Einfalt er bezt, nema flókið sé betra

Ég skráði mig í sjálfstæðisflokkinn því mér þótti virðing ríkja þar fyrir festu og öfgaleysi. Þar væri virðing borin fyrir skoðunum annarra og málefnaleg rökræða sterk. Ég hélt Sjálfstæðismenn virða lýðræðislega niðurstöðu og samræðu.

Kjarni sjálfstæðisflokksins vill sýna samfellda heild út á við. Þó margir félagar séu flokknum ósammála í mörgu virðist samstaðan sterk.

Í heildina var ég meira sammála þessum flokki en nokkrum hinna en einnig hrifinn af þessari ímynd.

Þau atriði sem ég er ósammála flokknum með, hélt ég að ræða mætti við flokksmenn á þeim vettvangi sem flokkurinn notar til innri rökræðna.

Sjálfur kynntist ég þessum vettvangi og virðing mín fyrir honum jókst um tíma. Margir eru ósáttir við flokkinn þá dagana (2013) og eru enn. Á ég þá við staðfasta hægrimenn sem vilja selja landið til Evrópu, eins og gert var á Sturlungaöld.

Hafa þeir rétt til sinna skoðana og er það vel.

Stór hluti þessa fólks lítur til annarra flokka og kemst að því að enginn þeirra skilar því sem við hægrimenn getum sætt okkur við. Líklega munu margir þeirra skila auðu í næstu kosningum, enda er enginn annar hægri flokkur á landinu. Utan Hægri grænna sem enn hefur ekki fest sig í sessi.

Það hefur alla jafna verið áhugavert hve margir valkostir eru vinstra megin en færri hægra megin. Að því sögðu tek ég undir með þeim röddum sem álíta tvívíða hugsun hægri og vinstri vera úrelta. Sjálfur vil ég frekar hugsa í hring eða kúlu.

Líklega líða þó aldir áður en mannheimur skilur slík stjórnmál: Beint lýðræði, eða skammtalýðræði. Fornmenn hefðu þó skilið þá afstöðu enda beittu þeir henni.

Að þessu sögðu hef ég ekki mætt á fundi í mínu sjálfstæðisfélagi síðan ég hóf þáttöku í starfsemi Þjóðveldisfélagsins. Ég trúi á endurreist Þjóðveldi og tek ekki þátt í stjórnmálum Lýðveldis:

Ég sniðgeng þau að öðru leyti en einu, ég mæti á kjörstað en ég skila auðu. Ég er sannfærður um að  Þjóðveldi rísi og þar muni stjórnmálaflokkar – minn þar með talinn – finna sinn farveg.

Stjórnmál Lýðveldis einkennast af glundroða, þvermóðskuhætti, þrefi, óttaáróðri og ríg. Ég trúi að þetta séu síðustu kosningar Íslenska Lýðveldisins og hef rökstutt það ríkulega á öðrum vettvangi. Tja, kannski ekki alveg síðustu en með þeim síðustu.

Eitt af því sem ég sé er hvernig fólk í stjórnmálum, bæði til hægri og vinstri, einblýnir á kappræður og þvermóðskulegt virðingarleysi í skoðunum þó oft sé orðagjálfrið sjálft í kurteisistón. Þetta er líklega eðlilegt, því hinn almenni maður, sem í orði kveðnu á bæði valdið og budduna, hefur engin áhrif þegar upp er staðið og stjórnmálamenn í raun afar lítil.

Sjálfur er ég hrifinn af einfaldleika. Tökum tvö dæmi um hvernig leysa mætti tvö af stærstu deilumálum samtímans með einföldum hætti.

Kvótabréf einstaklinga. Hver einasti borgari fengi sent bréf sem staðfestir hve stórt hlutfall hann á af kvóta þjóðarinnar. Einskonar hlutabréf í kvótakerfinu. Hann fær þetta sent, hann á það, hann má ráðstafa því að vild. Einföld lagasetning sem myndi vissulega setja suma í uppnám, en þú bakar ekki pönnukökur nema brjóta tvö egg. Handhafi bréfsins fær sínar rentur af útleigu kvótans til útgerða, og greiðir skatt af því. Þetta má gera með einföldu tölvukerfi sem tölvunarfræðinemar geta skrifað við næstu útskrift úr skóla. Ef ég sel einhverri útgerð mitt bréf er það bara minn höfuðverkur en ég myndi tæplega nöldra upp frá því.

Rétt er að taka fram að um hugmynd er að ræða, af sama tagi og rædd er á heimspekifundum.

Ég sjálfur trúi því að betra sé að leysa kvótamálin á aðra vegu sem ég útskýri síðar. Umfram allt, hef ég reynslu af því á breiðum vettvangi að hugmyndir, hve fáránlegar sem þær hljóma, geta af sér umræður og nýjar hugmyndir. Opinn hugur í samræðuhefð velur að lokum beztu hugmyndina, þessa einföldu sem virkar bezt, fyrir einhvern.

Frysting verðtryggingar. Það er óþarfi að afnema verðtryggingu, við frystum hana. Á einni nóttu má læsa formúlunni sem reiknar út vísitöluna sem verðtrygging er hengd við. Hún er fryst frá einhverjum degi. Það getur verið 1. maí 2013 eða 1. október 2008. Aftur má gefa útskriftarnemum í tölvunarfræði og stærðfræði færi á að spreyta sig á einföldun þessa dæmis. Ég gæti það sjálfur enda er um einfaldan útreikning að ræða. Embættiskerfið og margir hagfræðingar stjórnmála hafa hins vegar flækt dæmið svo mjög að best er að spila með. Því hver vill rugga bátnum?

Lýðveldisbáturinn er hvort eð er í svo miklum veltingi að varla er á bætandi. Þess vegna veit ég að Þjóðveldið rís, því ég veit að ekki þarf að fella lýðveldi sem er að að hruni komið innan frá.

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.