Áróður virkar ekki á óttalausa

Á síðustu öld geysaði stjórnlaus óðaverðbólga tvisvar í Þýskalandi. Tvívegis var hún skotin niður á fáeinum dögum með djarfri aðgerð. Aðgerðinni hefur verið ítarlega líst víða en megin miðlar vilja síður hleypa því inn um lúguna hjá þér.

Verðbólga* skiptir þjóðina engu ef hún hefur efni á mat handa börnum sínum og þaki yfir höfuðið. Henni er sama um fjárvald og yfirvald ef hún býr við öryggi.

Hins vegar skiptir ótti miklu máli ef þú trúir boðbera hans. Ef þú trúir á bankakerfið þá notarðu bankakerfið. Þá notarðu bæði netbanka og plastkort. Þá spararðu tíma fyrir kerfið með því að mæta síður í afgreiðslu ef hægt er að nota netið.

Hið opinbera fylgist nú sem best það getur með hvaða vefsíður þú ferð inn á með Íslandslykli.

Kerfi sem er hannað til að fylgjast með þér, kerfi sem er hluti sama kerfis og Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki. Kerfi sem ítrekað hefur sýnt með verkum sínum í hvaða liði það stendur.

Hvar stóðu hagfræðingar og lögfræðingar elítu og stofnana meðan bankabjólfar, kvótakóngar, álbarónar og virkjanatröll blóðgðuðu þjóðina og dáleiddu hana samtímis með hjálp megin miðla?

Það er þeim í hag að þér hugnist ekki aðgerðir þér í hag.

Það er þeim í hag að þú umberir að stjórnmálamenn gugni á loforðum sínum. Við vitum vel að stjórnmálamenn meina vel þegar þeir lofa. Við vitum einnig að þeir hafa atvinnu af að tala fjálglega og fagurfræðilega. Þeir halda einnig störfum sínum með faglegu orðagjálfri og fyrirslætti.

Meðan þjóðin trúir þvættingi þeirrar klíku sem stjórnar lýðveldinu hennar, þá er henni stjórnað. Því sá sem þú trúir er sá sem þú fylgir. Hafðu í huga að það sem þú trúir á, það vex. Þannig uxu bankarnir og þess vegna getur Íslandselítan – eða lýðveldisklíkan – stjórnað þér.

Sterkasta vopn hennar er eftirfarandi: Fólk vill síður sýna samstöðu ef það efast um að aðrir sláist í lið með þeim. Þess vegna hika margir á jaðrinum hjá Þjóðveldinu. Taktu einnig eftir því að ef það birtist ekki í megin miðlum halda margir að það sé ekki til.

Sem betur fer eykst Internetnotkun fólks og það eru sífellt fleiri meðvitaðri um að nota það. Einnig vex dag frá degi að fólk lesi sér til. Á sama tíma ræðir lýðveldisþingið um að takmarka netaðgengi.

Við vitum öll að önnur bóla er á næsta leyti. Verðbréfabóla sem lengi hefur spáð verið. Við vitum einnig að bankarnir eru jafn valtir í dag og fyrir fimm árum. Enn fáum við ekkert að vita um snjóhengjuna og bankarnir þegja yfir hvaða vogunarsjóðir eiga þá eða hver eigi sjóðina.

Þeir eru hins vegar iðnir við að rukka af okkur húsnæðin og skrúfa lánin okkar upp. Sveiattan, þetta lið verður afskrifað þegar Þjóðveldið rís. Eins og Þjóðveldismenn vita munum við afskrifa allar skuldir þjóðarinnar sem eru eldri en 10.12.2012. Sama dag munum við tryggja eignir hennar miðað við daginn fyrir hrun.

Ég myndi segja slá skjaldborg en stjórnmálamanneskja lýðveldis rústaði því fína orðalagi..

Mér hryllir við þeim darraðardansi þöggunar, spillingar, frekju og yfirgangs, handrukkana og siðleysis sem stjórnar lýðveldinu þínu. Það er ekki þjóð okkar samboðið að láta þetta viðgangast. Endurreist Þjóðveldi vex því dag frá degi, því fleirum er nóg boðið.

Við sem vörðum þann veg raunlýðæðis og gegnsæis fögnum að fjöregg þjóðar vorrar er í endurfæðingu, með nútímalegum hætti.

Þjóðveldið rís á Þjóðveldishátíð á sumarsólstöðum. Hún var fyrst endurnýjuð árið 2013 og hafði ekki verið haldin síðan 1264. Hún verður héðan í frá haldin árlega, þar sem Lýðræðið á heima: Spilda sem nú er sumarbústaðaland og illa hirtur túristastaður.

 

* Þessi grein var upprunalega rituð á blog.is sem svar við spunafrétt á mbl.is varðandi verðbólgufrétt eða verðbólguspá. Fréttin sjálf er löngu gleymd.

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.