Festa er bumbum betri

Margmenni á Austurvelli birtist ekki á þann hátt að gangandi vegfarendur fái hugmynd á gönguferð í miðbænum. Hver einustu fjöldamótmæli, hérlendis sem erlendis, eru skipulögð í grasrót.

Það er gert þannig að maður ræðir við mann og eru þeir yfirleitt meðlimir í grasrótarhóp. Þannig var bumbubyltingin fyrir fjórum árum. Búsáhaldabyltingin var skipulögð af fáeinum málefnahópum vinstra megin við línuna.

Þetta veit hver sá sem rýnt hefur í hverjir voru helstu ræðumenn, hverjir voru talsmenn, hvaða vini þeir vinna með í málefnum og í hvaða mismunandi hópum þeir voru.

Sumir hópar vinna með eða móti ESB málum, aðrir eiga málfundi um vímuefnastríð, sumir ræða málefni öryrkja, enn aðrir ræða hugmyndir á borð við lýðræði. Lengi mætti telja, s.s. stúdentafélög, hópa í starfsréttindamálum, mannréttindamálum og ég er ekki byrjaður á hópanöfnum.

Þú veist þetta, ég veit þetta, allir vita þetta.

Arabíska vorið var skipulagt á þennan hátt, Occupy Wall street, Occupy Monsanto, Mótmæla aldan í Kænugarði, og enn mætti lengi telja. Mannfjöldi safnast aldrei saman vegna þess að einhver hafi lesið frétt og spássérað í miðbæinn með spjald. Slíkt er ævinlega skipulagt og ætíð með einni aðferð; Múgæsingur.

Múgæsing gerist þannig: Æstu upp reiði sem hópi fólks er sameiginleg, bentu reiðinni í farveg (sem tengist hinu sameiginlega), og þú hefur múg. Mannfólk múgsins sér þetta sjaldnast, og jafnvel ekki eftir á því reiðin er ævinlega réttlát. Því fólki finns ævinlega það verða reitt af réttlátum ástæðum og getur rökstutt það með þótta. Það er mikið um að reiði fólks sé beisluð á þennan hátt.

Finndu reiðan mann, bentu honum á sökudólg, og hann verður æstur.

Skemmst er frá að minnast þegar tugir fólks söfnuðust saman úti í hrauni útaf mosató og málningarslettum. Látum kjurt liggja hversu réttlátt það var. Hafðu hugfast að í anda var ég því fólki sammála.

Ég er enn reiður lögreglunni fyrir þá smánarlegu valdbeitingu sem ofbeldishneigðir krakkar í búningum beittu virta öldunga sem verið hafa varðmenn okkar menningar í áratugi. Ég hef vel tekið eftir hvernig lögreglan hefur notað hvert tækifæri síðustu fimm ár til að sýna hinum almenna manni að hún sé tilbúin til átaka.

Lesandi minn veit vafalaust hvert ég stefni með þessari færslu. Ég hef nógu lengi rætt um Beint lýðræði. Það verður ekki til í múgæsingu, heldur með yfirvegaðri samræðu þjóðar sem fram fer með þeirri festu sem henni er í blóð borin.

Íslensk þjóðarsál er andi festu, virðingar, og menntunar, en ekki múgæsinga og gelgju.

Minnumst þess hversu hörð við vorum öll sem eitt þegar við stóðum gegn Bretum fyrir hálfum fjórða áratug. Höfum í huga að leiðtogar Lýðveldisins Íslands höfðu ekki í sér dug til þess fyrir fimm árum, og þó var það vilji þjóðarinnar. Auk þess seldi hún landið til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins þvert á vilja þjóðar sinnar.

Þjóðin hefði sætt sig við þá þrengingu, en hún er reið yfir spuna og blekkingum síðustu fimm ára. Þess vegna safnaðist fólk saman í dag. Ekki vegna ESB, heldur vegna sífelldra svika og spuna stjórnmála elítunnar á ríkisþingi við Austurvöll, sem skartar Dönsku skjaldarmerki og kennir sig við Allsherjarþing héraðsþinga. Þetta er málið:

Það eru engin lög sem banna Íslendingum að halda sín héraðsþing á ný.

Enn eru ýmis lög Þjóðveldisaldar í gildi, og við – Íslendingar – megum þinga eins og við viljum. Við eigum landið, við eigum valdið, við eigum virðinguna. Ríkisþingmenn eru fulltrúar okkar en ekki yfirboðarar.

Þegar fólk fattar þennan einfalda sannleika er stutt í að við gerum tvennt. Við endurreisum beint lýðræði og við spörkum bönkunum burt. Svo tökum við kvótann heim.

Endurreist Þjóðveldi er vaknað í hjörtum margra í dag, málefnið er vandlega rökstutt, greinaskrif í hljóðupptökummyndskeiðum og ritmáli, svara flestum ef ekki öllum mótsvörum. Uppskriftin er einföld og geranleg, og vandlega útskýrð.

Allt sem ég hef ritað um málefni Þjóðveldis er byggt á þekkingarheimi okkar eigin menningar. Þó málefnið hljómi skrýtið í eyrum manns sem er vanur megin miðlum, þá þarf hann skammt að lesa til að sjá þetta.

Hið eina sem þarf, er trú þín á þjóðina þína. Í virðingu og festu: Nýtt land rís ekki með ofbeldi, reiði, niðurrifi eða mótmælum, heldur skapandi festu, í virðingu. Þannig getum við sameinað alla krafta þjóðar okkar, líka þeirra sem sök eiga á kreppunni, til að endurbyggja Nýtt land.

Þessi grein var rituð í tilefni af mótmælaöldu í kjölfar þess að hægristjórn ákvað að draga umsókn um ESB aðild til baka þrátt fyrir kosningaloforð þess efnis að þjóðin fengi að ráða því sjálf.

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.