Hið heilaga orðagjálfur

Atkvæði þitt í kosningum er ávísun á vald þitt. Þegar þú gengur inn í kjörklefa velur þú hver eigi að höndla ávísun þína næstu fjögur ár. Þú velur fulltrúa þinn, eða handhafa valds þíns, af lista sem var valinn fyrirfram. Þú hefur engin áhrif á hvernig það val fer fram.

Þegar þú velur handhafa valds þíns þá hefurðu tvennt til að miða við. Annars vegar sögu þessa handhafa undangengin fjögur ár og jafnvel lengur. Sem krefst þess að þú fylgist með. Hins vegar getur þú lesið á milli línanna af loforðagjálfri viðkomandi.

Fólk segir oft að ekkert sé að marka stjórnmálamenn og ennfremur að Alþingi – eða vinnustaður þeirra – hafi misst virðingu þjóðar.

Á sama tíma gleymir fólk að þjóðin velur þetta fólk á meðan það ávísar valdi sínu gegn ódýrum og innantómum loforðum.

Á sama tíma og almenningur kaupir innantómt orðagjálfur – sem ég nefni oft faglegt orðagjálfur – lítur hann framhjá þeim valkostum sem hann hefur til að taka vald sitt aftur. Því hvað gerir þú ef þú færð iðnaðarmann til að laga lekt þak, borgar honum fyrirfram, en hann kemur ekki næstu fjögur ár?

Tvennt ber hér að útskýra nánar.

Með orðunum faglegt orðagjálfur meina ég alla þá orðavaðla og fínheit sem velta upp úr embættismönnum, prófessorum og stjórnmálamönnum, þegar þeir útskýra í meginfjölmiðlum hin ýmsu málefni og úrræði. Oft er um alls konar orðhengilshátt að ræða sem yfirleitt útskýra fyrir fólk hvers vegna kerfið þurfi að sniðganga vilja fólksins sem í orði kveðnu eiga samfélagið.

Fólk nennir ekki að setja sig inn í orðavaðlana og samþykkir það sem hljómar best en vill þó frekar komast í afþreyingu og treysta hinu vel-hljómandi fólki fyrir málunum.

Hitt sem þarf að útskýra nánar eru þau úrræði sem í boði eru, og þá meina ég endurreist Þjóðveldi. Nú er algengt að fólk segi við þeirri hugmynd „enga vitleysu“ – enda er ekki um að ræða faglegt orðagjálfur eins og fólk er vant. Því enginn hlustar á orðagjálfur heldur þarf það bara að hljóma faglega. Hér á eftir mun ég rökstyðja þetta nánar og sýna fram á að þjóðveldis hugsjónin er langt frá því að vera vitleysa.

Hugmyndafræðin fyrir endurreistu Þjóðveldi er byggð á eftirfarandi þáttum: a) Borgaralegum mótþróa. b) Afskriftum bankakerfisins. c) beinu lýðræði. Allt eru þetta hugmyndir sem hafa áður verið rökstuddar ýtarlega í mannkynssögunni og notaðar víða með frábærum árangri.

Grunnþættir þessarar stefnu eru útskýrðir í bók minni „Endurreist Þjóðveldi 2013“ sem er aðgengileg í lesformi og sem hljóðbók á shop.not.is.

Sá sem álítur þessa þætti vera kjánalega – það að byggja hugmyndafræði á þrautreyndum aðferðum og þekkingu – hann er sá sem átt er við með frasanum „fíflið hlær að því sem það skilur ekki.“

Því sá sem ekki þekkir þessi atriði hefur ekki lesið Íslandssöguna, þekkir ekki mannkynssöguna – þá sérstaklega á tuttugustu öldinni – og hefur ekki lesið sér til um hvernig fjármálakerfið virkar (sem hann er þó hluti af og byggir afkomu sína á). Hann hefur sumsé ekki tekið eftir í skóla og ekki viðhaldið eða unnið úr þekkingu sinni.

Það er maðurinn sem heldur áfram að kjósa yfir sig hið faglega orðagjálfur og svikin loforð af því tagi sem núverandi stjórnvöld íslenska lýðveldisins gerast sek um, samanber þá frétt sem þessi færsla er tengd við.

Sjálfur vel ég Þjóðveldi Íslands með beinu persónukjöri og endurreistum héraðsþingum. Þegar það rís, á þjóveldishátíð á Þingvöllum, verður skuldaflétta bankabjólfanna núlluð og kerfið endurreist með nýjum áherslum.

Að endingu minni ég lesanda minn á að stórhætta er á að bankarnir falli aftur á næstu mánuðum. Komdu fé þínu í skjól.

 

ath. Grein þessi var rituð rétt fyrir Alþingiskosningar Íslenska lýðveldisins vorið 2013 á gudjonelias.blog.is.

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.