Hvíti og svartigaldur

Þeir sem lesið hafa Orðatal vita að ég henti mér út í dulheimagrúsk í kringum 11 ára aldurinn og hef verið á undarlegu andlegu ferðalagi síðan. Hvar ég iðrast ekki neinna skrefa hingað til en hef þó stigið fleiri feilspor en vert er að rita um.

Eitt sem alltaf ruglaðist í mér var hversu mjög hinir ýmsu meistarar og sjálfskipaðir kennarar – sem furðu nokk öfluðu sér ævinlega misvitra lærisveina, voru uppteknir af táknum, skringilegum orðum (yfirleitt latneskum en einnig annarra hálfhorfinna tungna) og virtust uppteknari af serímóníum og sýndargjálfri en hinum hreina galdri.

Mér þótti áhugavert á þessum fyrstu árum mínum hversu auðveldlega fólk átti með að leiðast með út í sýndardansinn og bæði trúa því sem það langaði til að trúa og eins að hafa spekina eftir án þess þó endilega að þekkja grunn hennar.

Síðar rakst ég á að viss tákn geta haft áhrif í galdri, ef maður skilur tilurð táknsins og hvernig því voru gefnir kraftar.

Þetta prófaði ég í mínu eigin kukli – og viðurkenni að ég nota enn tákn en afar fá. Hef reyndar ávallt gætt þess að hafa sem allra minnst af táknum í öllu sem ég geri, og lífsmynstri mínu. Í rauninni eru samsettu táknin í Ferlistákninu – Ankh og Þórshamar – einu táknin sem ég nota í dag, þó þekki ég fleiri sem ég hef notað en það er allt önnur ella.

Eitt sem lengi stóð í mér við mitt sjálfsgrúsk – sem fólst eðlilega í fleiru en að lesa eða hlusta, því þú veist ekkert ef þú hefur ekki prófað það. Þú getur lýst tónlist, en geturðu spilað tónlist, dansað tónlist eða þekkirðu „hljóminn í öllum morgnum heimsins“ svo ég vitni í Monsieur de Sainte Colombe?

Það var munurinn á hvítagaldri og svartagaldri, því enginn virtist vita muninn á þessu tvennu. Þó var til fullt af útskýringum og umfram allt, bæði táknum og hugtökum. Hann er þó auðskilinn um leið og maður finnur hann, en þeir sem finna hann hafa engan áhuga á að útskýra hann.

Sjáðu til, ef þú ert fastur í hugtaki, þá ertu þar. Ef þú ert fastur í tákni þá ertu þar. Séu hins vegar táknin og hugtökin á valdi þínu, þá eru þau þar.

Þetta er hinn raunsanni galdur, en hann byggist á þrem frumkröftum. Orðkynngi, sterkri sýn og öflugri ástríðu. Sá sem höndlar þessa þrjá krafta, sem allir eru leyndardómur en þó blasa þeir við hverjum þeim sem kærir sig um að sjá.

Hann getur galdrað hvað sem hann kærir sig um, en hann mun aldrei geta bundið það í tákn né hugtök, því hann lifir. Hann heyrir umfram allt tónana í öllum morgnum heimsins.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.