Dávald að ofan eða draumur að innan

Nútímalíf Íslendingsins er álíka spennandi og líf svartra þræla í Bandaríkjunum rétt fyrir þrælastríð. Hljómar kannski langsótt því þeir voru eign annarra manna en við erum það ekki.

Þeir voru ómenntaðir en við erum menntaðir. Þeir áttu ekkert og við eigum helling. Þeir gátu ekki ferðast en við getum ferðast.

Hvert einasta heimili er skuldsett langt umfram eignir. Þær litlu eignir sem heimilin hafa eru veðsett langt umfram verðgildi.

Sum heimili fengu þá blessun að færa skuldirnar niður svo aðeins var skuldað rúmlega meira en verðgildi eignar.

Hver á þessi heimili? Sá sem á kröfurnar eða sá sem heldur sér á floti? Ég hef séð eignir sem fólk átti meirihlutann í hverfa ofan í gímald kröfuhafa á bak við ólög og fólk borið út. Ég hef séð fólk niðurlægja eigin reisn af ótta við að missa starf og síðan eignir.

Læsi skólabarna og okkar sjálfra mælist langt fyrir neðan systurþjóðir okkar í Skandinavíu. Fólk er orðið óskrifandi því það er háð því að vélrita. Fólk býr yfir mikilli þekkingu en sárafáir nenna að lesa meira en skjáfylli og enn færri kunna að tengja ólíkar þekkingar saman í huganum og skapa þannig nýja og frjóa hugsun. Fjöldinn virðist dáleiddur af fyrirsögnum en þó eru einstaklingar mun pældari.

Vit er ekki alltaf háð lestri, heldur sagnahefð og sönghefð, því þar býr menningin og af þessu áttu og eiga Bandarískir blökkumenn nóg.

Að eiga hluti þykir ekki merkilegt né göfugt. Vissulega eigum við húsbúnað, mubblur, húseignir, bíla og mikið af fötum til skiptanna. Hvaða mannvera hefur hugsað eftirfarandi á dánardegi „ég á mikið af hlutum?“

Ef eitthvað er þykir sá maður frjálsari sem á fáa hluti, því hann getur tekið sig upp fyrirvaralítið og ferðast eða flutt hvert sem er. Aukinheldur hefur hann minna af áhyggjum. Ég leyfi mér að spyrja hví okkar upplýsti samtími er stútfullur af kvíða, reiði og áhyggjum?

Ég held að þetta síðasta svari tveim af þeim fullyrðingum sem ég lagði upp með. Sjálfur á ég ekki neitt utan þá sem lífsanda draga á mínu heimili. Ég á hins vegar heiður minn óskertan, frelsi í huga mér og hjarta og ég verð ekki kúgaður til hlýðni enda er búið að taka allt af mér af hlutum og ímynduðum verðmætum.

Ef fólk aðeins sæi raungildi eigin hlekkja, myndi það byrja að hugleiða þau gildi sem menning þess og reisn hvílir á. Reiðin myndi dvína, því hún er ævinlega tákn ótta þess sem langar út fyrir eigin ramma en þorir ekki. Þá væri þess skammt að bíða að hin góðu gildi sem þjóðin ann mest myndu rísa á ný. Þar rís hið verðmætasta af öllu sem verðmætt er: frelsi og trú.

Ég trúi á gildismat Íslensku þjóðarinnar eins og það var nýtt til að byggja upp þægilegasta samfélag sem jörðin hefur þekkt. Ég trúi á sjálfan mig og þann dug sem hugsun mín býr yfir.

Ég trúi á góðan Guð og að hann sé þess verður að fylgja gildum hans: Frelsi, Dugur, Heiður, Kærleikur, Vingjarnleiki, Þolgæði, Skapandi hugsun, Fersk ímyndun, Fyrirgefning, Trúfesti, Sannsögli, Sanngirni, Hatur á hinu illa … og eitthvað fleira jákvætt.

Þess vegna sniðgeng ég kerfin í Lýðveldi óttans. Ég er borgari hins gjörspillta smánarríki sem kennir sig við Lýðveldi en framtíðarborgari nýs og endurhannaðs Þjóðveldis sem þegar er risið þó enn sé fámennt. Það er reist á göfugustu hugsun sem mannsandinn hefur séð á vorri jörð, Beinu lýðræði.

Það sem gerir Beint lýðræði göfugt er að annars vegar sýnir það í verki trú og traust fólks hvert til annars og sameiningaranda þeirra sem vilja reisa í sameiningu samfélag sem henti öllum þáttakendum. Það sýnir einnig í verki þá fullyrðingu að fólk vex undir ábyrgð.

Ríkiskerfi heimsins og trúarkerfi hafa aldrei sýnt þetta traust til fólks og menntakerfi þjóðanna elur fólk á þeirri hugsun að það leiðtogar séu náttúrulögmál, um leið felur fyrir fólki þá augljósu staðreynd að einu kerfin sem eru náttúrulögmál eru þau sem náttúran fylgir sjálfri sér til heilla. Engin stjórn að ofan hefur nokkru sinni verið umhverfi sínu né þjóð til heilla.

Beint lýðræði er einmitt ekki stjórn að ofan heldur grasið sem vex upp úr jarðveginum, en meðan grasið trúir ekki á sjálft sig heldur lætur eikurnar stjórna sér verðum við að bíða stormsins sem brýtur eikurnar niður, storm hins umbreitta hugarfars þegar grasið skilur að þó það leggist í storminum þá brotnar það ei og að það er sterkasta lífvera jarðar því það vex alls staðar.

 

* Þetta greinarkor var áður birt í styttri útgáfu gudjonelias.blog.is

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.