Áttavillt hugsun í tölvuveröld nútímans

Árið 1993 kynntist ég tölvum og forritun í fyrsta sinn. Það ár hóf ég útgáfu tímarits um tölvur sem hét ET-blaðið og gaf það út til ársins 1997. Þetta var skemmtilegt tímabil sem kenndi mér margt.

Þegar ég hóf útgáfuna voru margir í tölvu- og hugbúnaðar bransanum sem fullyrtu að slík útgáfa væri ekki framkvæmanleg hérlendis. Það hefði verið reynt margoft áður.

Mér tókst þó að gefa út 13 tölublöð á fjórum árum og eitthvað af fréttabréfum. Það var lærdómsríkt tímabil. Margt lærðist um rekstur fyrirtækja, markssetningar og ennfremur um fólk.

Eftir að útgáfan hætti gerðist ég Freelance tölvukennari og var það mitt aðal starf næstu átta árin. Lærði ég enn meira um fólk og fullnumaði mig í margs kyns tölvutækni.

Sérstaklega kynntist ég á þessum árum „ástandi hugsunar“ bæði hérlendis og erlendis. Með orðunum Ástand hugsunar á ég við hvernig fólk nálgast þekkingu og úrvinnslu hennar.

Rétt er að nefna dæmi um hvað átt er við:  Þegar lært er á tölvu lærir notandinn að miða með mús á orð eða myndir á skjá, smella með músinni, og eitthvað gerist. Forritið sem er notað er þá sérhæft í einhverjum tilgangi s.s. bókhald, ritvinnsla, tölvusamskipti og svo framvegis.

Að nota mús er þægilegt og gerir vinnuna skemmtilega. Ef ég kenni nemanda mínum að nota lyklaborðið svo til eingöngu, eða flýtilykla í stað músar, er það leiðinlegt og fráhrindandi. Sá sem notar flýtilykla nær að nota forritið hraðar og skila meiri árangri en sá sem eingöngu notar mús. Áttatíu prósent notenda kjósa frekar mús.

Sama hugsun tröllríður nálgun nútíma fólks á flestum sviðum mannlegs lífs. Músarfólkið hefur lítinn áhuga á skilvirkni, fagnálgun eða árangri, en þeim mun meiri á yfirborðsviðurkenningu og þægilegheitum. Hið sama á við um forritun og þess vegna er tölvan orðin áttavillt.

Ef þú lærir forritun og smíðar einfalt forrit fyrir notendur þarftu fyrst að spyrja þig á hvaða vettvangi forritið skuli notað. Annars muntu ekki vita hvernig það skuli hannað né í hvaða forritunartækni. Sé það ætlað fyrir notkun á Netinu er auðvelt að svara þessu. Í áttatíu prósent tilfella myndir þú nota PHP forritun í viðmót og MySQL til að geyma gögnin. Þar á eftir myndir þú athuga Ruby on Rails, Python eða .NET.

Hver svo sem tæknin er sem þú notar muntu innan fárra mánaða lenda í þeirri leiðu stöðu að tæknin sem þú notar rammar þig inni.

Ef þú gerðir forritið með .NET yrði staðan sú að enginn getur notað forritið þitt nema hafa Windows stýrikerfið. Þetta væri þó í góðu lagi því meirihluti fólks notar þetta stýrikerfi. Ef þú notar Java munu notendur allra stýrikerfa s.s. Macintosh, Linux og Windows geta notað forritið.

Þó munu sömu notendur lenda í samskonar vanda og .NET lausnin krefst sem er sá uppfæra þarf grunnkerfið reglulega og með mismiklu veseni. Hið fyrrnefnda er þó öllu þægilegra en hvoru tveggja rammar þig inni.

Veljir þú að nota C++ eða Open Pascal muntu fljótt lenda í því að frá sjónarhóli agaðrar forritunar eru bæði umhverfin þægileg  en um leið er lítill og slæmur stuðningur við þessi kerfi með tilliti til stýrikerfa og API safna. Þú þarft því að framkvæma betri undirbúningsvinnu sem óvíst er hvort aðstæður verkefnisins leyfi.

Veröld tölvuumhverfisins að mestu óstöðluð hvað varðar nálgun hugsunar frá hagkvæmnissjónarmiði samfélags eða áframhaldandi þróunar. Til er nóg af litlum tæknilegum stöðlum sem tilgreina stök verkefni – eða ákveðin forritunarmál – eiga að haga sér. Þannig er með alla okkar veröld, hún stefnir sinnulaus að feigðarósi en í afar nákvæmum skrefum.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.