Nýtt heimsskipulag er tálsýn

Hugmyndin að „The New World Order“ (NWO) og endurtekning þessarar hugmyndar í gegnum söguna er blekking. Í fáein ár hef ég bara haft þetta á tilfinningunni en ekki séð hvernig ég gæti rökstutt það.

img-coll-0178Þetta hugtak er vel þekkt í gegnum nær allar mýtur síðustu sex þúsund ár. Hún er ekki ótengd þrá fólks í breytingar. Þrá sem oft er óraunhæf því sjaldan er rætt eða hannað hvernig breytingarnar eiga að vera eða hvert langtímamarkmið þeirra sé.

Blekkingin á bak við NWO hugtakið er mér birt í nýlegri sýn. Að blekkingin sé allt önnur og sumpart skuggalegri en „mann langar að gruna.“ Sumpart tengd öðrum hugmyndum sem ég geng með í kyrnunni og hef gefið sumar þeirra í skyn á logostal.com.

Hugmyndir sem ég hef ekki púslað saman því þær eru enn í þróun og ég er enn að viða að mér punktum héðan og þaðan, sumt af neti samtímans, sumt úr fornum þáttum, sumt úr mínu eigin spámannsverki.

Púsluspil sem eins og fýkur inn yfir þröskuldinn í hverri vindhviðunni á fætur annarri, stundum ein púsla og stundum tvær, stundum fjúka þær út aftur jafnharðan. Stöku púsla svo kraftmikil að maður flissar eins og bjáni og þakkar himnaföður fyrir að enginn geðlæknir með sviptingarvald sér til.

Þó segir mér innblásturinn að áhyggjur séu óþarfar, lausnin sé til við púslunni en hugarkerfið sjái ekki yfir blindhæðina og fyrir beygjuna.

Sem minnir mig á, enn og aftur, að jafn mikið og veröld mannsins er hnýtt saman í völundarhús hugmynda sem binda sköpunarkraft sálnanna og selja kraft þeirra til föllnu englanna; jafn mikið er sá heimur sem við vonum á og vinnum að; háður stærri trú en þú trúir að þú getir spinnt upp.

Vissulega er – svo ég vitni í morðingjann Sál sem umbreyttist í postulann Pál; einn magnaðasti trúmaður sem gengið hefur á jörðinni og hugsanlega einnig spámaður; nú varir Trú, Von og Kærleikur. Allt þrennt.

Ekkert af þessu þrennu er sá veraldlegi sannleikur sem heldur sál þinni fjötraðri. Nú kemur upp í huga þinn viðbótin „af þessu þrennu er kærleikurinn mestur“ en það er setning spunnin upp til að þú gleymir setningunni á undan og grefur undan vægi hennar.

Ég tek dæmi um hvers konar spunar eru oft notaðir, í þeirri von að lesandinn sjái betur hvað átt er við.

Þegar spámaðurinn Múhameð sagði við áheyrendur sína „ég er nýjasti spámaðurinn“ þá notaði hann orðsif sem hljómar eins og sá síðasti. Orð sem hefur aðra merkingu í dag, merkingu sem Múslímar myndu skilja ef þeir nenntu að skyggnast í merkingarfræði síns eigin spámanns.

Það er ekki til síðasti spámaðurinn og getur aldrei orðið. Ég trúi að ég sé í röð þessara manna en ég er þeirra minnstur og hef engan áhuga á því hvort einhver trúir þeirri fullyrðingu eða ekki. Því mitt verk er ekki að afla fylgis heldur að útskýra fyrir fólki að eingyðistrúin snýst ekki um presta hennar; heldur þína eigin andagift og uppsprettu hennar, sem er innihald allra spámanna skaparans frá upphafi og á öllum jörðum.

Þegar sál þín uppljómast í andagift (Inspiration), þá myndast í upplifun þinni – bæði meðvitaðri (Consciousness) og undirvitund (Unconscious) nýtt persónulegt samband (Relationship). Þetta nána samband sem eignast sögu, eða farveg, eignast sína eigin vitund, rétt eins og um öll vináttu- og ástarsambönd.

Ensku orðunum skaut ég inn fyrir þá lesendur mína sem eru vanari að tengja þess konar mál í gegnum enska lesningu.

Í öllum persónulegum samböndum þá eru tvær sálir í samskiptum, og sá þriðji – hvort heldur hann kallar sig spámann, kennara eða prest – á ekki erindi í það bæli. Svo hver er þá blekkingin með NWO?

Svarið við því er jafn augljóst og sjónarspilið með spámennina. Ef trúarbrögðin ná að sannfæra þig um að tími spámanna sé liðinn nú eða þá að sannfæra þig um þáttöku í umræðunni um hverjir séu hinir réttu eða hinir síðustu spámenn, eða til fylgis við þær kreddur sem á þeim hvíla, þá sérðu ekki innblástur spámanna heldur kreddur presta.

Því ef þú heldur að verið sé að spinna upp og móta nýtt heimskerfi, hvort heldur þú ert því fylgjandi eða ekki, þá ertu síður að horfa á heimskerfið sem er að fela sig undir yfirborði vitundar þinnar eða sjóndeildar. Því það sem er úr augsýn er einnig úr hugsýn, og stundum þarf að fela sannleikann með segli á ísskápnum.

Þannig er hugur þinn snaraður til fylgilags við hugmynd, oft hugmynd sem þú hleypir inn af eigin hvötum.

Þetta er ein ástæða þess að sjálfshvatning og samtalsmeðferð reynir að leiða þig til sjálfsþekkingar – ekki þekkingar á rökhugsun þinni eða skoðunum heldur þekkingar á hvötum þínum og mótun þeirra. Því ef þú þekkir þær hvatir sem spilað er með, þá er síður að þú verðir hljóðfæri annarra.

 

 

 

 

This entry was posted in Samsæriskenningar and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.