Ef frelsið er falt þá ertu þræll

Þegar þjóð sundrast má búast við að allt fari norður og niður. Venjan þegar þetta gerist er sú að engin samstaða sé um þjóðarhag og þeir sem stýra honum tapi stórfé.

Þegar átt er við þjóðarhag er jafnan átt við efnahagslíf þjóðar. Þeir sem stýra þjóðarhag eru sjaldnast stjórnmálamenn og aldrei þjóðin sjálf. Málpípur stjórnmála vilja segja okkur annað og miðjumoð þeirra er þreytt.

Síðast þegar þjóð okkar sundraðist voru árin 995 til 999. Þetta er nú að gerast á ný. Frá 990 til 1000 hélt kristin trú innreið sína á okkar heiðna landi og sótti hún hratt í sig veðrið.

Vorið 1000 þegar Alþingi kom saman voru tvær fylkingar saman komnar í héraði Kjalarnesþings. Heiðnir menn hópuðust saman á völlunum við Öxará en kristnir menn hópuðst saman í Ölfusi og niður með soginu.

Stóra deilumálið sem sundraði þjóðinni var þó ekki trúin sjálf enda þjóðin að upplagi umburðarlynd í trúmálum. Deilan snérist um þau lög sem nýta skyldi til að móta landið og ramma þjóðina inn.

Almenn sýn fólks á lög var sú að þau hlytu að mótast af þeim veruleika sem fólk tryði á, hvort heldur ytri veruleika hlutanna eða innri veruleika andans.

Kristnir menn neituðu af þessum sökum að taka þátt í samkomu Alþingis og þótti einsýnt að tvær þjóðir væru að fæðast í landinu. Þjóðin okkar var sjötug þetta sumar, stútfull af kjarnmiklu fólki sem vissi hvaðan það kom, hvað það stóð fyrir og var tilbúið að fylgja fast eftir skoðunum sínum.

Lesendur mínir vita hver niðurstaðan var.

Útkoma deilunnar var sú snjallasta sem gerð hefur verið í deilumáli þjóðar í mannkynssögunni. Til þess að forðast byltingu var kosið um að þjóðin tæki upp kristni í orði kveðnu en heiðni yrði umborin. Þetta sættist þjóðin við og næstu þrjár aldir var beint lýðræði og frelsi tryggt í landinu.

Nú er aftur komið upp deilumál hérlendis og mun stærra.

Þjóðin býr að öflugri menntun og fólk hefur mun meiri frítíma til heimanáms og iðkunar persónulegra áhugamála en var á þessum tíma. Fólk nútímans er upplýst um efnahagsmál, alþjóðasamskipti og meðvitað um lög. Fólk þekkir hugtök heimspekinnar og er andlega frjálst. Þjóðin er til muna meðvitaðri um hvernig veröldin tikkar.

Fólk var að vísu meðvitað um lög í fortíðinni einnig. Rannsóknir hafa sýnt að lögrétta var vinsælasti áfangastaður almennings meðan Alþingi stóð yfir. Rétt eins og nú þegar hver maður les fréttir og fréttaskýringar á Netinu og ýmsir hópar manna – eða leikmanna – eru að vasast í borgaralegum réttindum og fjalla um lýðræðismál.

Landið iðar af skapandi hugsun, þó beitt sé þöggun.

Þjóðarhagur í orðalagi stjórnmálamanna Lýðveldisins er skýr: Hagur bankanna. Hagur álveranna. Hagur kvótakónganna. Hagur stjórnmálaelítunnar. Hagur embættismanna og nefndarfólks. Hagur virkjana og hagur skuggavaldsins. Með orðinu skuggavaldið er átt við tæplega 1.000 manna hóp sem heldur um öll völd landsins á bak við tjöldin.

Ég heyrði ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar um áramótin síðustu (des 2013). Hann er atvinnustjórnmálamaður Lýðveldisins, arftaka erlenda valdsins. Hann er öllum hnútum kunnugur og afar snjall maður. Hann veit hverjir eiga völdin, hann veit hverjir græða á þegð þjóðar sinnar. Rödd hans var þó hnípin. Ef hlustað er á ræðuna án þess að hlusta á orðin vantar í hana allan sannfæringarkraft.

Ólafur veit að þjóðin er hlekkjuð við trú sína á Þjóðarhag þeirra sem fyrr eru nefndir. Hann veit að stutt er í að upp úr sjóði.

Fólk veit í dag þá hluti sem ég er að skrifa um. Fólk veit að það eru ekki gen sem móta Íslenska þjóðarsál heldur afstaða og hugsun, sú sama og fæddi af sér þjóð vora fyrir tólfhundruð árum. Fólk veit að verið er að hlekkja sig við sýndarhag og fólk veit að hægt er að breyta málum þjóðinni í hag.

Margir hafa lesið stjórnarskrá Lýðveldisins. Fólk furðar sig á að engin viðurlög eru við stjórnarskrárbrotum. Það furðar sig á að stjórnmálamenn eru ekki bundnir af loforðum sínum og fólk undrast þöggunartækni fjölmiðla og síur þeirra.

Ég vona heilshugar að þegar þjóðin rís á ný verði það með virkum hætti friðsemdar og að niðurstaðan verði beint lýðræði. Ég ítreka þá afstöðu Íslenzka Þjóðveldisfélagsins að hafna ber byltingu og öðru ofbeldi þegar Nýtt Ísland verður að veruleika.

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.