Afplánun er auðveld

Fyrst þegar komið er til afplánunar er mætt á Skólavörðustíg 9 í Reykjavík. Þegar þangað er komið verður maður fyrir léttu áfalli. Aðstæður samrýmast í engu því sem nútíma Íslendingur á að venjast.

Húsnæðið myndi kannski teljast lúxus fangelsi í Brasilíu eða Nígeríu. Nú vilja margir góðborgarar að fangar megi dúsa í sem verstum húsakynnum og lýsa þannig sjálfum sér vel.

Það er rétt sem Páll Winkel segir í greinastúf á mbl.is sem varð kveikjan að þessari grein minni: Okkar ágæta samfélag er gegnsýrt af reiði, biturð, ótta og hatri.

Sjálfur hef ég afplánað og gerði það með glöðu gleði. Strax þann vonda dag sem mér varð fótaskortur á lífsbrautinni vissi ég að farvegur heilunar hefst á opinskárri blygðun á eigin gjörð. Aðeins þannig er hægt að líta í eigin sálarspegil og spyrja hver maður vill vera.

Þessi lífsskoðun styrkir einnig þegar dómstóll götunnar leiðir mann í gegnum sín svipugöng. Dómur sjálfs sín, og blygðun gagnvart eigin hegðan er ekki síðri dómur, enda þarf hver maður að búa með sjálfum sér ævina út.

Dómur réttarkerfisins vegur mun léttar en það sem að framan er talið. Afplánun er lauflétt. Mánuður í afplánun er kannski á við viku við togveiðar í smugunni. Hér mun þó sem minnst lýst afplánun, það eru fáir fyrrum fangar sem kæra sig um að lýsa henni, hún er einkamál.

Ég hef lesið mikið af efni um samfélagsmál, sálfræði, heimspeki og trúmál. Ég hef nýtt mér samtalsmeðferð, farveg  „12 spora“ og  Ferli hins jákvæða vilja“. Ég þekki því vel farveg heilunar og bata. Ég nefni þessa hluti því ég nýtti mér afplánun sem tækifæri. Hún var eitt sinn nefnd betrunarvist og ég leit á mína eigin sem tækifæri til að hefja endurskoðun á hver ég er og hver ég vil vera. Ég sá mína sem fyrsta skrefið að umbreyttum manni.

Ég vildi einnig nýta þessa fágætu reynslu sem best á marga vegu mér til lærdóms. Því voru augu mín opin fyrir ýmsu og eftirfarandi kom mér á óvart. Föngum standa engin úrræði til boða, vilji þeir leita í farveg heilunar. Þau eru of dýr. Það er kerfinu ódýrara að þyngja dóma. Það virðist vera vilji hins upplýsta samfélags að fangar leiti aftur inn í fangelsi.

Vissulega er þar starfandi sálfræðingur en það er útilokað að njóta aðstoðar hans. Hafi fangi áhuga á því að spyrja sjálfan sig hvaða ferli rak hann inn og leita úrræða til sjálfsheilunar og bata er hurðin lokuð. Einnig starfar félagsráðgjafi hjá Fangelsismálastofnun sem getur ekkert frekar veitt né vísað á úrræði.

Námsmöguleikar eru lítill dropi af því sem gefið er í skyn að sé í boði og er enginn sérstakur vilji til að opna föngum farveg til betrunar eftir þeirri leið. Vissulega er einhver möguleiki til staðar en því miður hljómar hann betur í lesningu fyrir þá sem heima sitja en inni.

Eitt sinn voru fangelsi nefnd Betrunarhús og er sú hugsun góð.

Því miður eru betrunarhús á Íslandi fyrst og fremst refsivöndur. Þeir fangar sem þar gista í dag, líklega um það bil tveir þriðju, vita að þeir munu rata þangað aftur. Þeir fangar sem vilja nýta sér tækifæri til betrunar hafa engin úrræði, engar leiðir og hendur þeirra eru bundnar. Ég kannaði það og ekki eftir þeirri leið sem fangelsismálafræðingar lesa um í skólum eða finna með yfirborðskenndum viðtölum. Þeir myndu ekki leggja í þá könnun sem ég fékk tækifæri til.

Föngum er sama um dóma framtíðar og þeim er sama um dóm götunnar. Þeim er að mestu sama um aðstæður og vistarverur, hvort fangelsi sé lúxus eða skítapleis. Flestir þeirra eiga fortíð í samfélagi sem hafnaði þeim ungum og kom fram við þá sem úrþvætti á uppeldisárum og þeir líta á dóm afplánunar sem staðfestingu á eigin sjálfsáliti.

Ég notaði tækifærið þegar ég sat inni og kynnti mér sögur og viðhorf samfanga. Saga sögð -öðrum samfanga er ekki sú sama og sögð er félagsráðgjafa í viðtalsherbergi eða fangelsisfræðinema í stuttri könnun til BA ritgerðar. Ég bjó auk þess yfir þekkingu og reynslu til að skilja þessa hluti.

Einnig lét ég ítrekað reyna á þau úrræði sem stofnunin lætur í veðri vaka að bjóðist en er í raun orðagjálfur. Ekki er þetta meint sem gagnrýni á stofunina, því starfsfólk þar er tilbúið til þeirra verka sem fjárveitingar og reglur leifa.

Eitt eru allir fangar sammála um. Hver og einn einasti. Þegar þú hefur eitt sinn fengið dóm, og afplánað, missir réttarkerfið mátt sinn. Þér er alveg sama þó þú afplánir aftur, og hve lengi. Þegar þú eitt sinn þekkir þann heim, þá eru tímalengd og aðstæður eitthvað auka.

Að mörgu leyti er skoðun mín í dag eftirfarandi: Höfundar refsilaga, lögfræðingar og dómarar, og aðrir hlutaðeigandi ættu að hafa tveggja mánaða afplánun sem hluta af námi. Þá myndu þeir vita hvað hún er, skilja fólkið sem ratar þangað inn, og hugsanlega reikna dæmið til enda.

Fangi sem kostar 100.000 krónur á dag, myndi kosta 103.500 krónur á dag fengi hann sjálfsbata úrræði. Líkurnar á að hann bryti aftur af sér myndu minnka um helming, jafnvel tvo þriðju, því hann myndi ekki langa til þess að brjóta af sér aftur. Honum er hins vegar í öllum tilfellum sama þó hann sitji aftur inni, og næstum því sama um tímalengdina.

Að endingu vil ég taka taka fram að starfsfólk Fangelsismálastofnunar vinnur erfitt starf og af fagmennsku fram í fingurgóma.

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.