Það eru tvenn meginöfl sem berjast um huga og hjörtu mannkyns. Margir halda að barist sé um áþreifanlega hluti svosem yfirráð yfir löndum og eignum, enda virðist það svo á yfirborðinu sem notað er til að fóðra okkur.
Mörgum yfirsést hins vegar að hin raunverulegu átök gerast inni í höfðum okkar sjálfra. Við sjáum oft ekki það sem er hulið á bak við örþunna filmu skilnings okkar. Enginn fæðist í náttúrunni með eignarrétt eða afsal fyrir nokkrum hlut. Enginn fæðist með skjal í höndum sem skilgreinir hvað sé rétt eða rangt.
Náttúran er mikið eldri en við, margfalt öflugri en við, og hún hefur sínar eigin reglur. Í það minnsta helmingur okkar eigin reglna er á skjön við reglur náttúrnnar en við erum sjálf mjög öflug. Nægilega öflug til að reisa girðingar á milli okkar sjálfra og náttúrunnar.
Sjálf erum við sem einstaklingar of aldursstutt eða skammsýn – sumir myndu segja þröngsýn – til að fá nægilega yfirsýn til að sjá hvernig náttúran hugsar í lengri tímalínu en við sem einstaklingar og að hún sér margt – ef ekki flest – í víðara samhengi en við sjáum það.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá er heimili þitt skilgreint af þeim hugmyndum sem þú gerir um það og hvernig þú útbýrð það er mótað af sömu hugmyndum. Þó kraftur þinn sé nægilegur til að gera þessar hugmyndir birtanlegar er það ekki hið sama og segja að hugmyndir þínar séu náttúrulegar – kannski margar en ekki allar.
Skýrasta dæmið er fjármagn. Þegar þú heldur á fimmþúsund króna seðli þá hefur hann verðgildi fyrir þér. Þú hefur tilfinningu fyrir þrem matarpokum í Bónus eða einni bíóferð fyrir þig og ástvin þinn. Þú veist að þú getur ekið bílinn þinn marga kílómetra fyrir seðilinn og keypt ýmislegt.
Þannig hefur seðillinn sjálfur verðgildi fyrir þér vegna þess að þú veist hve margt eða mikið þú getur fengið fyrir hann. Smám saman yfirsést þér að hann er ávísun á fimm þúsund myntir sem á stendur „ein króna.“ Þér fer að yfirsjást að myntin sú arna er einnig ávísun á eitthvað annað verðgildi – sem eitt sinn var visst magn af gullforða – og sé það geymt skuli hjá einni stofnun.
Smám saman hefur verðgildið sem var á gullforða færst á slegna mynt og síðan yfir á litprentaðan pappír sem aðeins ein stofnun má prenta og jafnvel stofnunin sú arna getur ekki prentað seðilinn sjálf. En hvaða máli skiptir það? Seðillinn dugar þér fyrir því sem þú færð fyrir hann og þú hefur fyrir löngu þróað með þér ónæmi fyrir því að seðillinn er löngu horfinn úr veskinu þínu og kominn í tölvufærslu inni í bankakerfi undir stjórn fyrrnefndrar stofnunar.
Aftur skiptir þetta engu máli fyrir þér því þú þarft ekki seðilinn. Þú þarft aðeins að vita hvaða tölugildi er geymt í tölvufærslunni hjá þeirri stofnun sem geymir „upplýsingar um verðgildið.“ Þú hefur löngu vanist því að rétta renna má plaststrimli í gegnum tæki og færist þá hluti af tölugildinu frá þinni kennitölu – sem einnig er hugmynd – yfir á tölugildissafn (eða reikning) hjá eiganda annarrar kennitölu.
Hve margar hugmyndir koma fram í þessum pistli sem eru fjarlægar náttúrunni og aljgörlega hugrænar? Jafn einfalt fyrirbæri og peníngur er orðinn ískyggilega flókin hugsun, hvað þá með aðrar hugsanir sem við hefjum yfir allan vafa og tökum sem áþreifanlegan veruleika? Hver á að hafa yfirsýn yfir þennan frumskóg sem veröld okkar er,?
Ég er ekki byrjaður á að lýsa hlutveruleikanum; hinum náttúrulega veruleika. Eðlilega er fullt af fólki sem sér í gegnum þessa örþunnu filmu sem heldur okkur í eltingarleik við okkar eigið skott. Þeir sem reyna að benda öðrum á þessa hluti gengur það ævinlega vel, því við sjáum þetta öll, en þeim gengur illa að fá okkur til að hætta dansinum.
Því hvers vegna ætti ég að mótmæla notkun á seðlinum? Hvers vegna ætti ég að umbylta því hvernig ég skilgreini hugmyndina að heimili? Þetta eru þrautreyndar hugmyndir sem virka og hvers vegna ætti ég að verða þessi skrýtni sem ruggar bátnum? Betra er að vera með á meðan það virkar.
Smám saman myndast þannig tvær fylkingar. Ein sem heldur áfram að bæta eldi í arininn á hugmyndakerfum okkar og hin sem reynir að hlaða nýjan arin. Báðar fylkingar sjá mörg hugmyndakerfi en þar sem þau eru að því er virðist í átökum sést ekki í þriðja hugmyndakerfið.
Tökum dæmi af tveim fylkingum. Annars vegar fólk sem vill viðhalda því heimskerfi sem við búum við og stefnir í „Nýtt heimsskipulag“ (New World Order). Hins vegar er fólk sem stendur gegn nýja heimsskipulaginu og gegn mörum fléttum þess en af fléttum eru frægastar peníngafléttur bankakerfanna og hins vegar klúbbar – eða leynifélög – þeirra sem sitja efst í þessu kerfi.
Hér hefur því verið lýst ofur einfaldaðri mynd þeirra tveggja fylkinga sem berjast um hugsun þína og heimssýn. Flest á þeim orrustuvöllum er ósýnilegt því þeir sem berjast fyrir nýja heimsskipulaginu stjórna meginmiðlum sem aftur dáleiða um það bil þrjá fjórðu fólks til hópferðalags samfélagins. Sá hópur nennir ekki að lesa neitt leiðinlegt eins og ábendingar varðandi flétturnar.
Hinn hópurinn er uppfullur af þrasi og sundrungu innbyrðist og sér ekki eigin hugarfléttu; sumsé að hann er aðeins skuggahliðin af hinni. Þannig missa báðir hóparnir sýnina á að báðar leiðirnar eru ófærar í náttúrulegu samheingi. Báðir hóparnir „standa á móti einhverjum“ og hvorugur sér að leið náttúrunnar er sú að vera ekki á móti neinum heldur fara þá leið sem leiðir til lífs heildarinnar.
Hjá hinu náttúrulega ríkir kyrrð, því þar er erfiðað án strits. Þar er ekki staðið gegn neinum, enginn er dæmdur, enginn er heldur lofaður. Aðeins áframstreymið sjálft er upphafið. Þegar á rennur niður hlíð rekst hún stundum á hindranir, þá finnur hún leiðir. Aðal mál árinnar er að ná til sjávar og hefja þaðan ferðalagið á ný.
Hið sorlega er að hvorug fylkingin er til búin til að hlusta á þau rök sem hér eru framsett og jafnvel þó þær gerðu það myndu rökin hér virka sem rökleysa, því þau standa utan við hið viðurkennda hugarfar beggja. Því þessi sýn tilheyrir öðrum heimi, sem lofað var fyrir þúsundum ára að myndi rísa, og lofað er enn að muni rísa.
Hann mun þó ekki rísa fyrr en fyrrgreindar fylkingar opna eigin hugardyr fyrir þeim heim, hann verður ekki gefinn í gegnum farveg kraftaverka eða heimseyðingar af hendi Guðs. Fyrst eyðum við heiminum sjálf og þeir sem yfirstíga þá verund munu endurreisa eitthvað sem aldrei hefur sést áður.. Eitthvað sem hefur verið margsýnt í þessum heimi hvernig reisa skuli, því hefur verið marglýst, og það blasir við hverjum þeim sem vill sjá fyrir náð.