Foringi föllnu englanna fjötraður

Þegar ég var sex ára fékk ég mína fyrstu martröð. Hún var ljóslifandi draumur og ég mundi drauminn árum saman. Hann var svo skýr – og átti sér stað í götu í hverfinu heima – að ég eyddi talsverðum tíma næstu árin að ganga um hverfið til að finna götuna aftur en fann hana aldrei.

img-coll-0484Ég var alltaf sannfærður sem drengur að gatan væri til. Næstu tíu árin efaðist ég aldrei um að gatan var til enda rættust margir drauma minna og gera stundum enn.

Til að mynda dreymdi mig tíu ára fyrir því þegar grunnur var tekinn að nýju húsi heima hjá ömmu í sveitinni (en ég fluttist til ömmu þegar ég var níu ára) en grunnurinn að húsin var tekinn þegar ég var fimmtán ára.

Engum sagði ég drauminn og segi sjaldan drauma mína en þó hef ég haldið draumadagbók af og til frá þessum árum og geri stundum enn. Sumarið sem ég kynntist sambýliskonu minni dreymdi mig skrítinn draum sem ég skráði niður en ég gleymdi honum fljótlega.

Árið eftir að við sambúð okkar lauk, sjö árum síðar, rakst ég á færsluna og gapti af undrun, því draumurinn lýsti sambúð okkar á kjarnmikinn hátt frá upphafi til enda. Um svipað leyti kynntist ég sálfræði Carl Gustav Jung og heillaðist af nálgun hans á undraheima sálarinnar og margt í hljóðbók minni „Jákvæða Ferlið“ er undir sterkum áhrifum frá Jung og Alan Watts. (ferlid.not.is)

Átta ára var ég farinn að hugleiða yfirskilvitleg efni, enda var ég skyggn og hafði spáhæfileika sem sögðu mér að ekki væri allt eins og það sýnist.

Ekki lagði ég á þeim árum mat á það hvort maður væri bilaður á geði eða hvort það sem maður upplifði væri eins og maður upplifði eður ei. Ég komst fljótt að raun um að sumt sem maður telur sig skynja getur verið manns eigin óskhyggja eða ímyndun.

Stundum segir maður þó „að eitthvað sé eins og maður skynjar“ en maður veit þó að síðar getur sá skilningur og skynjun breyst. Sem dæmi má taka að þó þú sért einn heima og skynjir sveip í húsinu getur það verið duld úr eigin sálvitund, minning hússins af einhverju sem gerðist og enn er til í tíðni efnissins – sem er ekki fjarlægari rök en tilvist gsm síma – nú eða þá að þarna er sveipur á ferð um stund.

Átta ára var ég því farinn að spyrja spurninga á borð við „er til guð, eða guðir, eða eitthvað meira?“ Hefur sú kjarnaspurning fylgt mér allt mitt líf en sama ár lagði ég á mig að læra Faðirvorið og bað það stundum á kvöldin upp frá því.

Aldrei varð ég fyrir neinum þrýstingi frá uppalendum mínum, hvorki hvetjandi né letjandi, í þessar áttir og hef ég ávallt verið forsjón minni þakklátur fyrir það, því ég veit með vissu að áhugi minn á óéðri tíðni tilvistarinnar er sprottinn af mínum eigin skrýtna áhuga en ekki fyrir utanað komandi þrýsting.

Vissulega hef ég þó oft orðið fyrir áhrifum úr ýmsum áttum. Annað er ekki hægt.

Fyrir einhverja dularblessun forlaganna, eða fyrir kjark minnar eigin sálar, hef ég aldrei verið hræddur við að fara ótroðnar slóðir í leit minni að svörum við téðri kjarnaspurningu og oft ruggað bátnum af þrákelkni minni til að vera sannur og heill í þessari leit, hvort sem sýn mín á hverjum tíma hefur verið rétt eða röng.

Þegar ég var tvítugur hafði ég þegar fetað ótroðnar slóðir, ræktað skyggnigáfuna, fiktað í spámiðlun með ýmsum aðferðum, og jafnvel tekið fyrstu sporin í kynngi svo eitthvað sé nefnt. Mikið hafði ég skoðað austrænar hyggjur og var mjög spenntur fyrir shaman’isma en eingyðistrúna (kristni, júðsku, islam, zoroaster) lét ég vera og forðaðist eins og heitan eldinn.

Þar kom að ég varð fyrir magnaðri trúarlegri upplifun, fyrst einu sinni og svo aftur og aftur yfir nokkurra vikna tímabil. Endaði sú upplifun, sem var eins og straumur af tengdum upplifunum, í því að ég tók kristna trú. Umskiptin voru mér sjálfum þvert um geð í fyrstu en hef ég vaxið í skilningi minum á boðskap meistarans æ síðan, en sjaldna á hefðbundinn hátt. Skrýtið hæfir jú skrýtnum.

Þó langt sé um liðið hefur stígurinn verið krókóttur og þröngur alla tíð. Sem dæmi má nefna að hugsun Taó hefur alltaf verið nærri sál minni og þó ég lesi mér lítið til um þá hugsun þá er eins og hún sé undirliggjandi lind á bak við margt í sýn minni á heiminn.

Svo römm er sú taug að lestur einnar blaðsíðu í bók Miyamoto Musashi – Go Rin No Sho – hafði svo djúp áhrif á mig að ég réð mig í vinnumennsku á sveitabæ og var þar hátt í tvö ár meðan ég þróaði hugleiðsluaðferð til að skilja innihald þessarar síðu. Er sú reynsla enn með mér rúmum tveim áratugum síðar.

Sumarið 2010 fékk ég vissar vitranir í kjölfar bænastunda sem rugguðu mínum innri bát.

Þessi atriði ágerðust fram til vorsins 2012 þegar ytri þrálát ytri atvik í tilveru minni tóku að undirstinga sömu innri vitranir. Vild ég ekki hlýða því sem mér fannst mér vera ýtt út í en lét undan. Nánar lýsi ég ekki þessum trúarlegu upplifunum í rituðu máli en þær urðu til þess að ég ritaði bókina „God’s Will.“

Var mér þvert um geð að rita þessa bók og hálfu ári eftir tilurð hennar tók ég hana af netinu. Gerðust þá fleiri atvik í ytra lífi mínu sem ágerðust og gerðu mér erfitt fyrir. Eftir kyrrláta kvöldstund ákvað ég að setja bókina aftur á Vefinn og breyttust ytri aðstæður hratt aftur.

Þetta var haustið 2012 en í desember 2012 hóf ég að hreinskrifa bókina og endurhljóðrita hana og er sú upprunalega einnig á Vefnum til samanburðar – þ.e. hvort hreinritunin fylgi eftir hinum upprunalega innblæstri. (prophet.not.is) og (prophet2012.not.is)

Hér er auðvitað stiklað á stóru og sumt er þegar tilgreint í formálanum að Orðatal. Skemmst er þó að nefna að í gegnum árin hefur sjálfsnám í Biblíunni og tengdu efni verið mér mikilvægt. Nægir að nefna að ég las um tíma hina heilögu bók á þrem tungumálum mér til skemmtunar og að ég hef afar gaman af að gjugga í hið heilaga rit Múslíma, Kóraninn.

Þar sem minnst er á Kóraninn má benda á skemmtilegan misskilning á orðum Múhameðs sem betur er útskýrður á ensku. Það er stór munur á setningunni „I am the last prophet“ og setningunni „I am the latest prophet.“ Læt ég mér færara Íslenzkufólki um að snara þessum mun á ástkæru ylhýru.

Í þessu sambandi má koma fram að Kóraninn var færður í letur fáeinum áratugum eftir lát spámannsins og að Nýja Testamentið okkar hátt í öld eftir lát spámannsins Jósúa Maríu- og Jósepssonar.

Vorið 2011 var ég búinn með þetta verkefni og sáttur við frágang þess þó ég vissi að ritun bókar af þessu tagi myndi ekki verða mér til framdráttar í okkar sérstaka nútímasamfélagi í Norður Atlantshafi. Mánuðum saman hafði ég farið yfir ritið og borið innihald þess saman við innihald Eingyðistrúarinnar á sem breiðustum grundvelli.

Var ég tilbúinn til að fleygja öllu draslinu ef minnsti vafi væri á hvaðan innblásturinn kæmi og þurfti að kafa verulega djúpt í efnið til að svara þeirri spurningu. Á sama tíma verð ég fyrir skrítnum sýnum. Þó ég þekki Biblíuna þokkalega vel og hafi bæði predíkað upp upp úr henni og notað í rökræðum þá hafði ég ekki mikinn áhuga á innihaldi síðasta kafla eða bók hennar; Opinberun Jóhannesar.

Hafði ég mínar ástæður til en í kjarnann er sú merka spádómsbók verulega torskilin og flókin.

Margir fræðimenn hafa skrifað um hana í gegnum aldirnar og er til hafsjór af efni um túlkun hennar. Ber helst að drepa niður á að til þess að túlka hana þarf verulega haldgóða þekkingu á allri Biblíunni og þá djúpa en einnig skarpa sýn á samtímahugsun spámannsins og postulans Jóhannesar.

Hef ég því séð margar túlkanir á boðskað Opinberunar bókarinnar en því miður er þeim öllum áfátt hvað það snertir að túlkanirnar eru oftast nær notaðar til að styðja við annan boðskap sem túlkendum eru kærar.

Vafalust slepp ég ekki við þann stimpil en engu að síður fékk ég sýnir, oftar en einu sinni, sem sýndu mér túlkun á þrem grunnatriðum. Það eru innsiglin sjö, skilaboðin til hinna sjö engla safnaðanna sjö og svo dráp spámannanna tveggja. Beið ég þó þar til vorið 2014 að færa túlkun tveggja þessara sýna í letur á logostal.com.

Hið þriðja hef ég minnst á í einhverjum skrifum en það er sýn sem var mér sjálfum ætluð til skilnings vegna rannsóknar minnar á hinni miklu Eingyðistrú. Sjáðu til; rauði þráður þessarar trúar, og þrátt fyrir að þrír sjöundu hlutar mannfólks þekki afsprengi hennar í formi Íslam, Gyðingdóms og Kristni, er sá að hún hefur heyjað varnarstríð frá getnaði. Svo er enn.

Það er nær enginn sem þekkir kjarna þessarar miklu trúar í dag, sárafáir sem þekkja menningarbakgrunn hennar sem fæddi af sér hin þrjú stóru trúarbrögð (eða fjögur sé Zoroaster tekinn með, en sú trú var stór og útbreidd um aldir).

Það er umfram allt skelfilegt að sjá hvernig nær enginn veit hvernig kjarnahugsun í spádómum allra útgáfna þessarar trúar er að stjórna þróun mannssögunnar beint fyrir faman augun á okkur; og sveipa með sér þeim sem ekki sjá þetta.

Sumarið 2013 ritaði ég bók mín Orðatal, þar sem ég rek rauða þráð Biblíunnar í léttu söguformi. Gerði ég það að hluta til sem uppgjör en einnig vegna þess að ég hafði í kjölfar þeirrar vinnu sem ég rek hér fyrir faman lært að skilja margt upp á nýtt og ég vildi reifa það fyrir aðra ef vildu kynna sér. Síðan hef ég lært fleiri atriði og minnst á sum þeirra en önnur bíða frekari rannsókna og innblásturs.

Eftir að ritun Orðatal var lokið og hún tilbúin sem handrit – en ég á enn eftir að hreinrita og endurhljóðrita handritið – hóf ég undirbúning þess að klára útskýringar á innsiglunum sjö og englunum sjö. Meðan sú vinna var í gangi áttaði ég mig á því að God’s Will lauk rýniferli og hóf hreinritun í desember 2012. Spurði ég þá í bæn, líklega oftar en einu sinni „hvað fleira gerðist í sama mánuði.“

Ég hætti að spyrja þeirrar spurningar eftir að ég fékk skýra sýn. Þessi sýn kom mér í opna skjöldu og það tók mig vikur að læra að treysta henni. Því hún hefði vel getað verið mín eigin ímyndun eða óskhyggja. Sýnin var á þá leið að höfðingi föllnu englanna hafi þá verið settur í dýflissu.

Útskýri ég ekki sýnina sjálfa, hvað ég sá, hvar eða hvernig – hún er mín til geymslu – en þetta er túlkun hennar. Það sem gerði að verkum að ég efaðist um réttmæti hennar og tók vikur í að hugleiða hana er sú að sé hún rétt þá er afleiðing þess sýnilegt í veröldinni nú þegar.

Á þessum vikum sá ég vaxandi ringulreið í heimsmálum og einnig í rökvísi veraldarleiðtoga hér heima og víðar.

Sé það rétt sem Biblían kennir – og fleiri fræði – að veraldarleiðtogar og leiðtogar skipulagðra trúarbragða séu á valdi höfðingja föllnu englanna þá er rökrétt að ætla – svipað og útskýrt er varðandi englana sjö – að hann stjórni þeim í gegnum innblástur og innsæi sem þeir séu móttækilegir fyrir á grundvelli sinna raunverulegu gilda.

Einstaklingur sem t.d. hefur sterk gildi sannleika og afstöðu með heilindum og heiðri er ekki móttækilegur fyrir innblæstri frá föllnu englunum. Sé foringi þeirra hins vegar fangaður þá hverfur miðstýring þeirra og hver hönd verður uppi á móti annarri. Ringulreið hefst af því líklega vilja sumir þeirra verða höfðingjar sjálfir en allir vita þeir þó að tími þeirra er afmarkaður og stórir tímar í hönd.

Þú munt því sjá vaxandi ringulreið og andlega óvissu næstu mánuði og hugsanlega ár, sérstaklega því tvær orrustur eru framundan. Önnur þeirra er orrustan þar sem heimsbyggðin mun sjá skýrum stöfum að áðurnefndur rauði þráður er raunverulegur og fólk fær val um að taka afstöðu. Hin er sú hvort mannkynið hættir að fremja hægfara sjálfsmorð eða hraðar því ferli.

Þriðja stóratvikið er í boði, en aðeins ef mannkynið kemst í gegnum nefndar tvær hugar og veraldar þrengingar; það er valið til umbreytingarinnar miklu. Öll mín skrif á logostal.com og mörg skrifanna á hreinberg.is eru með hana í huga; auðmjúkur leiðarvísir að því hvernig við getum fundið þessa umbreytingu.

Ég nota hér orðið auðmýkt því sjálfur vil ég ekkert handa mínu egói út úr þessu öllu. Minn veraldarmetnaður snýst um að eignast aftur heimili og hafa skjól fyrir hunda mína og geta sinnt mínum áhugamálum. Mér er þó ekki sama um fjölskylduna sem við tilheyrum.

Fyrst og fremst því fyrsta vikan er á enda, hvíldardeginum líkur brátt, og mig langar að sjá hvers megnug við verðum í næstu viku sköpunarinnar og einnig að ári liðnu.

Ég þrái að mannkynið hætti að vera reiður unglingur með handsprengju í fanginu.

Þrjátíu og þrem árum eftir martröðina góðu fann ég götuna. Hún var ekki til þegar mig dreymdi drauminn heldur var byggð eftir að ég var fluttur úr hverfinu. Merking draumsins varð mér hins vegar ljós kvöldið sem ég gekk um hverfið, meira því ég átti leið þar um, og rakst á götuna sjálfum mér til djúprar undrunar.

Að endingu má rifja upp, varðandi heimsendaspár, að fólk ruglar oft stórum sýnum saman við innri ímyndir. Manneskja sem býr við ótta, kvíða, reiði eða fyrirlitningu (og hatur) sem sér eða óskar eftir breytingum sér hana á neikvæðan hátt t.d. með tortímingum, eyðileggingum, dómum og slíku.

Sá heimsendir sem sjáendur liðinna alda lýstu var í raun táknræn breyting á endalokum heimsmyndar eða hugsunarháttar og sú umbreyting gerðist (að mínu mati og voru það sýnir sem opnuðu mér þann skilning) árin ’65 til ’75. Rökstuddi ég það nokkuð ýtarlega á logostal.com.

E.S. Þessi grein var fyrst rituð sem stöðu uppfærsla á Facebook og varð óvart svona löng. Ég bendi áhugasömum á að á logostal.com skrifa ég meira um vangaveltur mínar um trú en hér.

Ég vil þakka einum FB vina minna sem deildi í athugasemd að hefði einnig hlotið sýn sem staðfesti hluta þess spádóms sem hér er birtur. Það er alltaf mikils virði þegar farið er út á hálan ís eins og ég geri með mörgum trúarskrifa minna, að fá samhljóm.

 

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.