Afleiðingar kynferðisofbeldis gætu hjaðnað

Ég sat fyrir framan sálfræðinginn og gapti. Hann horfði á móti og leyfði mér að vinna úr því sem hann hafði sagt. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem hann kom mér á óvart enda í fimmta sinn sem ég sat í stólnum hjá honum, og ekki hið síðasta.

Í fyrstu heimsókn minni hafði hann sagt mér hluti um sálarlíf sem staðfesti fyrir mér að ég þyrfti fleiri heimsóknir. Ég hafði bókað fyrstu heimsókn fyrir orð góðs vinar sem hafði opnað augu mín fyrir því að ég var þá í niðurfalli taugaáfalls og aðeins sérfræðihjálp gæti fleytt mér upp.

Í fyrsta viðtalinu opnuðust augu mín fyrir að þó hugur minn og meðvitund væri rík að hugsun, og þó rökhyggja mín væri sterk, og þó ég héldi að ég þekkti sjálfan mig, þá vissi ég ekkert um mína eigin dulvitund.

Ég gat ekki sætt mig við að maður sem lesið hefur mikið af bókum og talað við mikið af öðru fólki vissi meira um hvernig ég væri en ég sjálfur. Hann sannaði fyrir mér innsæi sitt og skilning á fáeinum mínútum. Því ákvað ég að fá þekkingu hans með þeirri einu leið sem í boði var. Í næstu heimsókn giskaði hann á að sambýliskona mín væri fórnarlamb kynferðis ofbeldis í æsku.

Ég hlaut að spyrja hvers vegna hann spyrði, því ég hafði lítið minnst á hana að öðru leyti en að minnast á að hún væri til.

Hann var fljótur að svara mér. „Sumt sem þú hefur sagt um hana bendir til þess að hún sé fórnarlamb.“ Í það sinnið gapti ég. Líklega hef ég lyft annarri augabrúnni eins og Egill forðum, því hann hélt áfram. „Fórnarlömb þróa með sér viðbröð við lífinu og öðru fólki. Sumt sem þú hefur sagt um hana bendir sterklega til þess að hún sé fórnarlamb. Ég myndi jafnvel giska á að það hafi verið faðir hennar.“

Ég var gjörsamlega orðlaus þá, en ég yrði það ekki nú. Ég þekki sjálfur þessi einkenni í dag, hvernig væri efni í bók. Ég spurði því hver þessi einkenni væru. Fimm mínútum síðar var hann búinn að lýsa sambýliskonu minni betur en ég gæti gert sjálfur. Í fimmtu heimsókn áttaði hann sig á því að ellefu ára gamall lenti ég sjálfur í atburði sem ég vildi helst ekki muna eftir hvað þá ræða.

Það tók mig ellefu ár til viðbótar áður en ég gat opnað lokið á því hólfi sálar minnar. Ég hafði kviðið því að ég, eins og mörg fórnarlömb, yrði mörg ár að fá bata frá þeim atburði. Hefði ég kunnað að nýta mér Ferlið á þeim árum, hefði ég líklega heilast á innan við ári. Þegar ég loks opnaði skúffuna gufaði þetta bara upp á fáeinum dögum.

Þó þessi færsla sé rituð til að vekja athygli á „Ferli jákvæða viljans“ má vel koma fram að ég hef þegar ritað eina bók um afleiðingar kynferðisofbeldis. Sú bók er þó ekki rituð frá algengum sjónarhóli og sjálfur er ég ekki viss um að hún teljist með í slíka umræðu.

Þegar ég þróaði Ferlið á sínum tíma hafði ég sífellt í huga þá spurningu hvernig ég myndi kenna það. Ég sá fljótt á sjálfum mér að hugmyndir þess virka fyrir sjálfshvatningu og vinir mínir staðfestu það, enda sjá vinir manns það fyrst á manni ef manni vex ásmegin með sjálfan sig. Einnig nýttu sumir vina minna hugmyndir Ferlisins fyrir sjálfa sig.

Ein ástæðan fyrir því að ég gerði hljóðupptökur til að kynna hugmyndir mínar og setti á netið var einmitt tilraun til að láta á það reyna hvort einhverjir myndu nota þessar hugmyndir. Það segir sig sjálft að ef hugmyndirnar virka þá mun fólk senda þær áfram.

Reyndar hef ég síðan þetta var séð hugmyndir úr Ferlinu birtast hjá öðru sjálfshvatningar leiðbeinendum en ég þekki einnig af eigin sjálfsnámi að margar þeirra eru ekki þekktar erlendis. Hvort aðrir séu samtímis að fá samskonar hugmyndir eða hvort fólk endurnýtir hugmyndir sem það rekst á, skal ósagt látið.

Sjálfur vitna ég ætíð í uppruna hugmynda ef ég er að kynna aðrar en mínar. Ég hef þó tekið eftir að á öld Veraldarvefsins er það ekki alltaf svo þegar fólk rigsar út á ritvöllinn, í það minnsta ekki alltaf í fyrstu. Hins vegar slípast fólk oft til í slíkum efnum.

Það er dálítið sérstakt að verða vitni að hugmyndalántökum þegar maður er sjálfur hugmyndaframleiðandi. Tvisvar á síðasta ári varð ég vitni að því að sitthvor einstaklingurinn tók að láni texta sem ég hafði ritað á Facebook og gerði að sínum. Í bæði skiptin sendi ég vingjarnlega áminningu og fékk afsökunarbeiðni í staðinn.

Ekki að ég sé ósáttur ef hugmyndir mínar eru endurnýttar.

Ef ég væri á móti því að fleyta hugmyndum áfram myndi ég ekki tjá þær. Ef eitthvað er vildi ég að þær færu sem víðast en maður slípast í skrifum og viðhorfum. Ég hef fiktað við skrif í mörg ár og ætíð gætt þess að geta uppruna þegar ég endurvinn eða endurfleyti hugmyndum annarra, svo fremi að ég viti upprunann.

Þetta er þó meðvitund sem lærist hjá fólki sem skrifar og á öld Vefsins eru mun fleiri farnir að skrifa en var t.d. áður en tölvan varð til, og er það vel. Að skrifa er að mínu viti ein hollasta hugarleikfimi sem maðurinn getur fengist við og vafalaust taka allir undir það sem fengist hafa við. Fátt er verðmætara en hugmyndir okkar, sérstaklega þegar þær taka þátt í mótun hugsunarháttar og þar af leiðandi samfélags framtíðarinnar.

Hugmyndalántökur og fleytun á skrifum er þó útúrdúr í þessari hugleiðingu um afleiðingar kynferðisofbeldis. Heilun er hugsanlega meira virði en heilarinn og þessar hugleiðingar eru ritaðar til að vekja upp hugleiðingar varðandi heilun.

Hvet ég lesanda minn til að skoða skrif mín um Ferli hins jákvæða vilja, hér á vefsetrinu, og jafnframt þær sem kynntar eru á ferlid.not.is. Í einni greina minna á hinni síðarnefndu slóð kynni ég afar áhrifamikla aðferð til að hefja kraftmikla heilun fyrir þolendur kynferðisofbeldis, aðferð sem ég hef sjálfur notað með góðum árangri.

 

 

 

 

This entry was posted in Ferli hins jákvæða vilja and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.