Eldfærin endursótt

Eitt sinn var sagt frá því að gömul norn sendi ungan uppgjafahermann inn í tré að sækja eldfæri. Síðan upphófst allskyns dirrindí fyrir dátann en sögulok fyrir skessuna.

Það er eins með Íslenzka lýðveldið. Hvað sem það veltir sér upp úr orðagjálfri milli þingnefnda eða valdahópa ráðuneytanna. Innan þessa valdakerfis er ekki lengur neitt lýðræði, sama hvað háttvirtur þingmaður eða aðrir reyna að kveikja í með ónýtu tundri. Skessan hefur svikið lýðræðissamning sinn við þjóðina.

Stjórnkerfi þessa valdakerfis og spillingarsúpu sem drottnað hefur yfir landinu – síðan danskurinn fór árið 1944 – er sama klíkan og stjórnaði hér frá því Þjóðveldið var lagt niður af Noregskóngi: Hópur sem sópar að eigin köku, verndar eigin tengslahagsmuni, og beitir ótta fjölmiðlafólks við atvinnumissi til að halda að lýðnum því sem lýðurinn kynngir.

Hefði lýðurinn menntun í stjórnarskrárlæsi og tryði enn á sjálfan sig, þá væri fólk löngu vaknað: Vaknað til vitundar um að völd þessa kerfis hrynja um leið og fólk hættir að hlýða.

Hvers vegna hlýðir þú valdakerfi sem höndlar með vald sem þú átt? Hver er hvolpurinn og hver er skottið?

Fyrsta skrefið til frelsis er að þú hættir að borga bönkunum og hættir að nota plastkortin. Fyrsta skrefið til lýðræðis er að lesa sér til um málstað nýs Þjóðveldis. Þriðja skrefið er tekið á Þjóðveldishátíð.

Þjóðveldishátíð var haldin í fyrsta sinn síðasta sumar (2013). Þinghelgi Alþingis hins forna Þjóðveldis var ætíð sett á sumarsólstöðum, og svo er eins með Þjóðveldishátíð.

Hátíðin er haldin árlega héðan í frá þar til Þjóðveldisfólk verður nógu margt til að endurreisa virkt lýðræði. Þar er vettvangur til að ræða um það þjóðfélag sem við viljum móta og lifa við.

 

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.