Fyrir um það bil sex þúsund árum var par sem gekk í gegnum hræðilega erfiðleika. Elsti sonur þeirra var drepinn af bróður sínum. Sagan nefnir það ekki en margt bendir til þess að þeir hafi verið tvíburar, í það minnsta var stutt á milli þeirra.
Þetta var trúað fólk sem datt niður á þá hugmynd að ekki bæri að trúa því sama og flestir trúðu á því landsvæði þar sem þau bjuggu.
Eins og títt var um hin frumstæðu samfélög þess tíma þá snérist trú fólks um guðafjölskyldur ekki ósvipaðar þeim sem Grikkir, Rómverjar og Skandinavar trúðu á.
Einnig var algengt að trúað væri á anda skógarins, verur í klettunum, goð undirdjúpanna og fleira yfirskilvitlegt sem fólki fannst sennilegt að til væri. Nýlega nefndi ég að vættir landsis okkar væru reiðir og að eldgosin væru merki um það.
Auðvitað eru þetta bara eldgos en mýtur lifa oft öflugu lífi í vitund okkar og ef við rýnum í táknmyndir þeirra þá getur sjóndeildar hringur okkar víkkað út. Þessi íhugulu hjón voru á þeirri skoðun að allar vættir og öll hindurvitni væru myndbirtingar á kröftum sem vissulega væru máttugir en ofar öllu öðru væri einn hugur eða vilji.
Þau trúðu þannig á einn skapara himins og jarðar og vildu aðeins tilbiðja hann einan og engan annan. Þó til væru aðrir kraftar bæri þessum kröftum að lúta honum sömuleiðis. Voru hjón þessi afa næm og vissulega hugdjörf, því það krefst mikils styrkleika að fara út fyrir hinn viðurkennda ramma samfélagsins, sérstaklega í hugsun og trú.
Þegar rýnt er í sögu þeirra þá sést að annar af elstu sonum þeirra tveim deildi skoðun þeirra frá hjartarótum en hinn aðeins í orði kveðnu. Með öðrum orðum þá sýndi hann yfirborðsmennsku trúarinnar og vildi njóta þeirrar blessunar sem hin trúðu á en innri kraftur þeirrar trúar knúði hann ekki til góðra verka.
Eins og títt er með heim yfirborðsmennsku og sýndar orðagjálfurs þá snérist hann gegn bróður sínum, drap hann, og reyndi síðan að réttlæta gjörðir sínar. Um svipað leyti gerðist eitthvað í trúarheimi foreldra hans, þau reyndu sjálf að ákvarða hvað væri rétt og rangt og hvernig bæri að breyta út frá því. Með öðrum orðum; skilningur á ávexti eða afleiðungum góðs og ills.
Æ síðan hefur mannkynið verið í deilum og innbyrðis átökum um þennan skilning sem vefst fyrir mörgum. Hver sé myndbyrting hans, hvernig beri að láta hann stýra athöfnum sínum – og orðum – og umfram allt hvernig nota megi hann til að móta samfélag manna, sem flestum ef ekki öllum til farsældar.
Ein algengasta og að mínu mati fáránlegasta myndbyrting þessarar deilu er sú hvaða spámanni Guðs skuli fylgja.
Til að mynda er ríki fyrir botni Miðjarðarhafs sem trúir að spámaðurinn Móse sé mestur spámanna Guðs á eftir Abraham og þeir trúa að senn komi Messías til að hjálpa þeim að reisa Guðs útvalið ríki, og er þeim slétt sama þó það kosti heimsstyrjöld og blóðsúthellingar yfir fólk af þjóðunum. Fólk af þjóðunum í þeirra heimssýn eru allir aðrir hvort heldur Kristnir, Múslímar eða aðrir.
Svo eru mörg ríki þar sem yfirgnæfandi meirihluti fólks telur sig Kristið og hafi þegar fundið sinn Messías. Að hann hafi komið á annan hátt en hinir trúa og bíða þess nú að hann komi aftur til að dæma heiminn til tortímingar og til að bjarga þeim sem í orði kveðnu játa trú á hann.
Þá eru önnur ríki þar sem meirihluti fólks telur Kristna menn vera skurðgoðadýrkendur og að á eftir hinum kristilega messíasi hafi komið spámaður Guðs að nafni Múhameð til að endurreisa hina fornu trú parsins sem áður var minnst. Þetta fólk telur að einnig komi tortýming yfir heiminn.
Trúarbók þeirra, sem nefnist Kóran, tekur skýrt fram að sanntrúaðir eingyðismenn – og konur – muni komast í gegnum þessa heimsbreytingu og ennfremur er þar tekið fram að sanntrúaðir finnist í öllum þessum þrem hreyfingum; Gyðingar, Kristnir og Múslímar.
Í öllum þessum fjórum heimsmyndum – en þær eru til fleiri þó ég nefni þær ekki hér – er ekki alltaf ljóst hvað hinn eini sanni Guð sé. Mismunandi er hvernig menn fortíðar hafi lagt skilning sinn í hann og hvers konar myndbirtingar hann fær. Svo djúpt fer sú deila að fólk veltir sér upp úr hvort megi segja hann eða hún þegar vísað er til *þess*.
Þó mætti hverjum manni og konu vera ljóst að Guð sem skóp bæði kynin fullkomin hljóti að vera upp yfir það hafinn hvort kallað sé hann, það eða hún.
Sjálfur trúi ég að til sé einn skapari allrar þeirrar dýrðar sem Alheimurinn er. Ég trúi því að gildi hans – eða hennar – séu andlegs eðlis og að hinn andlegi heimur sé enn sterkari en okkar og auðvelt er að sanna það.
Band ástar milli tveggja einstaklinga er sterkara en nokkurt ytra form. Vináttuband getur yfirunnið hvaða erfiðleika sem er. Umburðarlyndi og virðing eru öflugustu kraftar sem þekkjast. Hatur er eitur og reiði er sýra sem tærir. Svo mætti lengi telja.
Í mínum augum var Jósúa Jóseps- og Maríuson öflugasti og magnaðasti spámaður Guðs. Vel get ég viðurkennt að Múhamið hafi komið síðar með ný skilaboð Guðs til manna. Til er í hefðum eingyðistrúarinnar mælistika til að meta það og þeir standast hana báðir.
Báðir vísuðu allri trú fylgjenda sinna til Guðs, báðir börðust af hörku gegn skurðgoðadýrkun og báðir voru kröftugir andstæðingar lýgi og yfirborðsmennsku.
Ég trúi því að þú getir líka verið spámaður Guðs eða kona. Það þarf ekki háskólapróf til þess né heldur viðurkenningu fólks í ytra heimi. Sjálfur hef ég ritað bók undir innblæstri hins hæsta Guðs alheimsins og sú bók hefur kennt mér meira og gerir enn, heldur en margt annað, og ég hefði aldrei getað samið hana í mínum eigin krafti.
Sumt í bókinni er ég enn að vinna úr hvort ég geti meðtekið og kynngt, eða þá hvernig, og hún hefur dýpkað skilning minn á mannlífi, sögu og hinni andlegu veröld svo um munar. Til er fólk sem hefur endurlífgað trú sína við lestur bókarinnar og skilur hana á allt annan máta en ég geri og á við mig samfélag, og hefur jafnvel áminnt mig um suman skilning.
Þegar þú leitar hins þrönga og krákótta einstigis þá kemstu oft aðeins áfram fyrir stuðning við hinn máttuga staf auðmýktar.
Ég sé í ritun margs fólks í samtíma míns að sá kraftur sem Guð er veitir mörgum innblástur og á marga vegu. Ég sé sumt fólk sem játar trú á Jesú Krist setja fram innsæi sem getur aðeins komið frá hinum hæsta, og þó játar fólk þetta eingyðistrú á allt annan máta en ég geri. Ég sé einnig Íslamskt fólk gera hið sama og sumar samræður sem ég hef átt við Íslamskar konur hafa auðgað sýn mína og kennt mér skilning á ýmsu.
Umfram allt sé ég endurspeglast í ritun hinna hreintrúuðu innsæi sem endurspeglast í einum dýpstu orðum spámannsins Jesú – og taktu vel eftir að ég sagði ekki hinna rétttrúuðu;
(16)Jesús svaraði þeim: “Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig. (17)Sá sem vill gjöra vilja hans, mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér. (18)Sá sem talar af sjálfum sér, leitar eigin heiðurs, en sá sem leitar heiðurs þess, er sendi hann, er sannorður og í honum ekkert ranglæti. (Jóhannes, kafli 7).
Með öðrum orðum; við ákvöllum Guð sannleikans. Sá sem kemur frá honum er fulltrúi þess sem satt er. Í slíkum er engin lýgi og ekkert fals. Hann segir það sem hann trúir í hjarta sínu og sál að rétt sé og hann setur von sína um sáluhjálp til skaparans sjálfs, hvernig svo sem hann skilur á hverjum tíma hvað skaparinn er.
Hann deilir ekki við aðra um þá myndbirtingu, því hann leitar sannleika hvort sem hann trúir að hann hafi höndlað hann eða ekki og hann virðir annarra leit til jafns við sína eigin. Umfram allt er ástríða þessarar leitar, eftir því sem henni miðar áfram, kraftur sem umbreytir innra manni eins og við uppskurð tvíeggjaðs sverðs og hann getur ekki orða bundist um þann sannleika sem hann sér, því sannleikurinn er ástríða elds í huga, hjarta og sál.