Daginn eftir hrun

Þegar hrunið kom á sínum tíma fæddust mér tvær hugmyndir, sem ég hef áður ritað um. Vissulega veit ég ekki hvort þær hefðu verið framkvæmanlegar.

Daginn eftir að guð Geirs blessaði Ísland – því til eru margir guðir og Geir nefndi aldrei hvern þeirra hann ákallaði – hugsaði ég:

„Banna skal útflutning á þeim hundruðum stórra vinnutækja sem brátt verða seld úr landi. Þjóðnýta alla fjármögnunarbanka jafnharðan og þeir falla. Nýta föllnu bankana í sömu þjóðnýtingu. Nota peníngavélar þessara græðgis stofnana til að fjármagna repjuolíu. Nota sömu peníngavél til að bjóða atvinnulausu fólki 30% álag ef það vill vinna við uppgræðslu eða vegavinnu.

Fá innan tveggja ára næga repjuolíu innanlands til að drífa 60% allrar innlendrar notkunar á Dísel og hráolíu. Nota þetta vægi til að leggja vegi um hálendið, endurvinna allar vegasamgöngur vestfjarða, tvöfalda hringveginn. Þjóðnýta borana úr virkjuninni stóru og bora fleiri göng. Skapa vinnu og spara gjaldeyri. Auka virkni þjóðarinnar.“

Hefði þetta orðið stefnan – í stað þess að herða sultaról þjóðar – hefðum við haft næga vinnu og hagvöxt síðustu fimm ár. Þjónustan við ferðaiðnaðinn væri í blóma og til fyrirmyndar.

Hér hefði ekkert atvinnuleysi orðið í raun, heldur blómstrað allur smáiðnaður og jaðartengdar atvinnugreinar. Bankarnir hefðu verið afgreiddir á réttan máta með því að leyfa þeim að fara á hausinn og þeir afskrifaðir eins og önnur einkafyrirtæki í stað þess að gefa þeim skuldir þjóðar sinnar, skuldir sem eru ræktaðar með verðtryggingaráburði.

Því miður hafa stjórnmálamenn Íslenska lýðveldisins hvorki sýn né kjark.

Þeir hafa gefið einkavinafyrirtækjum skuldir þjóðar sinnar, hert sultaról að innlendri starfsemi í skjóli Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, og eytt dýrmætum árum í orðagjálfur og sjálfsréttlætingar til hægri og vinstri. Fjölmiðlar hafa ekki þorað að segja þjóð sinni frá þeim þjóðum sem þorðu að standa gegn alþjóðlegu fjármagns mafíunni. Í stað þess eru fjölmiðlar í meðvirknisdoða að passa sig að rugga engum bátum þeirrar mafíu sem stjórnar á bak við tjöldin.

Fjórar fjölskyldur eru bornar út á dag, frá hruni. Það heldur áfram og fjölmiðlar þegja enn.

Því miður; Íslandselítan er sjálfdæmd til útlegðar þegar Íslenzka Þjóðveldið rís á ný. Þann dag verða bankarnir afgreiddir, með einu pennastriki. Þann dag færðu fjögur atkvæði á ári. Þann dag færðu tækifæri til þáttöku.

Fyrst minnst var á Guð hér framar. Minn er sá sem rætt er um í Biblíunni. Í gömlu ritningunum er nafn hans ritað sem fjórstafanafn þ.e. IHVH. Það er ýmist borið fram sem Jahve eða Jehóva. Þjóðkirkjan notar orðið Drottinn. Hann er sá Guð sem Jesús kristur kallaði föður sinn og ég er stoltur af að tilheyra kristinni trú á þann hátt sem ég skil hana.

Fyrst ég skaut á Geir, verður síðastnefnt að koma fram, en að trúmálum afgreiddum: Tilefni þessarar færslu er réttlát hneykslan.

Mér er slétt sama um 3 eða 5 prósent af íblöndun á olíutankinn, sem er bíódísel nálgun olíurisanna sem lifa á nauð þjóðar vorrar. Ég vil skapandi hugsun og vöxt. Ég vil sjá okkar þjóð sýna hvað í henni býr, í stað þess að bíða þess að Íslandselítan geri eitthvað fyrir fólk.

Ef þú ert ekki gegn mafíunni í verki, þá ertu sannarlega með henni í liði. Mafían sem hirti kvótann, gaf bankana, bjó til bóluna, er á leiðinni á drekasvæðið, langt komin að hirða húsin af fólki og kæfa hér allt, sú mafía mun halda áfram að sjá okkur sem Mjólkurkú. Því sá fær það sem hann á skilið, þeir sem standa hjá munu mjólkaðir verða en þeir sem standa upp munu uppskera ríkulega.

 

Þessi grein var áður birt á gudjonelias.blog.is.

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.