Trú er einkamál en gildi eru samfélagsmál

Allir vita líklega að ég er illa smitaður af þeirri skynvillu sem kallast trú. Eins og flestir vita er ekki til lyf við því frekar en ást en samt hallast margir að því að til séu lyf við andstæðum þessara tilfinninga.

Það skiptir mig engu máli hvort aðrir trúa einhverju eða engu, og alls ekki hvernig þeir gera það. Mér finnst trú hvers og eins vera hans einkamál frá vöggu til grafar. Trú og trúarskoðun, hvort sem hún er í alkuli eða kjarnasamruna, er einkamál.

Hins vegar hef ég mun meiri áhuga á því hvort fólk þroski með sér jákvæð og innihaldsrík gildi, því slíkt tel ég til góða bæði náttúrunni og okkur sem hluta hennar.

Þó ég skrifi mikið um mína trú og þróun hennar þá held ég henni ekki að fólki í samræðum nema í brotabroti og þá aðeins við fólk sem spyr mig útí og vill vita og reyni ég að vera meðvitaður um hvar mörkin eru, svo maður gangi ekki á mörk fólks.

Vandrataður millivegur en maður verður að hafa grensur og skrif eru framsett handa þeim sem hafa áhuga á að lesa og sá sem ritar gerir ekki greinarmun á einum lesanda eða milljón lesendum. Umfram allt er enginn neyddur til að lesa.

Til að mynda er ég ekki síður áhugasamur um þekkingu á alheiminum, náttúrunni og ýmsum öðrum vísindum. Mörgum finnst það vera í mótsögn en mér finnst það ekki, því ég hef ekki neina fyrirfram mótaða hugmynd um hvað eða hvernig Guð eða “hið guðlega” (the divine) er eða mótar sjálft sig.

Svo ég vitni í einn fremsta hugsuð okkar tíma, Stephen Hawking “það er mun áhugaverðara að skoða hvernig Guð gerir hlutina en hvort hann er til eða ekki.” Einhverra hluta vegna grunar mig að hið guðdómlega sé sammála.

 

 

This entry was posted in Orðastungur and tagged , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.