Viðhorf og venjur

Hver kannast ekki við þessa tilfinningu? Að vera með fáein kíló í yfirvigt og vilja breyta því ástandi. Vandinn er augljós: Ég borða meira en ég brenni. Lausnin er jafn einföld, að brenna meira eða borða minna.

Ef lífið væri alltaf jafn einfalt á borði og í orði myndum við ekki þurfa lausnir eins og Ferlið.

Ég hef tekið eftir því að ég borða meira þegar ég er leiður eða upplifi innri ókyrrð. Þegar ég er í góðu jafnvægi borða ég nægju mína sjálfkrafa. Hins vegar þegar ég upplifi lífsgleði er ég léttari á mér og borða minna. Einnig hreyfi ég mig meira þegar ég er glaður.

Þegar ég hafði prófað megrun og mistekist eftir stuttan tíma, gerði ég lítið úr sjálfum mér og vanlíðan jókst. Og aftur jókst átið.

Ég tók því ákvörðun: Ég færi í megrun og yrði í henni þar til ég léttist. Ekki var gerður listi yfir mat sem mætti borða heldur hvernig mætti borða. Þá daga sem mér liði vel skyldi ég hugsa um það á meðan ég borðaði.

Oft tökum við tilfinningar okkar sem gefinn hlut og lifum eftir þeim án þess að gefa þeim gaum.

Þegar mér liði illa og vildi borða meira myndi ég líka hugsa um það, en á jákvæðum nótum. Ég myndi segja við sjálfan mig “núna líður mér þannig að ég vil borða meira en ég læt mér ekki líða illa yfir því“.

Síðan tók ég aðra ákvörðun, veigameiri: Ég skildi líta svo á að dagur sem tapast tapar ekki ferðinni. Ef ég væri í megrun í þrjátíu daga en félli í þrjá þá væri megrunin ekki fallin. Ef ég væri í megrun í þrjátíu daga og félli í tuttuguogníu þá héldi hún samt velli. Þó orrusta tapist er stríðið ekki tapað.

Þessa daga sem ég borðaði mikið sagði ég því við sjálfan mig “þó ég falli í dag er ég áfram í megrun, og þetta hefst á endanum”. Þannig breytti ég hugsun minni. Ég var ekkert leiður þó ég væri í of þungur. Ég gerði ekki lítið úr sjálfum mér þá daga sem ég stóð mig illa.

Átta mánuðum síðar hafði ég tapað tólf kílóum. Ég hafði vanið mig á það með tímanum að líta ástandið jákvæðum augum og venja mig á hugsanir sem skiluðu árangri. Ég nota þessa nálgun ennþá. Tíminn er oft sterkur bandamaður ef maður hleypir honum að.

 

 

This entry was posted in Ferli hins jákvæða vilja and tagged . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.