Frumskógur hugans villir og tælir

Meðan þú horfir á greinarnar á trénu er erfitt að sjá tréð í heild sinni. Meðan þú horfir á tréð í heild sinni er erfitt að sjá hin trén í kring nema sem skuggamynd. Þegar byrjað er að líta á skuggamyndirnar verður skógurinn yfirþyrmandi.

Handan við skuggamynd trjánna glittir í fáfarinn stíg og til að komast á hann þarf að brjótast í gegnum beðjur og þungan undirgróður. Maður blóðgast á fótum og höndum, fær greinar í augun og er stunginn af skordýrum en á stiginn kemst hver sá sem ætlar og vill.

Þegar komið er á stíginn er komið myrkur og andar skógarins hefja hvískur sitt og rymur í sumum. Rökkrið skellur yfir og áður en veit er komið myrkur í skóginum. Að manni sest ótti, kvíði, reiði og depurð. Stöku sinnum glittir í annan á stígnum en virkar sem draugur. Stöku sinnum heyrist fótatak annars fyrir aftan og að manni sest ótti.

Áfram er þó fetað eftir stígnum. Mörg önnur tré eru við stíginn og áfram fetar maður, minnugur þess að ef farið er að lesa greinarnar villist maður af stígnum og glatar áttum. Svo maður byrgir hliðarsjón augnanna og fetar sig áfram, í þeirri sterku trú kryddaðri kvíða, að maður sé að fara áfram en ekki afturábak.

Svo sækir á brattann og maður skrönglast áfram til morguns. Þegar fyrstu geislar morgunsólar brjótast í gegnum laufskrúðið trúir maður vart að ferðin taki enda. Maður vonar að ekki sé um draum glötunar að ræða og áfram fer maður fetið. Svitinn perlar á enninu og þegar maður þerrar hann er hann rauðbleikur.

Undir hádegisbil er maður kominn efst á hæðina, rétt ofan við skógarlínuna, og maður horfir yfir laufhafið. Maður sér sólina baða toppa trjánna og skóginn taka fagnandi við birtunni. Maður veit hvaða undur og stórmerki lifa í krjónunum og maður veit hvaða ógnir búa undir laufhafinu.

Þannig er frumskógur hugans.

 

Tvö lög frá Shirley Bassey sem kannski segja þetta betur:

httpv://www.youtube.com/watch?v=XwcOqUlLjLk

 

 

 

This entry was posted in Ferli hins jákvæða vilja and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.