Tjáningarfrelsi og rannsóknarréttur múgsefjunar

Það sem er áhugavert varðandi lokun léns IS-samtakanna er þetta: Fjöldi fólks, þar á meðal fólk sem annars eru ötulir verjendur tjáningarfrelsis, hefur talað eins og það sé ekki bara sjálfsagt mál, heldur nauðsynlegt að loka svona vefsíðum.

Ekki hefur hins vegar útskýrt með skýrum hætti hvaða lög eiga að hafa verið brotin með þessari vefsíðu. Aðeins hefur verið bent á grein í Almennum hegningarlögum að refsivert sé hér á landi að skrifa þannig að styðji við eða hvetji til ofbeldis aðgerða.

Ég man ekki hvort sú grein tiltekur ofbeldi innanlands eða ofbeldi gegn einstaklingum frekar en ríkinu. Eins og lesendur mínir vita hef ég sjálfur beitt ofbeldi, unnið úr því eftir bestu getu, og er í dag einlægur andstæðingur ofbeldis í hvaða mynd sem er; en ég er ekki síður hatrammur stuðningsmaður tjáningarfrelsis.

Niðurstaðan virðist vera sú að það sé í fínu lagi að skerða tjáningarfrelsið (sem það er að loka vefsíðu) eftir geðþótta. Það er sorglegt að sú afstaða skuli vera svo algeng, jafnvel meðal þeirra sem telja sig mannréttindasinna.

Að loka léni er svipað og banna heimilisfangið þitt. Sjaldgæft að skilningur sé á þessu. Til að loka á hýsingu vefsíðu þarf dómur að koma til. Þú getur ekki refsað eða beitt úrræði nema dómur komi til.

Þó mætti ræða hvort rekendur lénsins brjóti reglur hýsingaraðilans og sagt er að svo sé í þessu tilfelli, þó grunar mig að hýsingaraðilar séu að þjóna skoðanaþótta hins heilaga samtíma.

Um leið og við setjum tjáningarfrelsi skorður þá er ekkert tjáningarfrelsi því tískustraumar og tilfinningabundnar skoðanir munu móta skorðurnar eftir breytilegum háttum. Eini munurinn á skorðum gervilýðræðisríkja og rannsóknarréttarins eru galdrabrennur.

Takmarkað tjáningarfrelsi er aðeins plástur – eða sjálfsblekking – því það vanvirðir greind fólks. Ef ég segi að jörðin sé flöt, mun fólk þá banna setninguna eða hlæja að henni?

Skyld mál hafa komið upp erlendis, þar sem hýsingaraðilar hafa lokað á lén eftir geðþótta og síðar tapað vegna kærumála í kjölfarið. Ég viðurkenni að ég man ekki í svipinn hvar ég rakst á þetta, en mig minnir að það hafi verið í tenglsum við Snowden og Applebaum umræðuna í fyrra.

Ég grúska í þessu betur þegar ég hef tíma og allar ábendingar eru vel þegnar.

Við megum ekki gleyma því sem Voltaire skrifaði „ég fyrirlít skoðun þína en er tilbúinn að berjast fyrir rétti þínum til að hafa hana“ – það er einn af hornsteinum vestræns lýðræðis og ef einhver ætti að skilja það þá eru það Íslendingar.

Sjálfur er ég ekkert hrifnari af Ísis en aðrir en þó líklega á öðrum forsendum því flestir líta niður á þá sem hluta þeirrar Múslímagrýlu sem vestrænir fjölmiðlar fá eitthvað út úr að espa upp. Um leið og þeir jarma yfir að tveir eða þrír menn voru hálshöggnir hjá Ísis nefnir enginn af meginfjölmiðlum að nítján eða fleiri hafa verið hálshöggnir í Sádí Arabíu það sem af er árinu.

Nei, ég lít niður á hvern þann sem fer með hernaði gegn öðrum á grundvelli skoðana sinna hvort heldur þær eru pólitískar eins og í tilfelli Nató eða trúarlegar eins og í tilfellum sumra aðra. Ég get ekki réttlætt neinn hernað en ég get – í anda Gandhi, MLK og annarra frábærra fyrirmynda – staðið gegn ofríkisfólki hvort sem það er mitt eigið sjálfheilaga pakka eða útlent. Ef við ætlum að dásama þessar fyrirmyndir verðu það að ná dýpra en í sleikjulegar fyrirsagnir.

En svo mig kippi nú í Íslensku nútímagenin; hafi olíufurstar efni á að hýsa efni sitt hér, fáum þá sem flesta þeirra. Mokum svo haganaðinum í bankabjólfana og röflum um það á bloggsíðum.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.