Búnir að missa tökin

Fangelsismálastofnun er opinber stofnun. Hún er angi af hinu opinbera kerfi Íslenzka lýðveldisins. Sú Grýla hefur aldrei skilið þegna landsins og stjórnar með boðum og bönnum. Þegar boð og bönn virka ekki er þeim fjölgað eða þau þyngd.

Þessi grein var fyrst rituð á blog.is sem gagnrýni á frétt varðandi hertari refsingar á föngum hjá Fangelsismálastofnun Íslenska Lýðveldisins. Sem fyrrverandi fangi og áhugamaður um sálfræði og sjálfshvatningu tel ég mér rétt og skylt að tjá mig um fangelsismál landsins..

Það er enginn skaði fyrir þjóðfélagið að fangar noti tölvur. Fartölvur eru yfirleitt einu betrunar-úrræðin sem fangar hafa í fangelsum landsins sem að öðru leyti gera nákvæmlega ekkert til að skila út betri borgurum.

  • Það er engin sálfræðiþjónusta sem fangar geta nýtt sér til að taka á sjálfum sér og sínum innri vandamálum.
  • Það er nær engin menntun í boði fyrir fanga sem vilja nýta afplánun til að betrumbæta sjálfa sig.
  • Það er ekkert kerfi innan fangelsa til að umbuna mönnum fyrir bætta hegðun og framfarir.
  • Sú litla vinna sem föngum býðst er aðeins fyrir útvalda og sjaldan mannbætandi.
  • Það er því sem næst engin ráðgjöf í boði fyrir fanga sem vilja leita sér úrræða til betrunar.
  • Það eina sem býðst eru sjónvarpsrásir til að hanga yfir eins og lifandi grænmeti.
  • Ekkert eftirlit er haft með klíkumyndunum og eineltiskúgun innan veggja (sem viðheldur ytri klíkum og valdi handrukkara).

Hins vegar er nóg af úrræðum og refsingum til að gera menn leiða, þreytta og reiða …

Því miður eru dómstólar götunnar á sama máli og Hr. Winkel. Fangar séu skepnur sem bezt séu geymdar í dýflissu. Kannski er það þess vegna sem glæpum fjölgar á Íslandi, því fleiri skepnur eru utan en innan? Ég hef sjálfur séð skepnur taka umbreytingu því þær fengu samtalsmeðferð.

Sjálfur er ég skepna sem hef afplánað, og enginn trúir að ég hafi komið út betri maður. Ég gjörnýtti þau úrræði sem í boði voru, til að taka á sjálfum mér í afplánun.

Úrræðin sem buðust voru eftirfarandi:

  • Nota fartölvuna til að skrifa.
  • Nota fartölvuna til að smíða tölvuforrit.
  • Læra á skapandi verkfæri tölvunnar s.s. myndvinnslu og myndbandagerð.
  • Fara daglega í ræktina og læra þar sjálfsvirðingu og þannig að virða aðra.
  • Læra að elda hollan mat (fangar verða að elda sjálfir).

Þá er allt upp talið sem er í boði en ég lét sannanlega reyna á efri listann. Ég vildi nýta mér afplánun til að taka vínkilbeygju í mínum lífsferli. Því miður sá ég marga fanga sitja inni sem vildu það einnig en höfðu ekki sama bakland og ég til að smíða sér tækifærin.

Ef þrengja skal meira að föngum mæli ég með skrefinu til fulls: a) Fjölgið lögregluþjónum, því sparnaður í fangelsi eykur kostnað í hverfunum. b) Hættið að leyfa þeim að elda sjálfir. C) Smíðið dýflyssur, hættið við Hólmsheiði og girðið gámahverfið á Neskaupsstað undir fjandana.

Svo ég slái nú á léttari strengi:

Kerfisstofnanir Íslandselítunnar hafa löngu misst tökin á þegnum sínum, og það er stut í að þegnar Íslands breytist í sjálfstæða ríkisborgara Þjóðveldis. Enda hefur Íslenzka lýðveldið aldrei haft þau tök á landinu okkar sem það á skilið.

Stundum er það kostur fyrir stjórnkerfi Íslenzka lýðveldisns, að hvorki fangar né þegnar þekkja stjórnarskrána sína.

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.