Við erum sjálfsnægari en við trúum

Ef maður skoðar kolavinnslu í Appalachia fjöllum, Borneo eða kolahéruðum Kína sést nokkuð sem meginfjölmiðlar sýna helst ekki. Þeir sprengja ofan af heilu fjöllunum og nánast jafna þau við jörðu til að massmoka kolum upp.

Þetta er stór iðnaður, að vinna kol og drífa áfram stóriðnað erlendis. Ein virkjun fyrir litla verksmiðju á Bakka við Húsvík er lítill dropi í samanburði.

Ég hef fylgst með því sem er í umræðunni hérlendis vegna undirbúningsa á Bakka. Það er margra ára undirbúningur, djúp spilling á borð við það sem Draumalandið bendir á og stórfelldur fjáraustur.

Mér hefur sýnst að hvert nýtt starf sem verður til á Bakka mun kosta frá 50 til 70 milljónum. Undirbúningur tekur mörg ár og meginmiðlar birta litla umfjöllun eða rýni varðandi það starf. Á bak við tjöldin eru ýmis undirbúningsverkefni s.s. vegagerð, gangnagerð og virkjana undirbúningur sem lítið er minnst á.

Segjum að eitt starf kosti 60 milljónir, en þeir áætla 120 störf sem gerir sjöþúsund og tvöhundruð milljónir. Hvað ef slíkar fjárhæðir færu í nýsköpunarstefnu? Hvað gætu hundrað manns skapað öflug sprotafyrirtæki í Norðurþingi ef þeir hefðu aðgang að heildar upphæðinni?

Hvað ef þessir hundrað hefðu aðgang að helmingi hennar? Myndi fólk fara út í meira af lífefnaiðnaði á borð við Saga medica, Villimey, Penzim, hvalaskoðun, jeppaferðir, sölu á skartgripum úr hrauni? Eru til fleiri hugmyndir og vaxtar pælingar eða myndu menn á landsbyggðinni einblýna á strandveiðikvóta?

Ég prófaði að nálgast atvinnuþróun nyrðra í fyrra. Ræddi við fjölmarga og meðal annars sýndi einfalt reikningsdæmi til að skapa 20 manna hugbúnaðar fyrirtæki á þrem árum fyrir fimmtíu millur. Jafnhliða því að skapa þekkingarstörf til útflutnings á lausnum var hugmynd að bjóða kennslu á fræðum sem ekki eru í boði nyrðra.

Þetta þótti þó ekki trúverðugt þó búið væri að vinna heimavinnuna. Strandveiðikvóti, Hvalaskoðun, Virkjun og verksmiðja, það er lífið.

Ég trúi því að hefði þjóðin aðgang að því fjármagni sem fer í virkjanir og stóriðju myndi hún skapa hundruðir starfa fyrir brot af þeim upphæðum sem spillingarhýtin gleypir. Vissulega tæki það tíma að fæðast því til þess að hugvit blómstri þarf einnig menntun og sýn sem ekki er alltaf hlúð að.

Þó mikið sé af námskúrsum í skólakerfinu þá er ekki mikið gert af að kenna skapandi hugsun. Þetta eru stór orð en ég hef sjálfur lært skapandi hugsun í tengslum við hugbúnaðargerð og heimspeki, og það skín í gegn víða í skrifunum mínum og lesendur mínir vita að ég er ekki að fordæma neinn heldur æðrast. Því ég veit hvað við missum af miklu.

Það er hins vegar ekkert lýðræði hér, engin nýsköpun, engin sýn og engin gagnvirk umræða. Þú getur treyst að til er fólk sem vinnur beinlínis við að rugla umræðuna í ríminu. Sumir sem þú heldur að séu mótþróapennar eru beinlínis að hræra upp í umræðunni, oft ómeðvitaðir um það.  það er nefnilega til valdamikið, auðugt og vel tengt fólk sem er meðvitað um sálarástand lýðsins, sem græðir á að rugla umræðuna í ríminu og kann það.

Valdahópurinn sér vinsælan penna, einhvern sem smalar lesendahóp en er ólíklegur til að smala hópnum til aðgerða og hann fær ýmis tækifæri í gegnum tengsl, eða skrifar úr erlendu skjóli. Ekki er allt sem sýnist og margir eru erlendis því þeir hafa verið flæmdir burt.

Reynt var að flæma mig burt en ég elska landið mitt og vill frekar vera fátækur hér heima en efnameiri úti. Satt að segja græddi ég á því að verða framalaus og heimilislaus; því ég komst að þrennu. 1. Þú átt meira en þú þarft. 2. Þú ert alltaf sterkari en þú heldur. 3. Vinur í raun er betri en viðhlæjandi á kaffihúsum eða Facebook.

Vandi okkar í dag er ekki neinn miðað við heiminn allan og það er á suðupunkti víða. Fólk er mun meira meðvitað víða erlendis og ástæðan er að hluta sú að grasrótin er fjölmennari og samræður þar virkari meðan við erum færri, háðari fáum fjölmiðlum og förum lítið út á meðal fólks að spjalla saman heldur störum stjörf á skjáinn.

Svo koma hálfblindir egópennar sem hræra upp í samfélagsmiðlum og bloggheimum, sumir gætu verið á spena en myndu aldrei segja frá því. Blint lið sem hringsnýst í kringum sjálft sig meðan elítan dansar að vild. Á meðan umræðan – sem er ekki samræða – einblýnir á stök reiðimál sér þjóðin ekki hversu auðvelt er svelta hagkerfið til hlýðni og undiroka sálarlaus stjórnmálin, með smá hugviti.

Einn spuninn kemur varpar skemmtilegu ljósi á þessa hringiðu, og það er gengi krónunnar.

Meðan seðlabankinn og hinir bankarnir velta reglulega upp vanda krónunnar og meginmiðlar mjálma með sjáum við trén en ekki skóginn. Krónan skiptir okkur engu. Við erum algjörlega sjálfsnæg um allt sem skiptir okkur máli en neyslukerfið leyfir ekki rökstuðning þess og andleg meðvitund fólks hefur takmarkaðan skilning á slíku því fólk hefur misst trúna á eigin rök og gleymt muninum á skoðun og afstöðu.

Við erum til að mynda heilaþvegin af að við séum ekki sjálfum okkur næg um lyf, eldsneyti og klæði. Sem er að mestu leyti blekking.Hérlendis er hægt að framleiða alla olíu og öll lyf, auk allrar fæðu. Við erum nú þegar sjálfum okkur næg um hita og rafmagn og stutt síðan við framleiddum eigin áburð og sement.

Vissulega eru sum lyf svo sérhæfð að við gætum þurft að kaupa þau, í það minnsta um einhvern tíma en það er minniháttar í hlutfalli heildarinnar. Vissulega þyrftum við áfram að flytja inn klæði og sérstaklega því við erum orðin svo heiladoðin og löt að við hendum heilum flíkum og jafnvel nothæfum saumavélum.

Við erum mun sjálfsnægari en við trúum en sem dæmi um hversu lágt við erum sokkin sem einstaklingar, þá refsum við ekki bankanum því það myndi kosta okkur fáeinar aukakrónur í vexti og við trúum ekki á mátt okkar til að sannfæra nágranna okkar með vel völdum orðum að taka þátt.

En frelsi kostar og sjálfsnægja krefst áreynslu, rétt eins og það er ekki nóg að kaupa kort í ræktina til að verða smart, maður þarf að mæta og maður þarf að eiga samskipti; því hvers virði er að vera smart ef enginn horfir á?

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.