Allt sem þú hefur heyrt að sé rétt, gæti verið rangt. Allt sem aðrir hafa komið inn í hausinn þinn að “eigi að vera á hinn eða þennan veginn” gæti verið rangt.
Vel er hugsanlegt að þitt eigið innsæi viti mun betur hvað máli skiptir, ef þú þorir út fyrir ramma viðtekinnar hugsunar.
Allir sem þú lítur upp til, því þeir voru fullorðnir og lífsreyndari þegar þú varst barn, gætu verið fávitar borið saman við þig í dag. Þú hins vegar lítur enn upp til þeirra og tekur mark á því sem þeir komu inn hjá þér.
Það krefst hugrekkis og viljastyrks að læra að sjá ofangreint.
Allar hugmyndir þínar til að mynda um samskipti kynjanna gætu þannig verið rangar. Allar þær hugmyndir sem þannig stýra samskiptum þínum við annað fólk, og hugsanlega ramma þig inni í fangelsi hjartans, eða festa þig í hjólfari hugans, gætu verið rangar.
Eina leiðin til að ná taki á þessu er að skrásetja – með einföldum setningum – þær forskriftir sem þannig stjórna huga þínum, og læra að endurskoða þær.