Bongóblíða í dávaldsheimum Lýðveldis

Í vor gekk ég tvívegis inn í banka og spurði um stýrivexti. Í bæði skiptin hváir bankastarfsmaður og segir „hvað er það?“ Í bæði skiptin uppfræddi ég bankastarfsmann um hvað stýrivextir séu.

Stýrivestir eru grundvallarvextir allra vaxtaútreikninga í bankakerfinu. Jafnframt benti ég starfsmanni á hvar hægt sé að fletta upp stýrivöxtum en í fyrra tilfellinu kallaði bankastarfsmaður á annan bankastarfsmann sér til aðstoðar.

Oft hef ég lent í samskonar undanfarin tvö til þrjú ár. Að ég ræði við fólk um eitthvað sem oft er nefnt í fjölmiðlum s.s. stjórnarskrá, stýrivexti, efnahagsmál, lýðræði, og fleira spennandi, en kem að tómum ljóranum.

Í nær öllum tilfellum hef ég kannað málið nánar og komist að því að viðmælendur mínir voru að meðaltali með eina komma tvær háskólagráður og nær ávallt í góðu eða tryggu starfi. Tæplega helmingur starfaði hjá hinu opinbera og meirihlutinn átti fjölskyldu.

Á að giska þrjú til sex prósent viðmælenda minna höfðu lesið stjórnarskrá Lýðveldisins en þó höfðu allir á henni skoðun. Allir töldu sig til hins upplýsta almúga. Á sínum tíma þegar umræðan umstjórnarskrártillögurnar var í deiglunni höfðu allir viðmælendur mínir skoðun á þeim tillögum, en enginn þeirra vissi hve margar þær voru en vissu þó hvaða fimm spurningar yrði kosið um og hvernig væri rétt að kjósa.

Nú vita þeir sem lesið hafa færslur mínar að ég á mér draum um endurreist lýðræði á Íslandi.

Draumur þessi er líklega tæpur því dáleiddur skrýll sem trúir á skoðanir sínar og jafnframt því að hann sé upplýstur en byggir skoðanir sínar á skoðunum annarra en ekki á þekkingu, sá skrýll mun halda áfram að sækja í dávald meginfjölmiðla og yfirborðsmennsku í tískustraumum líðandi stundar. Sérstaklega mun sá skrýll detta aftur í það næst þegar græða má á nýjum gólfefnum og kenna svo bankastarfsmönnum um ofþenslu.

Nú veit hinn upplýsti almúgi að sá sem notar reiðufé í stað plastkorta græðir 15% meira ráðstöfunarfé á ársgrundvelli. Þetta er þó leiðinlegt umræðuefni í matarboðum og á öðrum samkundum. Mun áhugaverðara finnst að ræða um hverjir séu að skilja eða hver barði hvern.

Sérstaklega er skemmtilegt að geta dregið ýmsa ólánsmenn í dilka og benda á þá sem skálka en vera sjálfur gull og gersemi. Þannig er hinn déleiddi skrýll.

Í sumar kom ég á bensínstöð að kaupa mér pulsu og kók. Tíu mínútum áður en ég kom þar að bilaði beinlínu kerfið sem tekur við kortagreiðslum. Starfsfólk neyddist til að láta eldsneytis- og nammikaupendur bíða þess í aðrar tuttugu mínútur að kerfið kæmist í lag. Af þeim liðlega sextíu manns sem voru þarna að versla vorum við um það bil sjö sem notuðum reiðufé. Hinir voru allir í stresskasti og svitabaði, tvístígandi og bíðandi, bölvandi og ragnandi.

Hver sá sem fylgst hefur með þróun bankakerfis og efnahagsmála – síðustu fimmtán til tuttugu árin – veit að það hefur lengi verið stefnt að því á vesturlöndum að smala okkur á rafræna garðann.

Við sem viljum ekki fara þangað verðum að fara þangað með mannöpum sem kalla sig mannfólk en hrærast í einskis verðum skoðunum á málefnum líðandi stundar. Munum að líðandi stund eru um það bil þrír sólarhringar sem hvert meginmálefni lifir hjá meginmiðlunum.

Hver man í dag hvað var efst á baugi í síðustu viku? Hver nýtur kyrrðar í darraðardansi hávaðamengunar ljósvakamiðla og annarrar miðlunar?

Það er engin nýlunda að meginmiðlar minnist á að prentaðir og slegnir peningar muni hverfa. Kerfið hefur undirbúið þetta lengi og eins og venjan er þá eykst umfjöllun um þetta í fjölmiðlum á lokastigum þess að hinn upplýsti skrýll aðlagi skoðanir sínar.

Fyrst sýn mín á hinn upplýsta almúga er svo dimm, hvers vegna trúi ég þá að apahópurinn eigi að fá lýðræði? Vegna þess að skrýllinn breytist í fólk þegar hann fær ábyrgð. Þegar hann vaknar af dásvefni þess að treysta skuli öðrum fyrir örlögum sínum og tekur örlög sín í eigin hendur mun hugur hans breytast úr neytanda og verða þáttakandi. Því við Þjóðveldismenn trúum að fólk sé ekki fífl, heldur fyndið þar til það vaknar.

Að endingu vil ég koma einu hér að, fyrir þá lesendur mína sem móðgast þegar ég líki fólki við apa. Við erum prímatar, sorrý.

 

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.