Fyrir meira en tveim árum hætti ég að horfa á sjónvarp með öllu. Reyndar hef ég slakað örlítið á síðustu mánuði og lít á stöku bíómynd, líklega tvisvar til þrisvar í mánuði. Mig langar í kjölfarið að skauta smávegis út á hálan ís með kenningu sem kraumar í mér.
Upphaflega átti þetta sjónvarpslausa tímabil aðeins að vara frá ágúst mánuði og til jóla. Ástæðan var einföld, mig langaði að lesa meira og ég vildi líka ryfja up hvernig þetta var í sveitinni í gamla daga hjá ömmu.
Ég leit þetta svo að um stutt tímabil væri að ræða en fyrstu vikurnar fannst mér sjónvarpsleysið erfitt. Ég hins vegar dreif mig á bókasafnið mánaðarlega og tók þrjátíu bækur í hvert sinn, allt frá þungu efni til skálldsagna og jafnvel myndabóka og léttmetis.
Þannig liðu vikurnar að ég las og las á kvöldin oft fram í myrkur. Rétt eins og í anda ömmu minnar dró ég það í lengstu lög að kveikja á raflýsingum og hafði þær sem fæstar á kvöldin.
Smám saman fór ég að njóta kyrrðar á máta sem ég hafði ekki upplifað frá því ég var krakki í sveitinni hjá ömmu og eftir því sem þetta ágerðist varð ég háður kyrrðinni. Þegar ég kíkti í heimsókn til vinafólks varð ég oft þreyttur eftir smátíma af raflýsingum út um allt og stanslausum glym í sjónvarpinu.
Í fyrstu hafði ég áhyggjur af því að ég yrði fljótlega enn meira utangarðs í nútímanum, og er ég sammála þeim sem þykir nóg um en hver og einn flýgur eins og hann er fiðraður.
Svo fóru augu mín að opnast, en það tók sem fyrr segir fáeinar vikur.
Hið fyrsta sem ég tók eftir er að samræður fólks voru orðnar í stíl við það sem sést í sjónvarpinu. Fólk hlustaði minna hvort á annað en virtist bíða þess að komast að. Fyrir kom að ég sá tvær samræður í einu, þar sem viðmælendur skiptust á að komast að með sinnhvorn þráðinn og sem minnst gefið út á það sem hinn sagði. Báðir heyrðu þó vel það sem hinn sagði.
Jafnhliða þessu tók ég eftir þreytu sem kom yfir fólk ef umræðuefnið var of innihaldsríkt og þar með „of djúpt“ eða „of leiðinlegt“. Þar sem ég er alinn upp á sveitaheimili þar sem bækur voru lesnar og málefni rædd þá þótti mér þetta viðhorf skrýtið en tímarnir breytast og mennirnir með.
Næsta sem ég tók eftir var aukin óþolinmæði með margt í samfélaginu. Hér áður hafði ég séð að hún hafði aukist en ekki séð samræmið. Þar sem ég var laus úr hringiðu og hraða sjónvarps ímynda fékk ég fjarlægð sem kennd er við „glöggt er gests augað“. Því ég sá samræmi við hraða og óþolinmæði fólks við þann hraða sem er á skjánum og á *zappi* á milli sjónvarpsrása.
Þriðja sem ég tók eftir var sjónglymrið! Jú, þetta er eins konar nýyrði. Því augu okkar og heili er vant því að sama myndin breytist hægt. Við erum vön því t.d. á ferð úti í náttúrunni eða við eldhússamræður að níutíu hundruðustu myndarinnar er föst eða breytist ekki meðan aðeins örlítið brot hreyfist.
Landslagið er hið sama en færist örlítið nær.
Eldhúsið er hið sama en varir og hendur viðmælenda hreyfast.
Þannig séð er heilinn vanur að geta unnið úr mynd sem er því sem næst kyrrlæg með smáum breytingum og stöku sinnum taka á sig stökk svosem í hröðum boltaleik en þó er hið sama uppi á teningnum í boltaleik nema fleiri hlutir breytast í kyrrmyndinni.
Ekki ósvipað á við um hljóð. Heilinn vinnur úr stöðugum tónum umhverfisins með smá umbreytingum hér og þar en í dag er kominn stöðugur glymur af tónlist, setningum og alls kyns smellubrellum eða hvaðeina í umhverfið. Þó ég sem manneskja hafi vanist því sem tækin framleiða þá er ekki víst að lífveran hafi gert það og því aukist streita – eða innri ókyrrð – og viss tómleiki.
Ég nota orðin „viss tómleiki“ því við fáum mikið af þekkingu, viðhorfum, skoðunum og nýjungum í gegnum hljóðvarp og sjónvarp en ekki svo mikinn tíma til að vinna úr innihaldi þess. Þannig líður hver dagurinn á ógnarhraða ímyndana en lítið ráðrúm til að vinna úr en tómleikinn stafar af þeirri tilfinningu að hafa misst af einhverju.
Ég nefni lítið dæmi vissum tómleika til skýringar. Segjum að ég horfi á spennandi sjónvarpsþátt á milli átta og níu og í honum kemur fram efni sem mig langar að hugsa um. Nema á milli níu og tíu er annar spennanni þáttur sem hefur þau áhrif að hugmyndir þess fyrri gleymast eða falla upp fyrir vegg. Svona heldur keðjan áfram koll af kolli.
Þetta síðastnefnda þótti mér of dýrt. Ég er þannig gerður að ég vil vinna úr þeim hugmyndum sem ég fæ og var ein af ástæðum þess að ég var að draga úr glápinu, að ég vildi meiri tíma til að vinna úr hugmyndaflæði en mér finnst gaman að pælingum.
Nú kemur að fjórða atriðinu sem ég tók eftir þessa þrjá mánuði sem hafa orðið að tæpum þrjátíu.
Eftir því sem ég naut kyrrðar meira, las meira og samræðuhæfileikar mínir endurfæddust vaknaði dálítið annað. Mín eigin skapandi ímyndun vaknaði, ímyndunaraflið endurfæddist. Þetta gerðist smátt og smátt eins og eitthvað sem vaknar af dvala. Eftir því sem fjarlægðin við glápið jókst sá ég mynstrið, hvernig sjónvarpstækið hafði komið í stað hinnar meðfæddu þarfar mannshugans til að láta sig dreyma.
Ekki bara að sjónvarps veröldin hafi leyst ímyndunaraflið af hólmi heldur hafði veröld þess verið betur framleidd en mín eigin hér áður: Fallegra fólk, þægilegri söguþræðir, eftirsóknarverðari ímyndir af húsum, bílum, möguleikum og fleiru.
Nema nú hafði mín eigin fæðst að nýju og í þetta sinnið vann ég með hana og naut þess. Stundum sleppti ég því að setjast niður með bók heldur lagði mig smástund seinnipartinn, lokaði augunum glaðvakandi, og lét hugann reika. Stundir sem ég í dag get ekki verið án og hafa auðgað líf mitt.
Kenningin sem ég lofaði í upphafi er ekki langsótt en kann að þykja dálítið sláandi fyrst.
Eftir því sem tíminn hefur liðið hefur ein hugsun sótt á mig. Þegar hugur situr við sjónvarpsskjá og tekur við í sífellu þá smám saman minnkar gagnrýni hans á það sem hann sér og heyrir því hraði þess er mikill og nýtt kemur svo fljótt.
Einnig gerist annað sem vitundin tekur ekki eftir en tengist kyrrmyndinni sem áður var nefnd. Við tökum ekki eftir því alla jafna en myndin á skjánum uppfærist fimmtíu sinnum á sekúndu og það þreytir hugann og minnkar mótstöðu hans. Þannig virkar þetta að manneskja sem kemur þreytt heim úr vinnu og ætlar að slaka á við sjónvarp hún hvílir líkamann en hugurinn heldur áfram að vinna.
Höfum í huga að yfir áttatíu prósent heilans er nýttur í hið ósýnilega allt frá hjartslætti í það að vinna úr hljóð og mynd. Af þessu fer áttatíu prósent í hljóð og mynd!
Hér kemur kenningin: Í sjónvarpsþáttum og framleiddu efni ríkir ákveðið mynstur sem hefur áhrif á hugsanamynstur. Ekki að það heilaþvoi fólk, heldur minnkar mótstöðu gegn mötun og mótar hugsanamynstur, auk þess að auka við síþreytu og jafnframt koma því inn hjá fólki hvar það leiti lausn sinna mála hversu innantómar þær lausnir eru.
Langsótt? Kannski.
ps. Sjónvarpslausir fimmtudagar var skapað fyrir fólk sem hefur áhyggjur af ofnotkun sjónvarps.