Einmana í mannfjölda

Allir sem hafa búið í borg vita hvað átt er við þegar sagt er „einsemd í borg“ því engin einsemd er verri en sú að vera einmana í mannfjölda. Þetta vita einnig þeir sem búið hafa í fámenni, hvort heldur þorpi, smábæ eða sveit, því þar er nánd oft meiri.

Vissulega finnst mörgum vont í fámenni þegar allir vita allt um alla en þó er það betra en búa í borg og lenda á milli tanna á fólki því dómharkan þar og reiðin er meiri.

Einhverra hluta vegna er fólk í fámenni umburðarlyndara þegar kemur að fyrirgefningu og umbera betur þá sem skrýtnir eru eða hafa misstigið sig. Fámennið sér fyrr ef hinn skrýtni er að vinna í sínum málum, en mannfjöldinn síður.

Vissulega er hér alhæft, því útskúfun í fámenni getur verið margfalt verri en útskúfun í borg – og þetta hefur maðurinn reynt. Auk þess hafa margir lent illa í einelti við fámenni. Lífið er oft grimmt.

Að öllu þessu sögðu eru samfélagsmiðlar, hvort heldur Fecebook, Tagged eða eitthvað annað, af hinu góða. Stór hluti fólks sækir í samskipti með skilaboðaskjóðum á borð við Skype, MSN, Yahoo og fleiri tólum því það á illa heimangengt. Margt fatlað fólk á til að mynda megnið af sínum samskiptum á Netinu og margir samfélagshópar, s.s. klúbbar af ýmsu tagi, eiga virkari samskipti vegna Netsins.

Margir eiga virkari samskipti við vini sína vegna smáskilaboða bæði í símum og á Netinu. Margar fjölskyldur skiptast á skilaboðum oft á dag á vinnutíma, sem ekki var hægt fyrir tíu árum nema stela símtölum.

Arabíska vorið var skipulagt á Facebook og notkun sama miðils er bönnuð í Kína af pólitískum ástæðum. Sá sem þetta ritar þakkar það Netinu að málefni Raunlýðræðis hefur náð til þrefalt fleiri vegna netsins.

Það er með þetta eins og allt, að jafnvægi og hófsemi er betri þegar upp er staðið. Þegar símatæknin hóf innreið sína fyrir réttri öld hefði mátt skrifa bók um „neikvæð áhrif talsímans á nándina“.

Kannastu við mýtuna um öll framhjáhöldin sem Facebook hafi búið til? Það er eins með talsímann er það ekki?

Ef við viljum sjá það neikvæða þá missum við oft af hinu jákvæða sem oft er miklu stærra.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.