Óvart skotið á vont mark

Það er skrýtin tilfinning að horfa á hugbúnað sem aldrei átti að verða, og spurja sig hvernig hann varð til. „Alpha Pack“ var í upphafi skrifað fyrir mín eigin verkefni sem einfalt verkferlakerfi.

Ég hafði í upphafi þörf til að skrá niður hugmyndir. Ég er fyrst og fremst hugmyndasmiður og þar sem ég hef lagt stund á sálfræði, guðfræði og heimspeki, er garðurinn stundum frjór.

Reynslan er sú að fyrir hverjar tíu nýjar hugmyndir er aðeins ein þeirra nothæf og stundum er gott að skrá niður þær sem koma til greina, því ekki er alltaf augljóst hvað er nothæft og hvað ekki.

Í mörg ár hef ég geymt hugmyndir skráðar á ýmsum skrám í tölvunni. Stundum hef ég útfært hugmyndir í gegnum árin, sumar þeirra eru þegar orðnar að bók. Sumar eins og „Ferli jákvæða viljans“ eru komnar í handrit en þó enn í vinnslu.

Mér fannst tími til kominn að geta haft hugmyndavinnu á einum stað og ná einfaldri yfirsýn. Jafnframt ð geta unnið í hugmyndum mínum Online. Væri ég úti í bæ að vinna gæti ég „loggað mig inn“ á kerfi og skráð hugmyndir niður eða unnið með þér, jafnvel sýnt þær.

Einfalt væri grunnkrafa.

Þar sem ég tek oft að mér smáverkefni í hugbúnaðarþróun, og geri oft eigin vefkerfi s.s. www.spamadur.is og www.draumar.is, þótti mér jafnframt snjallt að geta haft slíkar hannanir og skyld plön á sama stað.

Um sama leiti og hugmyndin fæddist bauðst mér frítt að sækja námskeið á vegum Starfsmennt. Námskeiðið heitir  „Verkefnastjórnun sem virkar“ or er áhugavert. Einhvern veginn veginn spannst eitt af öðru. Ég fór að prófa ýmis opin hugbúnaðarkerfi, sum þurfti að niðurhala og setja upp, önnur mátti prófa online áður en eytt væri vinnu í niðurhal.

Hvert kerfið af öðru var þannig prófað en eitthvað var að þeim öllum. Flest gerðu ráð fyrir að vera flóknari en ég þarfnaðist. Skyndilega var ég kominn með skýra mynd í hugann að kerfi – úr eigin smiðju. Ég hóf að smíða það og smám saman var komið nothæft kerfi og í heilt ár notaði ég það.

Kerfið var þannig unnið að fólk sem tengdist mínum hugverkum gátu samnýtt sama kerfi með mér.

Einhvern veginn þróaðist notkunin og svo kom vendipunktur: Það yrði að breyta notendaviðmótinu. Svo ég gerði það. Skyndilega hafði fæðst eitthvað skrýmsli sem hægt var að nota. Kerfi sem virkar bæði sem yfirsýn verkefna og smærri verkþátta og jafnframt sem glósukerfi og tímaskráning.

Á svipuðum tíma kom í ljós að vefur sem ég hafði smíðað – hvolpar.is hafði einnig breyst í hugbúnað. Ég hafði skrifað vefkerfi fyrir vefinn frá grunni og smám saman hafði ýmsum breytingum og lagfæringum verið sinnt. Þetta var aldrei planað.

Ég hafði fókusað á að smíða vefinn og aldrei datt mér í hug að sú lausn væri fullburðugt vefkerfi. Með öllum þeim fídusum sem það hefur, verð ég að sætta mig við að ég gerði óvart fullbúið vefkerfi. Nú er þetta kerfi að drífa tvo aðra vefi – og ég á hvorugan þeirra, braskogbrall.is og steintak.is.

Jákvæða ferlið – sem nú er að fæðast á ensku – átti heldur ekki að verða til. Það spratt fram þegar ég var að vinna með eigin þunglyndi og meðvirknis vanlíðan. Meðan ég vann á neikvæðni, svartsýni, reiði og biturð sem bæði hafði safnast upp vegna erfiðra örlaga en einnig óvitandi, skrásetti ég þær hugaraðferðir sem virkuðu. Markmiðið var að þær væru einfaldar og vinir og kunningjar fóru smám saman að nota Ferlið.

Ég er langtíma atvinnulaus og búinn að missa heimilið. Er á götunni og flestar bjargir bannaðar.

Ég veit ekki hvers vegna ég fæ ekki vinnu við forritun – nóg eru verkin sem eftir mig sitja. Verkefni sem sýna hvað ég kann. Ég er vinnusamur og skilvirkur, mér fellur aldrei verk úr hendi, en einhverra hluta vegna hef verið í eyðimörk örlaganna í sjö ár þegar þetta er ritað.

Á þessum árum hef ég smíðað fáeina vefi, skrifað fáeinar bækur, og hljóðritað. Ég hef byggt upp hundaþjálfunarklúbb og margir hafa leitað til mín á þessum tíma og lært að nýta Ferlið. Samt er ég bjargarlaus og upp á vini kominn í dag. Stórskuldugur og útilokaður af fjölskyldu.

Líklega er ég að gera eitthvað rangt. Margir hafa bent mér á að hætta að skrifa um þau málefni sem ég skrifa en ég get það ekki. Ekki frekar en Sölvi Helgason gat hætt að vera frjáls.

Sölvi var fyrsti heimspekingur Íslendinga, og hann vissi það. Samtímamanns hans skildu hann ekki. Hinn almenni maður er ekki alltaf tilbúinn að hugsa lengra nefinu.

Hann flakkaði frjáls um landið og var gagnrýndur af samtímafólki sínu fyrir að vera flækingur. Hann leit aldrei á sig sem flæking heldur á mann sem krafðist þess að vera frjáls. Hann sýndi samborgurum sýnum að það væri hægt, flakkaði um landið og sagði fólki frá því sem hann vissi um menningu, sögu og fréttir á milli landshluta.

Eftir Sölva liggur mikið af efni sem hann skapaði og varla er til það mannsbarn sem ekki les um hann í dag, rúmlega öld eftir að hann dó. Þeir samtímamenn hans sem hæst settu út á hann eru nær allir gleymdir.

Fyrir þá sem ekki vita það þá sat hann í fengelsi úti í Danmörku fyrir að brjóta umdeild lög á Íslandi sem oft eru kennd við vistarband. Hinn almenni Íslendingur mátti ekki ferðast á milli hreppa á Íslandi – svo öldum skipti – nema hafa til þess leyfisbréf hreppstjóra. Bannað var að flytja milli sveita eða skipta um starf nema með leyfi vinnuveitanda og yfirvalda.

Hvers vegna líki örlögum mínum saman við örlög Sölva Helgasonar? Það er augljóst hverjum þeim sem hefur lesið skrif mín um Beint lýðræði eða Fagleg störf hins opinbera.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.