún reist, og umfram allt; hverju fær hún áorkað?

Máli mínu til sönnunar skora ég á Gallup og Félagsvísindastofnun Háskólans til að gera samtímis eftirfarandi könnun meðal hinnar læsu þjóðar.

  • Hefurðu lesið stjórnarskrá Lýðveldisins frá 1944?
  • Veistu hvað siðferðissáttmáli þjóðar myndi nefnast?
  • Hvað er Íslenska stafrófið margir bókstafir?
  • Hvað er Arabíska talnakerfið?
  • Hverrar þjóðar var herforinginn sem tók Aþenu af Rómverjum þegar Vestrómverska ríkið féll?
  • Hvernig tengjast þessir punktar?

 

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.