Græðum stjórnlaust

Við horfum á þorskinn, álið, ferðamennina og nöldrið þegar við ræðum efnahagsmál. Mig undrar ímyndunarafl vorrar þjóðar. Því engin þjóð í heimi hér, hefur betri menntun. Hún er afbragð annarra þjóða í skapandi hugsun og andlegri dýpt.

Tökum því  snúning sem ég hef beðið eftir árum saman. Beðið þess að mér betri menn sjái og rökstyðji betur en ég.

Eins og allir vita er ég fyrst og fremst heimspekingur og vil halda mér á því huglæga – og oft lífsspekilega – sviði. Ég er hins vegar líka forritari, eða var það.

Fjögur stærstu fyrirtæki heims á sviði hugbúnaðar eru þessi: Oracle, Microsoft, Sun Microsystems, IBM og SAP. Gróflega reiknaður starfsmannafjöldi þessara risa er nærri milljón manns. Allt hátekjufólk og fyrirtækin sjálf eru tugmilljarða velta.

Hvað skyld vera mikill gróði af að þjónusta höfuðstöðvar þessara risa? Hvað taka þau mikið rafmagn, hversu marga smiði þarf, hversu marga í símsvörun og aðra skrifstofuvinnu?

Ef fimm til tíu prósent þessara starfsmanna flyttu til Reykjaness, eða Melrakkasléttu, hve margir væru þá að greiða skatt af háum tekjum innan Íslands en samt utan þess? Svæðið væri skilgreint sem fríríki innan Íslands bara til að gefa hugbúnaðarrisum og tengdum greinum skattaívilnanir.

Allir þessir aðilar framleiða hugbúnað, sumir einnig tölvur. Er eitthvað mál að setja saman nokkrar tölvur og smíða fáein forrit? Til eru tvær leiðir til að græða á því.

Sú fyrri er að „Ísland hf“ verði einn af þessum risum. Það er gert með stjórntæki sem heita skattaívilnun, styrkir, og aðstaða. Markaðsherferðin færi fram með sama hætti og Dell notaði til að verða einn stærsti tölvusali heims, með blöndu af útlitshugviti Apple. Uppskriftin er þekkt, leiðin er vörðuð, við höfum bæði þekkingu og djörfung til að spila með. Umfram allt búm við að hugviti og rafmagni – jafnvel áli –  til að framkvæma slíka hugmynd.

Sú síðari er skattur og uppbygging. Í fyrsta lagi höfum við heilt Reykjanes sem er óbyggilegt hraun, og því má fórna undir viðskipta og skrifstofu hverfi. Þá höfum við allt rafmagn sem þarf til að knýja skrifstofurnar með tilheyrandi íbúðabyggðum. Við höfum arkítekta til innanhúss, utanhúss og landslagshönnun. Við höfum húsasmiðina, rafvirkjana, píparana og viðskiptafræðingana til að byggja upp hverfið og knýja það.

Við höfum útivistarsvæðin til að vísa „aðfluttum forriturum“ til að ferðast utan „Fríríkisins Reykjaness“.

Við höfum alla burði til að græða feitt á þeim skrifstofum sem hugbúnaðar risar myndu reisa þarna í skattaparadís sem veitir aðgang að afritunar stöðum (þegar í uppbyggingu), símkerfum, rafveitum, útivist, flugsamgöngum. Miðstöðin væri mitt á milli Ameríku, Evrópu og Asíu sé miðað við flug.

Í báðum hugmyndum myndi litla góða þjóðin okkar – sem væri þarna í hlutverki litlu gulu hænunnar – græða feitt og hafa öll spil á eigin hendi. Að auki myndi hér rísa í kjölfarið eitt glæsilegasta menntasamfélag veraldar, því háskólar okkar myndu blómstra. Í það minnsta vita fleiri en við Andri að ál-tekjur eru blöff.

Nú getur vel verið að þessi hugmyndasnúningur minn sé út í hött. Ljóst er að sú starfsemi sem myndi fara í gang fyrir Fríríkið myndi margfalda tekjur til þjóðarinnar svo mjög að álverin yrðu að draugaborgum (eins og þau ættu að vera).

Ég læt lesanda mínum eftir að hugleiða hvernig þetta væri gerlegt frekar en að hugleiða hvers vegna það sé það ekki. Aðal málið er þetta, álið er úrelt og skapandi hugsun byggist á bjánalegum hugmyndum.

Af hverri góðri hugmynd sem virkar voru hugleiddar tuttugu bjánalegar.

Fyrir tveim árum síðan reyndi ég að fá nokkra aðila með mér í að framkvæma eina bjánalega hugmynd. Í vor var hún framkvæmd, að vísu ekki af mér sjálfum heldur aðila tengdum einum þeirra sem ég hafði rætt við. Er ég svekktur að það var ekki ég?

Alls ekki svekktur. Það eru tvö ár síðan ég ákvað að gleyma þessari hugmynd sjálfur, en það gleður mig að sjá í höndum annarra að hún var ekki svo bjánaleg. Hugmynd er bara hugmynd þar til hún er framkvæmd, það er ekki eignaréttur á hjóli og letri er það?

 

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.