Hjarðhegðun er hið náttúrulega úrval spendýra. Við fylgjum sjálfkrafa þeim aðila sem virðist hæfastur til að leiða okkur til betri afkomu. Þetta náttúruval gerist sjálfkrafa innra með okkur og er mjög erfitt að stjórna því með innri rökræðu.
Þú vilt ekki vera viljalaust dýr sem lætur ókennda náttúru leiða þig áfram en alveg sama hvað þú reynir, þá sérðu þetta ævinlega eftirá.
Hve margir einstaklingar í sögu þinni, hvort sem þú hefur hitt þá eða dáðst að úr fjarlægð, hafa leitt heimssýn þína?
Hvers vegna ekki þín eigin hugsun?
Jafnvel þegar við reynum að brjótast út úr þessari hugsun þá föllum við niður í hana aftur. Kannski ekki að ástæðulausu, því þannig virkar hjörðin best, að hún standi þétt saman að baki þeim sem leiða hana áfram.
En hvað ef leiðtoginn leiðir hana í villu? Hefur þá hjörðin tök á að velja nýjan leiðtoga? Hvernig myndi hún gera það, með valdi eða samræðu? Þetta er kjarni beins lýðræðis, að við verðum öll leiðtogaefni og höfum tök á að velja okkur fremstan meðal jafningja, síendurtekið.
Þegar maður tileinkar sér þessa sýn, þá sér maður hversu fáránlegt það er þegar fremstir meðal jafningja eru upphafnir í fjölmiðlum og í tali sums fólks. Að ekki sé talað um trúða sem erfa krúnur.