Afstaða sannleikans

Eins og allir vita bjó Gandhi og starfaði í Suður Afríku árin 1893 til 1914 er hann samþykkti að flytja til Indlands þar sem hann hélt áfram baráttu sinni fyrir „afstöðu sannleikans“ sem hann nefndi á Indversku Sathyagraha.

Það kann að bera í bakkafullan lækinn að nota tækifærið og segja fáein orð um þessa kraftmiklu afstöðu í dag, í minningu stórmennisins Nelson Mandela. Mér þykir þó upp á Íslensku, að sjaldan sé góð vísa of oft kveðin.

Þegar ég á sínum tíma sat inni fyrir skammarlegan glæp, sem mun fylgja mannorði mínu það sem eftir er, sá ég afplánun mína sem tækifæri eða tilefni til betrunar. Ég var alinn upp í sveitasamfélagi þar sem helst var talað um betrunarvist þegar aðrir ræddu um hegningarvist, betrunarhús í stað hegningarhúss.

Þar fæddist mér Ferli hins jákvæða vilja – sem Gandhi nefndi afstöðu sannleikans.

Ég rak mig furðufljótt á að nútímalegt betrunarkerfi okkar væna lands lítur almennt á afplánun sem hegningarvist og að hinir ólánsömu þolendur hegningarvistar séu þar best geymdir sem lengst. Við dvöl mína með hinum ólánsamari samborgurum fékk ég því tækifæri í stað ömurlegrar vistar.

„It is said that no one truly knows a nation until one has been inside its jails. A nation should not be judged by how it treats its highest citizens, but its lowest ones.“ ~Nelson Mandela

þegar þú sérð ömurleg örlög sem tækifæri umbreytist afstaða þín til allra aðstæðna og sú depurð sem annars drægi þig niður umbreytist, þá vaknar innri sýn og aukinn kraftur. Við sama efnahvarf sálar þinnar sérð þú aukin tækifæri, og jafnvel tækifæri í í tækifærum, þar sem þú áður sást grámósku ókleifra örlaga.

Þannig fékk ég tækifæri til samræðna í afplánun – eða betrunarvist – minni og fékk sama tækifæri og dómarra þyrftu að fá til að kynnast þeim farvegi og einkasögum annarra ólánsmanna sem afplánuðu mér samhliða. Smám saman sá ég hvernig sýn samfélags á fólk sem það skilur ekki hafði aukið á ógæfu þessara manna sem flestir höfðu alist upp við aðstæður sem beint eða óbeint höfðu skikkað þá inn í farveg vondra örlaga í stað þess að bjóða þeim sýn tækifæra.

Ég hef áður ritað um hvernig afplánunarkerfi Íslenska lýðveldisins stuðlar beinlínis að því að menn haldi áfram í farvegi glæpa frekar en að rétta föngum tækifæri til sjálfsbetrunar. Höfum í huga að efni greinakorns þessa er innblásið af ævistarfi glæpamanns sem sjálfur byggði afstöðu sína á æviferli annars glæpamanns.

Það kann að hljóma fáránlega í hugum lesandans þegar ég nota svo gróf orð um menn á borð við Mandela eða Gandhi en í augum þeirra samfélaga sem þeir umbreyttu voru þeir áratugum saman séðir sem glæpamenn af stjórnvöldum og valdamikilla samtímamanna sinna.

Hinn dáði breski stjórnmálamaður Margaret Thatcher, sem ég sjálfur lít upp til um margt, leit á Mandela sem ótíndan kommúnískan hryðjuverkamann. Churchill sem var einn dáðasti maður síns samtíma leit á Gandhi svipuðum augum.

Þó við sem erum að hefja gönguna inn í tuttugustu og fyrstu öldina lítum á þessa menn sem stórmenni andans þá búum við í hinum umbreytta samtíma sem þeir beinlínis stuðluðu að. Við erum í vissum skilningi andleg börn þessara manna og því þykir okkur fáránlegt hvernig hinn upplýsti samtími þeirra tíma leit þá í upphafi.

Það er jafnan svo þegar menn stuðla að upphafi einhvers nýs að það mætir mótstöðu en fyrst þöggun. Rétt eins og í dag er baráttan fyrir Endurreistu Þjóðveldi þögguð og af velflestum álitin barnaleg. Þó er hún að mestum hluta innblásin af fordæmi og skrifum þeirra manna sem hér er minnst á.

Þegar þú afplánar fyrir glæp, hvort sem þú átt það skilið eða ekki, þarftu að glíma við alls kyns tilfinningar úr hyldýpi sálarinnar sem geta auðveldlega sligað manninn og gert hann dapran, bitran og sárann. Það er auðvelt að koma út í samfélag sem áfram beitir mann úrræðum fordóma og sniðgöngunar og í sárindum hjartans að líta svo á að fólk séu fífl eða á annan hátt sökkva sér í sjálfsvorkunn og depurð sem aftur festir mann í hjólfari hugans og fangelsi hjartans.

Hver einasti maður sem gengur út úr fangelsi – og fyrrum samfangar mínir vöruðu mig við þessu en ég tók ekki mark á því á sínum tíma – gengur út í þunglyndi. Nærri undantekningarlaust hrynja menn niður í þunglyndi fáeinum vikum eftir að þeir ganga út í frelsið og undir hælinn er lagt hversu hratt menn rísa upp úr því ef þeir ná tökum á því á annað borð. Skiptir þar engu hvort þeir áttu skilið að afplána eða ekki.

Hér kemur að sýn sem líklega fer framhjá velflestum góðborgurum samtímans.

Þegar þú afplánar saklaus vex depurð og biturleiki í réttu hlutfalli við sakleysi þitt og þann tíma sem þú situr inni. Að ganga út úr þriggja áratuga fangelsun eins og Mandela gerði, að mæta allri veröldinni brosandi og á sama tíma að fyrirgefa hverjum einasta af kvölurum sínum, það er nærri útilokað.

Það er auðvelt að flytja ræður í ræðustól eða skrifa athugasemd í samfélagsmiðla, greinastúfa í fréttablöð byggðum á yfirborðskenndri upptalningu staðreynda. Það er hins vegar erfitt að setja sig í fótspor þeirra sem gengið hafa þrautagöngu eigin sálar og sigrast á þeim innri árum sem hver maður býr við en nær enginn horfist í augu við.

Svo ég vitni í hinn stórmerka sálkönnuð Carl Gustav Jung: „Fólk mun gera hvað sem er, sama hve fáránlegt það er, til að forðast að horfast í augu við sál sína augliti til auglitis.“

Þegar ég kom út úr minni afplánun hrundi ég í mína þunglyndsgöngu og óttaðist um hríð að ég færi sömu leið á endanum og faðir minn heitinn. Hann var sjálfur þunglyndur að eðlisfari og þegar vissir þungbærir erfiðleikar sliguðu hann gafst hann upp í baráttunni við eigin innri fjanda og yfirgaf lífið fyrir eigin hendi. Mér tókst að snúa á mitt meðfædda eðli.

Hvernig ég fann leiðina til bjartsýni og jákvæðs vilja er að hluta til lýst í hljóðupptökum sem ég hef nefnt Hljóðvarp ferlisins. Það er aftur byggt á bók minni Ferli hins jákvæða vilja sem enn er í handriti en verður vonandi útgefin innan fáeinna missera.  Hljóðvarpið má hlýða á ferlid.not.is og sumar af hugmyndum Ferlisins eru þegar birtar á vef mínum hreinberg.is.

Langur er vegur að táknmynd frelsis og ég bið lesandann velvirðingar á þessari löngu færslu. Hún átti ekki að vera svo löng sem raun ber vitni, en ég verð reiður þegar stjórnmálamenn samtímans reyna að gera stórmenni andans að sínum. Atkvæðaveiðimenn vita ekki hvað afstaða er en nóg hafa þeir af skoðunum og yfirlýsingum.

Rifjum upp sem snöggvast að Mahatma Gandhi sem mótaði snemma hvernig Borgaraleg afstaða, eða Borgaralegur mótþrói, virkar í baráttu gegn spillingu og forsmán yfirvalda sem að nafninu til drottna í umboði borgaranna en koma þó fram við þá sem þegna.

Borgaralegur mótþrói var ekki fundinn upp af Gandhi. Íslenskir þegnar Noregskonungs beittu borgaralegum mótþróa gegn hinu hálfnorska Alþingi snemma á fjórtándu öld þegar valdamenn í Noregi reyndu að stjórna Íslandi sem norsku héraði. Gamli sáttmáli snérist um að Ísland væri frjálst og fullvalda ríki undir vernd Noregskonungs en frjálsir Íslendingar beittu virku andofbeldi til að þvinga norsk stjórnvöld til að virða sjálfstæði Alþingis árin 1305 til 1315 þegar Noregskonungur brást anda Gamla sáttmála.

Ég hef áður komið inn á að sýn forfeðra okkar frá því fyrir stofnun Þjóðveldis og fram á fjórtándu öldina var margar aldir á undan samtíð sinni og hugsanlega á undan okkar eigin.

Biturðin sem ég áður nefndi, þegar þú kemur út úr afplánun og glímir að nýju við veröldina verður aðeins sigruð með afstöðu. Afstaðan er þannig að þú lítur í eigin garð og glímir við eigin innri ímyndir og tilfinningar þar til þú hefur sigrast á veikleikum sálar þinnar og tengst við uppruna hennar án þess að burðast með einskis nýtt egó.

Þetta þurfti ég að gera og tókst. Ég var raunar á þeim tíma að glíma við þunglyndi sem hefði getað dregið mig til dauða og ég vildi ekki deyja. Þegar ég í kjölfarið skrifaði Ferli hins jákvæða vilja og síðar þegar ég samdi Hljóðvarp ferlisins sá ég að skilningur minn á fólki, tilverunni og mörgu fleiru hafði ekki breyst heldur umbreyst.

Það er auðvelt að breyta manni með því að breyta venjum hans en það er brottgeng breyting. Ef hann umbreytist innan frá þá breytist eðli hans og þá varanlega. Þetta upplifði ég á sjálfum mér og það umbreytti gjörvallri sýn minni sem fyrr segir. Skömmu síðar sá ég bíómyndina Gandhi, sem kom út árið 1982, og sá þar glitta í hver boðskapur þess manns var. Sá ég glitta þar í margt sem ég hafði uppgötvað sjálfur í minni sjálfsvinnu, og ég rak í rogastans.

Þó við höfum öll alist upp við setningar á borð við borgaralegur mótþrói eða virkt andofbeldi þá vitum við fjarska lítið um innihald þess boðskapar enda fjölmiðlar ekki í sama liði og við.

Þegar ég skoðaði baráttu Martin Luther King yngri sá ég hið sama. Þegar ég gluggaði í baráttu og frásagnir Mandela sá ég hið sama. Ég sé þetta víðar í skrifum og afstöðu tuga fólks. Ég sé þessa afstöðu víðar og sífellt dúkka upp oftar og oftar. Ég sé hana breiðast út í samtíma okkar eins og gárur á tjörn. Veröldin er að breytast og það andlega innsæi sem drífur breytinguna er umbreyting hins andlega veruleika einstaklingsis, frá grunnhyggnum og ódýrum skoðunum stjórnmála, félagsmála og trúmála yfir í eindregna afstöðu:

Afstaða með sannleikanum. Afstaða sem krefst þess að þú standir með því sem þú telur réttast og farsælast í lífinu fyrir allt fólk, hvernig sem það lítur út, hvernig sem það hugsar, hverjar sem skoðanir þess eru.

Algjörlega afdráttarlaus afstaða með sanngirni, réttlæti, lýðræði og umfram allt kærleika og gagnkvæmri virðingu. Virðingu sem krefst umburðarlyndis fyrir skoðunum annarra, svo sterk að þó þú fyrirlítir skoðun náunga þíns sértu tilbúin að berjast með honum fyrir rétti sínum til hennar hver svo sem hún er!

Ekkert af þessu er mögulegt nema þú fyrst takir innri umbreytingu hjarta og hugar. Sumir taka hana því þeir neyðast til þess og aðrir því þá langar til þess og enn aðrir því þeir fá hvatningu frá kraftmiklum fyrirmyndum.

Það er einmitt það sem Mandela átti við þegar hann sagði „As I walked out the door toward the gate that would lead to my freedom, I knew if I didn’t leave my bitterness and hatred behind, I’d still be in prison:“ Að ef þú getur ekki umbreyst í skoðunum þínum og tekið afstöðu með góðum gildum í verki þá verða skoðanir þínar að fangelsi hjartans. Fangelsi sem þú getur búið í ævilangt og endalaust hnýtt í aðra og annarra skoðanir blindur á eigin hugarramma.

Gandhi nefndi borgaralega afstöðu eða mótþróa því orði Satyagraha. Hugtak sem lauslega þýtt hjúpar merkinguna „afstaða sannleikans.“ Það hvílir mikil speki í þessum orðum og ég læt áhugasömum það eftir að grufla í því innihaldi. Það er skemmtilegra að uppgötva sumt sjálfur.

Þannig fæddist afstaðan fyrir Endurreistu Þjóðveldi Íslands. Hugsjón sem stendur traustum fótum á sama hugmyndagrunni og fyrrnefndir menn, Gandhi, King, Mandela, og tugir annarra, hafa mótað. Afstaða með beinu lýðræði, sanngirni, heiðarleika, innsæi, trú á æðri gildi og umfram allt algjórlega án ofbeldis. Því ofbeldi verður aldrei útrýmt með ofbeldi, og friðsæll heimur ekki skapaður með ofbeldi.

Trúðu mér, ég var ofbeldismaður, slíkt er aldrei úrræði né farsæll farvegur.

Afstaða Þjóðveldis er afdráttarlaus:

Við afskrifum með öllu skuldahala þjóðarinnar og það bankakerfi sem í dag tröllríður henni, eins og þegar drulla er þvegin af vegg. Við endurreisum virkt persónulegt lýðræði með árvissri framkvæmd þar sem hver borgari getur tekið virkan þátt.
Án ofbeldis en með virkri borgaralegri mótstöðu gegn ofríki sýndar-lýðveldisins.

 

 

 

 

This entry was posted in Ferli hins jákvæða vilja and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.