Skyggnusýning hins tvívíða heims

Fyrir fáeinum vikum tók ég eftir því að ég var orðinn háður Facebook, ekki að ég yrði að vera tengdur og tékka á veggnum daglega, ekki heldur að ég yrði að tékka oft á dag; ég var með tvo prófíla opna allan daginn, annan í Chrome og hinn í Firefox.

img-coll-0147Allir vafrar leyfa í dag svonefnt Tabbed Browsing eða Flippað vafstur – svo notað sé slangur. Þú getur í dag athugað tölvupóst, gúglað til hægri og vinstri, fylgst með fréttasíðum á víxl og með tveim vöfrum haft tugi flipa opna samtímis.

Smám saman ágerðist fíkn mín í vegginn. Þar sem ég er grúskpælari og er virkur í að láta frá mér það efni sem ég er að grúska í – hvort heldur það eru innri pælingar og lífsreynslur eða þekkingarvafstur – þá er ég sískrifandi.

Það er langt síðan ég hætti að velta fyrir mér hvar eða hvernig ég skrifa. Sumt skrifa ég þannig að ég hljóðrita athugasemdir með símanum mínum og vélrita þær síðar inn. Stundum geymi ég hljóðritanir mánðum saman og flokka þær.

Þannig hafa sumar bóka minna orðið til, að ég safnaði athugasemdum í bing yfir langt tímabil, yfirfór þær síðar og annað hvort vélritaði upp og hreinsaði eða gerði mér skýrari hugarmynd og hljóðritaði því næst á örfáum dögum það sem í huga mér hafði tekið mynd.

Orðatal var til að mynda hljóðrituð á sex dögum en hafði í raun verið tvo áratugi að fæðast. Varðmenn kvótans hljóðritaði ég þrisvar frá upphafi til enda á um það bil hálfu öðru ári en fyrir þriðju útgáfu vélritaði ég upp aðra útgáfu og snurfusaði áður en ég hljóðritaði það sem ég skrifaði.

God’s Will var hljóðrituð á þrem dögum og sett á Netið. Því næst setti ég hana á disk sem hægt var að hlusta á í bílnum þannig að ég gat hlustað á hana hvar og hvenær sem er. Fór hún í gegnum tugi afspilana meðan ég bar hana í huganum saman við þætti í þekkingarbrunni mínum á meðan ég mat hvort ég myndi standa við þetta verk eða ekki.

Í lokin vélritaði ég fyrstu útgáfu, snurfusaði orðalag, og endurhljóðritaði það handrit. Báðar útgáfur eru á Vefnum svo áhugasamir lesendur geta borið innblásturinn saman við lokagerðina.

Ferli hins jákvæða vilja er stórt handrit sem enginn hefur fengið að lesa og líklega verður það ætíð þannig. Sú bók var í rituð með hátt í tvöhundruð hljóðritunum sem síðar voru flokkaðar í níu stoðir Ferlisins og vélritaðar.

Úr þeirri vinnu varð til hljóðbókin Jákvæða Ferlið sem er aðgengileg í fyrstu útgáfu sinni á vefnum, en það verk var gert á níu mánaða tímabili og hver upptaka (eða kafli) frumsaminn jafnóðum og hann var settur á Vefinn. Ári síðar gerði ég lista yfir kaflaheitin og samdi nýtt verk – The Process of Positive Willpower – á ensku og setti jafnhliða á Vefinn einnig.

Bæði Raunir Kornelíu og Bréf frá Sjálfsmorðingja eru stuttar og hnitmiðaðar, önnur þeirra er skáldsögufrumraun en hin er sjálfsævisögutengt efni.

Báðar voru samdar jafnóðum og þær voru hljóðritaðar og settar hrátt á Vefinn, en bæði verkin voru unnin á einum degi. Í báðum tilfellum áttu þær margra mánaða fæðingaferli í huganum, sú fyrri var í raun fjögur ár að fæðast.

Ég er ekki að gefa út bækur á prentuðu formi, né heldur hef ég áhuga á að lesendur greiði peninga fyrir þær. Í rauninni er ég ekki heldur að semja bækurnar mínar með það að markmiði að semja bækur, þær fæðast bara upp úr hellum sálarfjallsins. Svo taka þær á sig líf.

Sumar þessara bóka eru til eingöngu sem hljóðbækur og er það minn megin vettvangur en sumar þeirra – á borð við Endurreist Þjóðveldi – má nálgast á PDF sniði engu að síður.

Því hefur Facebook verið nokkuð mikilvægt verkfæri fyrir mig til að koma bókum mínum á framfæri; að geta látið vini og kunningja vita af þeim án þess að ýta þeim upp að þeim. Það er styrkur að geta samið efni – eins og blogg síður – og geta límt þær inn á sameiginlega vegginn án þess að hugsa frekar út í hvort þær séu lesnar eða ekki.

Í mínum huga vil ég helst ekki vita af bók – eða efnisþræði – þegar ég er búinn að klára pakkann og líma hann saman á þann hátt sem mér líkar. Þegar verkið er tilbúið – eða í opnu handriti – þá er það sýnilegt öðrum til að rýna í en ég vil halda áfram mínu einkaferli á fljóti lífsins og takast á við næsta verkefni.

Þetta er þó aldrei svo einfalt. Orðatal er til að mynda ennþá í handriti. Ég er búinn að yfirfara hana í fáein skipti og afla mér meiri þekkingar á viðfangsefninu og er 98% sáttur við verkið.

Hins vegar er það óklárað, ekki búið að líma pakkann saman, og á meðan líður ekki sá dagur að ég hugurinn hvarfli ekki þangað. Þegar ég fæ nýjar hugmyndir eða nýr farvegur fæðist – sem gæti orðið nýtt bókarverkefni eða vefsíða – minni ég mig á; Orðatal er ókláruð.

Síkvikur hugurinn getur verið vandræðaskepna. Þegar ímyndunaraflið fer á flug fæðast hugmyndir. Sumar hugmyndir eru eins og legókubbar sem passa inn í lítið lególand aðrar eru lítil púsluspil sem passa inn í stærri mynd þar sem enn vantar tugþúsundir púslna.

Sé sami hugur sífellt að kynna sér nýtt menningarefni eða tileinka sér nýja þekkingu fá snjókorn að fjúka inn fyrir opinn gluggann og ákveða þarf hvort snjókornin séu mynduð og geymd inn í aðrar púslur eða leyft að breytast í poll sem ýmist er þurrkaður burt eða fær að gufa upp á sinn náttúrulega hátt.

Margir hugarsmiðir vinna skipulega eins og herforingjar. Þeir glósa niður hugmyndir á miða sem þeir safna og geyma, sumt nota þeir innan skamms og annað löngu síðar. Halldór Kiljan Laxness vann sumar skáldsögur sínar yfir áratugi og sumar þeirra voru marguppritaðar áður en handrit fór frá honum.

Hann var ávallt með miða og blýant í vasanum og vaknaði snemma á morgnana til að fara einn í gönguferðir – en allir þekkja hversu virkur hugurinn verður á gönguferð úti við – og vann síðan til hádegis við skrif. Var hann verulega agaður við skipulag sitt og þekkja margir rithöfundar hið sama. Allir velja þeir tíma þar sem auðveldast er að finna næði, sjálfur vil ég helst næturnar eða eftirmiðdaginn en síðari tímann er erfiðast að verja fyrir árásum.

Einnig er áhugavert hversu margir sem vaka á feisinu á næturnar halda að maður hljóti að vaka af leiða eða svefnleysi og vilja koma af stað samræðum.

Ég glósa í textaskjal í tölvunni, eða textaskjöl, þar sem daglega hripast inn setningar, hugmyndir, skilgreiningar, tenglar og annað, einnig vista ég myndir sem eru kveikja að hugmynd eða sögubroti. Ég geri oft hugarkort á blað sem ég síðar tek mynd af með símanum (ef ég vil eiga kortið). Margir hugarsmiðir nota samræður við aðra til að hugfesta sér það sem þeir eru að vinna með, en samræður negla inn í minnið jafnhliða því að mótsvör annarra dýpka pælinguna.

Vissulega nota ég samræður þar sem það er í boði en síðustu ár nota ég frekar upptökutækið. Allir sem vinna með heimspeki eða samfélagsrýni kannast við hversu mikilvægt er að komast í öflugar samræður við fólk sem hugleiðir sams konar viðfangsefni og þá sérstaklega þegar menn hafa olík sjónarmið sem þeir geta rökrætt af virðingu og festu; því maður brýnir mann.

Allir sem vinna með efni enda á því að finna sér farveg, eða tón. Í Skammtavitund (Quantum spirituality) mætti eins segja að mislangan tíma tekur fyrir farveginn að finna eða móta verkamanninn.

Minn tónn var mörg ár í smíðum – eða á siglingu til mín – því bæði var að ég ætlaði mér ekki út í hugarland af þessu tagi né heldur hef ég áhuga á að temja mér þann aga sem þarf til að gera sér atvinnu úr því. Auk þess eru mín viðfangsefni frekar ólíkleg til að skapa eftirspurn og í kjölfarið atvinnu, svo ég sé ekki tilgang í að fara í svo leiðinlega átt.

Þegar tónninn hins vegar festir sig sjálfur í sessi og fer að krefjast þess að úr honum verði ritað lag, eða stef, verður innblásturinn heilagur þeim sem með hann vinnur. Innblástur er þó vont orð þó það merki hið sama og enska orðið Inspiration þá hugnast mér betur orðið Andagift.  Segjum að þegar andagiftin finnur farveg sinn til þess sem úr henni vinnur þá verður hún heilög þeim sem hana fær.

Eitt af því sem einkennir andagift – samanber það sem ég rakti hér að framan – er að hvert verk sem úr henni verður á sinn eigin tíma í farvegi þess sem vinnur það. Stundum geta því liðið mánuðir þar sem maður eins og eigrar um hugarlandið og hinn sameiginlega veruleika samfélagsins, eins og tóm skel þar sem þó eru sterkar vindhviður anda og hugsunar, og alltaf einhver glósuvinna.

Yfirleitt er slíkt tímabil mælt í vikum og jafnvel mánuðum.

Margir metsöluhöfundar hafa minnst á þetta. Þeir glósa efni daglega og þá oft án sérstakrar stefnu. Þeira taka hluta dagsins í þáttöku samfélags – hvort heldur úti í bæ eða í samskiptum við fjölskyldu og vini. Þeir fylgjast með atburðum eða lesa sér til.

Svo skyndilega eins og skrattinn úr sauðaleggnum er í huganum tilbúið verk sem krefst þess að vera smíðað í hinum sameiginlega veruleika okkar og það þolir enga bið heldur brestur fram eins og flóð sem ryður sér leið yfir hvaða hindrun sem er.

Á þeim tíma sem líður þarna á milli geta samfélagsmiðlar verið bæði blessun og bölvun og þannig var Facebook orðið mér. Hugleiðingar sem annars hefðu ratað í glósur voru orðnar að stöðuuppfærslum, sumar vinsælar og aðrar sniðgengnar, og ég var orðinn háður því að fylgjast með viðbrögðum við bullinu í mér.

Allir heimspekingar vita að hugleiðingar þeirra eru bara bull og ekkert annað. Svo eru til aðrir með ýmsar gráður sem jafnvel skrifa bækur, en það er önnur ella.

Heimspekingur sem krefst þess að vera tekinn alvarlega væri réttara að setja í flokk heimskekinga. Á ensku mætti umorða sömu meiningu þannig „Philosophers demanding to be taken seriously falls into the abyss of Philoselphers.

Eitt sem gerist þegar þú ferð að taka þátt í hinni tvívíðu veraldarhyggju samtímans, hvort heldur þú ert hlekkjaður við fjarstýringu sjónvarsptækisins, stjarfur af mataðri dáleiðslu, eða hvort þú tekur þátt í misvitrænu moldviðrinu á Facebook eða Twitter, er að þú missir yfirsýn yfir eigið hugarland og teymist með í darraðardans yfirborðsmennskunnar.

Smátt og smátt verður það meira virði hversu mörg læk þú færð eða athugasemdir en hvort rætt var um – svo notað sé orðalag Gunnars Dal; eitthvað af viti.  Margt sem maður setur fram getur verið djúpviturt og rammlega pælt en fær engin viðbrögð í tívíðum veruleika meðan hugarfroða fer á flug í vinsældakasti og rökræðum og áður en maður veit af er dagur liðinn á hinu stafræna kaffihúsi.

Margir misskilja skoðanaskipti í athugasemdum við færslur – eða í opnum samræðuþráðum (sem er ekki hið sama og spjall eða Chat).

Því rökræður sem framdar eru í virðingu með eða móti eru skemmtilegar og ævinlega víkka eða dýpka sjóndeildarhringinn, en á meðan maður er fastur í dansinum er maður eins og ringlaður Dervís sem spinnur sig hring eftir hring í spuna þar til hann fellur í öngvit eða uppljómun.

Raunar var veggurinn orðinn að glósuskjali. Sumar greina minna fæddust þar af hvatvísi einni saman, aðrar voru minnismiðar að hugsanlegum greinum og annað voru einfaldar orðastungur til að reyna að skilja samtímann eftir viðbrögðum við stungunni. Fyrir tveim dögum gaus skyndilega gall upp í hugarkokið. Sú neikvæða sýn á feisið sem ég minntist á í upphafi greinar varð að súru galli og ég lokaði báðum prófílum mínum, eftir að hafa fyrst afritað mikilvægar glósur.

Síðan ég lokaði hefur ríkt undarleg kyrrð í huganum – sama dásamlega kyrrðin og þegar ég lokaði fyrir aðgang sjónvarps að huga mínum – og ég er farinn að heyra í sjálfum mér aftur. Viti menn; ég er jafnvel farinn að eiga betri samskipti við félagsnetið aftur – rétt eins og þegar dímon sjónvarpsins var svældur út.

Enn og aftur sé ég – og sífellt skýrar – hvernig meginstraumurinn getur laumast að þér um hverja þá glufu sem þú ekki lokar fyrir, og dregið margvíðan huga þinn og dýpt sálar þinnar, inn á plan tvívíðrar yfirborðsmennsku.

Viltu kyrrð? Leyfðu henni að koma og taktu eftir að hindrun hennar ert þú. Ég lofa þér að ef þú sigrar hindrun kyrrðarinnar muntu uppskera dýpt sálar þinnar og öðlast aftur þann kraft sem andaverur vonskunnar í himingeimnum rífa öskrandi frá þér. Því þær öskra, en þú þarft að fara inn í kyrrð til að finna hversu eyru sálar þinnar eru þreytt.

Að endingu vil ég nefna að á vefnum logostal.com hef ég ritað tvær greinaraðir sem tengjast viðfangsefninu hér í lokin. Annars vegar röðin „Seven Seals“ og hins vegar „Seven Angels.“ Báðar eru þær túlkun á sýnum sem mér voru gefnar sem opnuðu fyrir skilning á tvenns konar spádómum í Opinberunarbók Jóhannesar.

Skilningur þessa efnis opnar fyrir skilning á öskrum dáleiddra egóa samtímans, sem heyrast í gegnum sál þína, en egóheimurinn er nær því allur dáleiddur af andaverum vonskunnar og úr tengslum við eigin sál, þannig er sköpunarkrafti sálna tappað af þeim.

Egó geta ekki skapað – þau geta bara framkvæmt – og þegar þau missa tengsl við sál sína, og þar með tengls við skapara okkar, komast andaverur vonskunnar að.

Vís er sá er veldur.

 

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.