Sniðgengi er ekki óvirkni

Þú vilt að elitan geri eitthvað fyrir þig, því þú gafst henni verðlaust atkvæði? Elítan er ekki land og þjóð, ég er ekki land og þjóð, þú ert ekki land og þjóð. Þjóðin hefur þó selt vald sitt fyrir sama verð.

img-coll-0565Ég veit hvað ég er að gera fyrir land mitt og þjóð en ég veit ekki hvað þú ert að gera. Meðan ég veit ekki hvaða afstöðu þú hefur með gildum þjóðar minnar, er orðagjálfur þitt og mótmæli og rök, verðlaust hjal.

Ég er hluti af hreyfingu sem er þögul ofan í grasrótinni. Hún hefur stækkað í hljóðum skrefum; hún veit hvaða afstöðu hún hefur, hún veit hvaðan hún kemur, hún veit hvert hún fer. Hún er dóttir landvættanna, þeirra sem taka afstöðu með landi okkar og þjóð.

Tekur þú afstöðu með lýðveldismafíunni, bankabjólfunum og skipakóngunum, í gegnum verðlaust atkvæði og þegjandi samþykki, eða tekurðu afstöðu með því sem elur þig og fæðir? Því sem gaf þér mælsku og vit.

Hreyfingin er fædd, afstaða hennar skýr. Þú færð ekkert um það að vita í gegnum tölvur og síma sem NSA eða undirsátar þess hérlendis hlera. Þegar göngunni sem er framundan lýkur, verður aftur spurt, varstu með eða móti, tókstu þátt eða faldirðu þig, tókstu þitt eða seldirðu afstöðu þína?

Nú myndi einhver segjast vera hrifinn af því að eitthvað væri gert, en flestir vilja að einhver í fararbroddi vinni verkið en að hópurinn velji hugmyndina. Ég spyr því „hvað ertu tilbúinn að leggja á þig?“

Nú er aðferð Þjóðveldis sú að sniðganga eða yfirgefa það kerfi sem borgurum þess mislíkar. Það er hins vegar ekki nóg, því óvirkni er ekki sniðgengi, heldur er það virk afstaða sem beitir sniðgengi sem verkfæri, en það byggist einnig á samræðu.

Nú myndi einhver spyrja „hvað ætlar þú að gera“ en því er sjálfsvarað því Þjóðveldisfélagið hefur verið í virkri baráttu síðan í desember 2012. 

Málefni okkar hugsjón, markmið og stjórnarskrá er allt á Netinu og hefur verið jafnóðum. Við sem trúum á þessa hugsjón erum öll virk í að beita henni og höfum verið allan tímann; samræða, sniðgengi og að tefja fyrir.

Sumt af samræðunni hefur farið fram á Vefnum með ýmsu móti. Ritgreinar, bók, hljóðgreinar, stutt myndskeið, athugasemdir á samfélagsmiðlum. Smátt og smátt hefur síast inn á ýmsum stöðum að við stöndum fyrir hugsjónir hins gamla Þjóðveldis en því miður er nafnið fælandi og færri hafa sett sig inn í grunn þeirrar hugsjónar.

Megnið af þeirri grasrótar samræðu sem hefur verið í gangi á landinu hefur farið fram á Vefnum eða á málfundum. Þeir hafa nær allir það að markmiði að vekja nýjar hugmyndir og mynda baráttuhóp fyrir þessum hugmyndum. Þær falla allar um sjálfar sig þó hóparnir sem standa að þeim séu allir skemmtilegir og drífandi.

Ástæðan fyrir því að þær falla um sjálfar sig er sú að þær eru allar háðar sama formi og verið hefur við lýði innan fulltrúalýðvelda – og á vissan hátt í allri hópstarfsemi síðustu sex til átta þúsund árin; að þær byggjast á því að hópurinn velji snjallar hugmyndir og síðan talsmenn eða fulltrúa.

Þetta er gamalt vín á nýjum belgjum og fellur um sjálft sig því hinn menntaði samtímamaður vill nýja hugsun, nýja aðferð, og að fjarlægja leiðtogann, sem var einmitt upprunaleg hugsjón Þjóðveldis og hún virkaði í fjórar aldir.

Samræðuhópur sem ekki byggir á skýrri hugsjón, skýrri afstöðu, en umfram allt skýrt mótaðri undirstöðu – sem er stjórnarskrá – fellur um sjálft sig eins og þúsundir hreyfinga hafa gert á liðnum öldum hérlendis og erlendis. Því er tími spjallþráða liðinn. Þjóðveldisfélagið er búið að vinna heimavinnuna og opnar nú hliðin fyrir þeim sem vilja hefja samræðu.

Hérlendis eru því þrjár afstöður í gangi, Endurreist Þjóðveldi, Lýðveldið og svo hlutlausir.

Þeir síðastnefndu eru þó afstaða með lýðveldinu á meðan það e hið ríkjandi kerfi sem fólk styður af gömlum vana, þó enginn hafi lengur trú á hugmynd þess. þeir sem eru á bandi Þjóðveldis hafa hins vegar endurbyggt og endurmótað trú sína.

Sumir myndu nú benda á að ég sleppti fjórða hópnum, þeim sem eru í andstöðu við fjórflokkinn eða við ríkjandi stjórn eða eru að skipuleggja grasrótarhreyfingar. Það eru allt hópar innan Lýðveldisins í fangbrögðum við það og með í spuna þess.

Þjóðveldið er allt önnur ríkishugmynd og hún er fullmótuð. Ennfremur þá er hún sú eina sem birst hefur í mannkynssögunni sem gefur borgurum sínum virka umgjörð til að breyta undirstöðu þess; sem er stjórnarskrá þeirra.

Annað hvort ertu með eða móti. Allt annað er tímasóun. Jafnvel þó lesandinn væri hlynntur skrifum mínum varðandi beint lýðræði og sniðgengi, en ekki virkur í að koma þessari hugsun áleiðis eða tileinka sér hana, þá er hann að styðja ríkjandi miðjumoð og orðagjálfur.

Sumir hafa sagt við okkur að við ættum að stofna flokk og fara á þing. Hvernig ætti ríkiskerfi að stofna stjórnmálaflokk í öðru ríkiskerfi?

Að endingu skulum við víkja að orðinu umræða, sem notað var hér fyrir framan. Verkfæri beins lýðræðis er lýðræðissamræða sem er hvorki samræða né umræða. Umræða er þegar einhver byrjar með yfirlýsingu, frétt eða umræðuefni, leiðir umræðuna og safnar athugasemdum. Flestir innan umræðu eru uppteknir við að koma sínu áleiðis og þegar þeir þykjast hlusta eru þeir að kaupa sér rými til að tala (sem er algengt samræðuform).

Lýðræðissamræða er þegar við skiptumst á skoðunum, hlustum á hvorn annan, gefum endurvarp (feedback) og að endingu kjósum um niðurstöðu. Þá er sameinast um niðurstöðuna og ákveðið hvenær samræðan (ásamt kosningu) sé endurtekin um málefnið ef þörf krefjist. Þegar þáttakendur hafi séu aðeins tveir er notað hlutkesti ef ekki næst sátt en að öðrum kosti 60/40 hlutfall.

Í hönd fer einn djarfasti tími mannkynssögunnar, þar sem beint lýðræði verður notað til að endurreisa virk héraðsþing, sniðgengi og nýja hugsun. Tólið verður sú hugsjón sem er birt í stjórnarskrá Endurreists Þjóðveldis. Hún er þannig hönnuð að allir grasrótarhópar geta unnið undir hatti Þjóðveldis án þess að fórna málefnum sínum, rétt eins og þeir geta unnið undir hatti Lýðveldisins.

Sumir hópar hafa boðið Þjóðveldisfólki að ganga inn í grasrótarhreyfingu sem er að starfa innan Lýðveldisins, sem væri svipað og bjóða einu ríkiskerfi að starfa með grasrótarhreyfingu innan annars ríkiskerfis.

Að endingu vil ég taka fram að Þjóðveldið er ekki í andstöðu við neinn hóp, ekki heldur gegn Lýðveldinu. Okkur er slétt sama þó sumir vilji hafa Lýðveldið áfram eða vera þar.

Ennfremur vil ég minna á að Þjóðveldisfólk fyrirlítur byltingu í öllu formi. Þær eru úrelt form sem skemma meira en þær laga og þær koma sams konar egóistum til valda og áður voru og þá sjaldan sem þær hreyfa við embættiskerfinu þá stofna þær jafn spillt kerfi.

 

E.S. Þessi grein var áður rituð á Facebook áður en hún var færð hingað inn og snyrt.

 

 

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.