Mannréttindahugtak eða veruleiki

Fyrir sjö heilögum árum síðan var ég venjulegur Íslendingur sem vann mín störf, víkkaði smám saman út þægindahringinn, og undi sáttur við Guð og menn, aðallega Guð.

Svo hrundi mín prívat veröld og hluti hennar var lagður í dóm götunnar, sem var sárt. Eins og allir vita getur vont orðið vani þegar skrápurinn þykknar og við vitum að oft þarf að bíta á jaxlinn, setja undir sig hausinn, berja sér á brjóst, og arka áfram veginn.

Sem maður nottla gerir.

Mig óraði þó ekki fyrir því fyrr en ég lenti í því sjálfur að hægt væri að dæma mann á Íslandi fyrir glæp sem hann ekki drýgði. Þegar ég hafði lent í því sjálfur huggaði ég mig við það að upphafsmaður kristinnar trúar var tekinn af lífi fyrir guðlast, saklaus. Svo hver er ég að væla?

Fyrir þá lesendur mína sem ekki vita hvað hér er ritað um, þá hefur það aldrei verið leyndardómur. Í upphafi sambúðar með konu nokkurri kom ég að henni og elskhuga hennar í faðmlögum, missti vitið í smástund, og áður en varði var ég búinn að beita hana ofbeldi. Játaði ég glæp minn samviskusamlega fyrir lögreglunni og var að sjálfsögðu dæmdur til afplánunar sem ég axlaði með glöðu geði í skömm minni.

Ofbeldi á aldrei að vera úrræði siðaðs manns. Ef honum verður fótaskortur og beitir ofbeldi, þá skal refsa honum fyrir það svo hann styrki afstöðu sína. Við erum öll sammála þessu.

Spurningin er hins vegar, hver séu mörkin? Í samfélagi eins og okkar, sem leggur sig fram um gott siðferði hefur verið valin sú leið að setja sérhæfðu fólki það vald að skera úr um mörkin og velja viðeigandi refsi úrræði. Sumir Íslendingar taka sér sama vald.

Hins vegar voru gerð mistök við skýrslutöku sem ég hafði ekki innri styrk á þeim tíma, og um langt skeið, að fá leiðrétt með fullnægjandi hætti. Ég var drukkinn við skýrslutökuna, sem ég get sannað, og var skýrslan í mínum augum farsafyrirbæri því ég ætlaði að fylgja föður mínum í dauðann þá vikuna.

Eins og margir vita svipti faðir minn sig lífi þegar ég var á ellefta árinu og sagt er frá í bók minni „Bréf frá sjálfsmorðingja.“ Mér fannst lífi mínu vera lokið og sársaukinn var óbærilegur. Mig dreymdi draum fáeinum dögum síðar sem sannfærði mig um að rétt væri að reyna að þrauka. Tveim mánuðum síðar var mér gefinn hundur sem var líkt ástatt fyrir og mér (og sú saga er rakin á enska vef mínum logostal.com) og sá viðburður og samlíf með téðum hundi hefur gefið lífi mínu merkingu sem er mér dýrmæt.

Þegar ég segi leiðrétt með fullnægjandi hætti, þá benti ég dómaranum á það fyrir Héraðsdómi að í skýrslunni væri rangt sagt frá. Þar er ýjað að því að ég hefði beitt konuna kynferðisofbeldi. Neitaði dómarinn að taka mark á þessum framburði mínum þrátt fyrir að lögmaður minn benti henni á að konan sem ég barði mundi ekki til þess að ég hefði beitt neinu kynbundnu ofbeldi.

Þrátt fyrir það var ég dæmdur fyrir þetta kynferðsilega og áfrýjaði ég því eins langt og ég gat, alls þurfti að dæma fjórum sinnum í málinu. Skil ég ekki enn hvernig dómskerfið valdi að sjá þann sannleika sem þeim sýndis þegar auðvelt var að benda á annað. Ég sjálfur met það svo að áróður síðustu tveggja áratuga, að karlmenn séu svín og ætíð gerendur en konur séu saklaus fórnarlömb, sé orðin viðurkenndur veruleiki dómskerfisins.

Ekki er langt síðan sýnt var fram á það fyrir þjóðinni svo óyggjandi þykir að í Gerifinnsmálinu var ungt fólk dæmt að ósekju fyrir morð. Var lífi þeirra rústað, bæði fyrir dóm og eftir. Enn sé ég ekki hið opinbera biðja þjóð sína afsökunar enda virðist enginn í hinum kristna samtíma vorum geta viðurkennt mistök.

Af þessum sökum og mörgum öðrum ástæðum sem birtast í ýmsum færslna minna, held ég mikið upp á háðsyrði Sölva Helgasonar í garð síns samtímafólks: „Ég er gull og gersemi.“

Ég hef oftsinnis orðið vitni að því hvernig konur geta með fáeinum vel völdum orðum rifið sálarlíf manna sinna og sona í tætlur, og iðulega séð það gert á reiðistundum. Mörg samlíf hafa hrunið innanfrá vegna andlegs og tilfinningalegs kúgunar ofbeldis sem konur geta beitt og komast upp með að beita meðan samræða samfélagsins er svo einhæf.

Meðan karlar mega ekki viðurkenna að konur geta kúgað þá og meðan karl getur ekki viðurkennt fyrir öðru fólki að honum hafi ekki risið hold mánuðum og jafnvel árum saman vegna orða sem kona sendi á hann í reiðikasti, þá hefur jafnréttið snúist í andhverfu.

Lengi gæti ég haldið áfram að rekja fyrir þér, kæri lesandi, hvernig fólk á ýmsum stöðum samfélagsins hefur notað dóm minn til þess að fá útrás fyrir eigin innibyrgðu – og heilögu – reiði í garð einhvers sem enginn veit hvað er. Það virðist nauðsynlegt mörgum hugsandi mannverum að iðka yfirborðsheilagleika og yfirborðsréttlæti en nota fyrsta tækifærið þegar einhver er sjálfsögðu viðurstyggð að fá þar tækifæri til að sparka og sparka fast.

Víða hefur verið skemmt fyrir mér að eiga eðlilega framrás í samfélaginu og neitað um að fá rýni á hversu ötullega ég hef unnið úr mínum málum í kjölfar þess sem gerðist. Ætla ég ekki að rekja það frekar hér, því tónn minn er spurningin um mannréttindi.

Eins og margir vita nýtti  vel menntaður lögfræðingur, með sérmenntun í mannréttindum, Árni Múli Jónasson, sams konar tækifæri og áður er gefið í skyn, þegar hann misbeitti valdi sínu til að leggja til atlögu að starfsframa mínum og tókst. Sami maður hefur reynt síðustu ár að vekja athygli á sér sem gull og gersemi í mannréttindamálum.

Sjálfur hef ég afgreitt þessa sögu með bók minni „Varðmenn kvótans – Fiskisaga af einelti.“ Legg ég í dóm lesenda þeirrar bókar hvor hafi meira til síns máls. Því er lokið af minni hálfu. Hins vegar hefði ég aldrei skrifað bókina ef hún þyldi ekki faglega og siðferðilega rýni.

Síðan þessi farvegur upphófst, frá hinum venjulega manni sem uggði ekki að sér til hins niðurbrotna manns sem staðið hefur af sér verstu ágjafir mannlegs samfélags, að vera dæmdur saklaus og síðan sífellt notaður sem skálkaskjól fyrir reiðihvöt og ofbeldistilhneigingar annarra, hefur vaknað með honum spurningar sem krefjast svara.

Áður en ég sný mér að svörum þessum vil ég útskýra örlítið betur téð skálkaskjól. Í fyrsta lagi læt ég lesandann geta í eyðurnar, þar sem ég er iðinn við að skrifa á Netinu um alls kyns málefni hversu oft ég fæ ákúrur og árásir frá velmeinandi fólki í kommenta kerfum. Í öðru lagi langar mig að draga fram lítið atriði sem útskýrir margt:

Eitt sinn var ég á æfingu hjá Leitarhundahópi á vegum Landsbjargar. Maður nokkur ásakaði mig um að berja hundinn minn. Sami maður var þá að seilast til mannvirðinga í æfingahópnum svo sem víðar í Landsbjargar félagsskap. Þar sem yfirmenn leitarhundafélagsins „vissu hvers kyns maður ég væri“ dugði ásökunin til að dæma mig úr leik. Engin réttmæt rýni var tekin til að rannsaka rógburð mannsins. Ég leitaði eftir þessari rýni en var ekki svarað af stjórn – og vinum – þessa manns. Enda ekki svara verður?

Nú hef ég leiðbeint í leitarhunda þjálfun í sex ár og hver sá sem kynnst hefur hundum mínum og aðferðum mínum í þjálfun, eða persónuleika, veit hversu fáránleg ásökun mannsins er. Auk þess sem viðstaddir aðilar á téðri æfingu vita það einnig, en hver vill rugga bátnum í nútíma samfélagi? Hver vill verða hornreka í félagsskap eða á opinberum vinnustað fyrir eitthvað svo verðlítið sem sannleika og mannvirðingu?

Hér er einmitt mergurinn málsins kominn. Þegar forfeður okkar sömdu málsháttinn „þögn er sama og samþykki“ þá var átt við alla þá sem eru áhorfandi að valdnýðslum eða öðrum ávirðingum, sem gætu gripið inn í eða vakið virðingarverða umræðu en kjósa að þegja til að varðveita sinn eigin lítilmótlega hag. Eða rassgat? Má ég rita dónalega?

Margir ýfast upp ef orðið Kynvillingur er ritað, því það á að segja Samkynhneigður.

Hverjum er ekki sama um orðið ef merkingin er í lagi? Ég á vini sem eru kynvilltir frá náttúrulegu samhengi en samkynhneigiðir í samtímamerkingu, en hverjum er ekki sama? Vinir mínir eru gott fólk sem ég ber virðingu fyrir, og mér kemur ekkert við hvern þeir elska nema þá til að óska þeim til hamingju með að finna ást í fallvöltum – eða áttavilltum – heimi.

Náttúrulegt samhengi hefur merkinguna, kynlíf til að geta börn. Ef einstaklingur villist af þeirri leið, er hann þá verri en aðrir? Hverjum kemur það við? Hvaða rugl er það að orðið sjálft hafi neikvæða merkingu en ekki hugur þess sem ber það fram?

Hver er munurinn á orðunum tussa, píka eða laufa? Ég veit um konu sem kemst í stuð við að vera kölluð fyrsta orðinu, en ég veit ekki um neinn karl sem hefur séð eftir að bera það fram við hana.

Hér er ég aftur kominn að samhenginu. Því ef við erum ekki meðvituð um gildin sem samfélag okkar er reist á, og ef við getum ekki rætt sannleika – hver sem hann er – á hispurslausan máta, eða án virðingar, hvaða samfélag erum við þá að reisa?

„Stjórnarskrá Lýðveldisins Ísland“ hefur sérstakan mannréttinda kafla til að auðvelda þegnum ríkisins að varðveita eða standa vörð um réttindi sín. Nýlega ræddi ég við fulltrúa hjá Umboðsmanni Alþingis sem tók í sams konar streng. Hún benti mér á hver rétti farvegurinn væri til að leita réttar míns gagnvart Félagsþjónustu Hafnarfjarðar sem var þá að kippa fótunum undan mér.

Í samtalinu kom í ljós svar við þeirri spurningu sem var mér efst í huga. Að á sjötíu ára afmælisári téðrar stjórnarskrár, er enn ekki til svar við eftirfarandi spurningu: Hvað er stjórnarskrárbrot, hvernig á að kæra það, og hvernig er það dæmt? Þetta er veruleiki Lýðveldisfarsans, undirstaða réttarfars þess er háð duttlungum elítunnar sem heldur um valdið.

Skyndilega opnuðust augu mín. Ef ríkiskerfi hefur vald, og kerfið beitir valdi, en ef þegn þess er ekki frjáls borgari heldur stýrður þegn, þá þarf hann að varðveita rétt sinn gagnvart valdboðinu.

Með öðrum orðum, ef ríkiskerfið hefur svo mikið vald yfir þegnum sínum að þeir þurfa að varðveita rétt sinn, hver veitti þeim þá valdið?

Því ef það væri raunverulegt lýðræði þá hefði borgarinn valdið, en kerfið væri aðeins þjónn borgarans. En í veröld þar sem þegnarnir þora ekki að rugga bátnum, nota ekki menntun sína til að setja sig inn í siðferðismál eða lagamál, þá breitast þeir í stýrðan valdalausan lýð sem lætur auðsveipur að stjórn. Hann kannski hrópar hátt en ef stjórnvöld hlusta ekki á, og vita hvað þau komast upp með, hvar býrðu þá?

Hvernig samfélag viltu móta?

 

ps. Greinin er rituð á hlaupum, svo ég hreinrita málfars og ritvillur síðar. Afsakið í millitíðinni.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.