Út fyrir garðshliðið

Í dag var ég eitthvað orkulítill og ekkert alltof jákvæður (já það gerist). Ég þurfti að sinna pappírsvinnu á bæjarskrifstofunni og ákvað að fara þangað fótgangandi. Það er jú hressandi „daufum huga“ að ganga daglega? Eftir að hafa viðrað hundana og fengið mér kaffi skellti ég mér af stað í bæinn.

Ég þurfti ekki að fara víða en kom við á ýmsum stöðum auk bæjarskrifstofanna, bæði á leiðinni í bæinn og heim aftur. Ég hitt helling af fólki, sumt sem ég þekki þokkalega á skiptist á orðum, sumt sem ég kannast lítillega við svo það var heilsað á báða bóga. Einnig var hitt ókunnugt fólk.

Í bæjarferðinni hitti ég um það bil fimm manneskjur sem þekktu mig, heilsuðu mér vingjarnlega eða tóku mig tali. Auk þess fékk ég hugvekjandi samræður við nýbúa sem ég hafði aldrei hitt áður og deildi með mér áhugaverðum sjónarhornum.

Rétt í þann mund sem ég kem heim eða var við það að opna útidyrnar, verður mér hugsað til þess hve daufur ég var í dálkinn. Sú tilfinning er arfur frá þunglynda tímabilinu, því þó ég sé laus úr fangbrögðum við þann fjanda þarf ég sífellt að gæta mín á honum, því hann bíður sífellt í leyni bak við næsta húshorn. Um leið átta ég mig á hversu þröngsýnn hinn neikvæði hugur getur verið.

Ég var svo upptekinn af að vera daufur í dálkinn að ég tók ekki eftir, fyrr en ég hugsaði málið, að í einfaldri gönguferð um bæinn hitti ég stóran hóp af fólki, átti vingjarnleg og hvetjandi samskipti, eignaðist ný tengsl og styrkti eldri.

Hvernig er hægt að vera daufur í dálkinn þegar líflegt, jákvætt og hressandi samfélag er rétt utan við garðshliðið?

Auk þessa má benda á blessaða hundana. Þeir eru líka orkulitlir í dag. Úti er hlýtt en skýjað. Stöku regndropi fellur úr lofti. Getur verið að loftvogin sé að falla? Getur verið að líkami minn skynji fallandi loftvog en egóið mitt sé aðeins of upptekið af sjálfu sér?

 

 

This entry was posted in Ferli hins jákvæða vilja and tagged , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.