Tómleiki hinnar sjálfhverfu sálar

Guði sé lof að fólki er sama þó það fái ekki lýðræði, er sama þó fjármunir þjóðar sinnar voru gefnir þrem einkafyrirtækjum og að allar veiðiheimildir voru gefnar tuttugu kvótakóngum.

Því annars risi hér samfélag þar sem gagnkvæm og heilbrigð skoðanaskipti endurspegluðu ást á sannleika og heiðarleika en ekki sýndarmennsku, yfirborðsmennsku og sjálfbyrgings.

Þá myndi spilling hinnar gráðugu sálar gisna og hverfa í stað þess að hver á fætur öðrum situr hjá meðan troðið er á nábúanum.

Þá myndi samfélagið hugsanlega gleyma að ausa úr skálum öfundar og reiði yfir Netheima og slúðurdálka, þar sem fólk virðist hafa meiri áhuga á eigin skinni en hag heildarinnar og þeim fornu gildum sem menningin hvílir á.

Þvílíkur kraftur ef hægt væri að virkja þær heilögu skoðanir sem fram koma til að endurreisa sjálfsvirðingu þjóðar. Það er gott að fólk hefur enn hjartað á réttum stað þegar kemur að þrasi.

Kannski ættu álbarónarnir sem eru að eignast afganginn af okkur að fá Landsvirkjun til að virkja gasið í sjálfbyrgingslegum egóistum sem geysa um bloggheima og athugasemdakerfi en kunna ekki einfalda lýðræðissamvinnu forfeðra okkar sem leituðu sameiningar og lagavirðingar. Hver man í dag setningarbotninn „og ólögum eyða.“

 

This entry was posted in Orðastungur. Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.