Hin tigna og frjálsa Íslands sál

Öldina sem Íslendingar urðu til var hér krökkt af laxi, silungi, og fleygri veiðibráð. Þá höfðu refir, ernir, smyrlar og fálkar átt hér griðland án samkeppni við manninn en urðu brátt að hopa.

Eins og allir vita  hafa ernir verið hundeltir í gegnum aldirnar því þeir bæði taka lömb en geta einnig náð ungabörnum.

Eins og með öll stóru rándýrin þá lifa þau erfiðu lífi og eiga þvi erfiðara uppdráttar sem þau lifa meir utan hjarðarinnar.

Þetta hefur maðurinn vitað í tvöhundruðþúsund ár og því snýst líf okkar um að styrkja samfélag. Samfélag arna hefur meira og minna staðið í stað undanfarna öld eða síðan þeir voru friðaðir.

Þá höfðu bændur á þúsund árum þjarmað óþyrmilega að þeim enda kepptu þeir um sama ætið, og hitt. En tímarnir breyttust með tækninni og það er ekki eins sárt fyrir okkur þó örn taki eitt og eitt lamb, svo við getum friðað hinn tignarlega varg.

Er það vel, enda fuglinn fagur og langt frá því að valda okkur tjóni. Það er að segja samfélaginu.

Þó stöku bóndi upplifi skaða þá er það ævinlega bætanlegt tjón, svo við friðum fuglinn. Þá er fylgst vandlega með varpstöðum og pörum svo í dag vitum við hversu erfitt það er fyrir arnarpar að koma ungum á legg.

Þetta er einnig lýsing á vanda mannsins í dag. Við erum orðin svo háð samfélaginu að við sjáum ekki lengur út fyrir það þó við dáumst að þeim sem þora því. Líttu til að mynda á vinsælustu bíómyndirnar. Þær snúast allar um að samfélagið sé heilalaust dauðyfli sem sé kúgað af einum eða tveim bófum en að einn eða tveir hreinlyndir utangarðsmenn bjarga málum.

Hið dulda við allar þessar myndir er að fjöldinn þarf öryggi hinnar rólyndu samfélagsheildar sem aldrei fari út fyrir rammann. Að utangarðsmaðurinn geti komið og bjargað hinum dáleidda almenningi og fær að launum eina sæta hálfgyðju til að knúsa í lokin.

Allar þessar myndir segja þér að sitja um kyrrt og bíða hetjunnar.

Lítum síðan á raunveruleikann: Hver einasta hetja sem djörf stígur fram fyrir ramma heildarinnar, reiðubúin að afdáleiða hana, er skrýtinn asnakjálki sem ýtt er til hliðar í samfélaginu. Enda ekki þörf á honum að bjarga málum?

Hin fyrri veruleiki sem hér er lýst, er mýta sem þú sérð nær daglega á skjánum en heldur að sé einföld afþreying. Svo er þó alls ekki því þeir sem hafa sérhæft sig í að framleiða skemmtiefni með dulinni táknfræði og mýtum vita hvernig þær virka á dulvitund sálarlífs til að halda skelkuðum lýð hlekkjuðum við sjónvarpsfjarstýringar og ótta við að rugga bátnum.

Það er ástæða fyrir að ekki hver sem er getur framleitt og komið á framfæri óvenjulegu sjónvarpsefni. Bara að fá leyfi til útsendinga krefst þess að þú tilheyrir stablismentinu. Auk þess er uppeldi hugsunar okkar fatsmótað. Allir vita hve erfitt er að vera hetjan og öll dulspeki trúarbragðanna hefur sannfært þig um að þú sért of lítilisigld mannvera til að hafa vægi.

Nær öll trúarbragðamýta – þeirra trúarbragða sem fá fjármuni en ekki hinna – kennir þér að láta utangarðshetjuna bera ábyrgð á örlögum þínum. Hvort heldurðu að sé rökréttara að Jesú hafi dáið fyrir synd þína eða verið drepinn fyrir að kenna þér að axla á henni ábyrgð og vera frjáls?

Svo þegar einhver stígur fram og sýnir þér að hægt er að lifa andlega sjálfstæðu, og gleðiríku, lífi utan við ramma hins sjálfsagða kemur hinn veruleikinn til skjalanna. Veruleiki hjarðdýrsins sem er okkar daglega veröld: Sem minnir þig á að hvítir hrafnar eiga ekki erindi inn í hjörðina. Þannig hefur peníngur hjarðdáleiðslunnar tvær skemmtilegar hliðar.

Er til einhver lausn við þessu? Er hægt að sýna fólki fram á að því er haldið í heljargreipum sjálfsréttlætingar, kvíða og afstöðuleysis? Er hægt að sýna fólki fram á að það þarf ekki ofurvald fjármálaklíkunnar? Að spunamaskína efnahagsklíkunnar stjórnar hugarheimum fjöldans?

Það eru í dag þúsundir fólks sem lifa gleðiríku lífi utan við ramma hins viðurkennda, en þú sérð ekkert um það í meginfjölmiðlum. Myndi það breyta nokkru ef hægt væri? Því saga mannkynsins sýnir okkur skýrt að hugarfarsbreyting, þó ekki sé nema agnarögn, tekur aldir.

Það tók okkur til að mynda eittþúsundogníuhundruð ár að fatta hvað Kristur átti við varðandi kærleikann og leggja þrælahald af.

Hugarbreytingar taka tíma, og reyndar er það gott. Því náttúran fann huga okkar upp og af ástæðu. Rétt eins og þróunarkenning Darwins hefur sýnt okkur þá sækir lífveran í að nota það sem virkar, en um leið sýnir hún okkur að utangarðsmaður breyttrar hugsunar er stökkbreyting sem er vegvísir farsælllar breytingar.

Einnig erum við áminnt um það í skólum og á starfsmannanámskeiðum að við eigum að leitast við að hugsa út fyrir rammann svo lengi sem það ögrar ekki viðurkenndum viðmiðunum. Sama hringavitleysa aftur? Tvær hliðar á sama peningi og áður er lýst?

Gunnar Dal var dáður alþýðuheimspekingur og skáld. Margt í því sem hann skrifaði benti á það sama og hér er lýst, nema mitt mál er oft of torskilið til að sýna þetta vel. Enda voga ég mér ekki að bera mig saman við Gunnar. Þar að auki gaf hann hugsun minni of mikið til að ég vogi mér annað en að telja mig minni mann, enda bækur hans í öndvegi á mínum hillum.

Ég nefni Gunnar hér vegna hliðanna tveggja á sama peningnum og áður er lýst.

Þar sem ég tel að hugarsalir hins sammannlega í okkar nútímalegu menningarvitund sé stundum eins og hvolpur að elta skottið á sér. Annars vegar haldið föngnum af mýtum sem hinn almenni maður sér ekki í gegnum og hins vegar haldið föngnum af sjálfbyrgingslegum skoðunum sem eiga oft meira skylt við hin heilögu viðhorf hinnar einu sönnu trúar á tímum þeim sem hún var gild.

Kannski er hún gild enn og á margan hátt er þetta skýrt í einni bók Gunnars, Öld fíflsins.

Með öðrum orðum getur þú aðeins verið frjáls, eins og fuglinn, að þú takir þá áhættu sem örninn táknar: Að fljúga hærra en hinir, sjá lengra en hinir, og taka sénsinn með einstökum viðhorfum þínum sem þó gætu gert þig að utangarðskonu.

Allt þetta er ástæðan fyrir skrifum mínum um Endurreist Þjóðveldi. Að samfélag okkar er aðeins sterkt ef það viðurkennir frelsi einstaklings og jafnframt samábyrgð þeirra allra. Þannig virkar samræða lýðræðis sem hérlendis var virk í fjórar aldir.

Samræða lýðræðis táknar að fjöldinn kemur saman eins oft og því er við komið. Þar séu sem flestar skoðanir ræddar á smáum þingum en smæð þeirra tryggi að fleiri raddir heyrist. Svo sé kosið um niðurstöðu sem allir hljóta að sameinast systurlega um, en samræðan heldur þó áfram á næsta þingi, eða þarnæsta, þar til fjöldinn ákveður með sameiginlegri meirihlutakosningu hvort skipta þurfi um skoðun.

Ekki umræða heldur samræða. Ekki deilur heldur leiðir til sátta og samfélags.

Ekki dáleiðsla heldur frjáls hugur. Munum að við höfðum slíkt samfélag í fjórar aldir og minning þess er sterk í menningu okkar. Munum einnig að þeir sem skópu það samfélag smíðuðu hugsanir og hugmyndir sem ekki hafa átt sinn líka í mannkynssögunni fyrr né síðar.

Með öðrum orðum; Nýtt Ísland fæðist heima í stofu, hjá þér, og endurspeglar þig og þína. Ekki bíða þess að Orðadindlar stjórnmálanna axli ábyrgð á því samfélagi sem þú vilt búa í, heldur smíðaðu það sjálf. Þannig verður land samræðu, andlegrar sköpunar, samtakamáttar og sanngirnis aftur að veruleika, fyrir okkar eigin ábyrgð.

 

e.s. Þessi grein var fyrst rituð á blog.is eftir lestur fréttar á mbl.is um erni á landinu.

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.