Vægi jaðarsettrar sýnar (óstytt útgáfa)

Fimm þjóðabrot söfnuðust hérlendis saman og höfðu án deilna sammælst um að kalla eylandið Ísland. Fræðimenn álíta að sá fyrsti hafi byggt sér varanlegt ból á því Herrans ári 874.

2019-10-5623-klipptÝmsir eru ártalinu ósammála og halda því fram að hér hafi þá verið byggð í það minnsta í þrjár aldir. Það skiptir þó ekki máli því dálítið annað gerðist sem að mati frumspekinga er merkara.

Án deilna sameinuðust þessi þjóðabrot um að stofnað skyldi þjóðríki, með einni tungu og einum lögum sem tryggðu virðingu og sið í ríkinu eða ábyrgt Ástand. Sundurleitur hópur valdi þannig að smíða nýja þjóð og skyldi hún ráða sér sjálf.

Sumarið 930 var stofnað Allsherjarþing sameinaðra héraðsþinga sem annars væru sjálfstæð meðan það ógnaði ekki frumspekilegu hugmyndinni um Allsherjarreglu. Þar skyldu rædd lög og þar skyldu gerðir dómar.

Skilji ég Jón Aðils og Lúðvík Ingvarsson rétt – þá tvo Íslenska fræðimenn sem mest hafa rannsakað Þjóðveldisöldina – þá gátu eignalausir menn (þrælar) og konur, komið málefnum á framfæri á héraðsþingum og haft áhrif á kosningu.

Á Héraðsþingum var árlega kosið hverjir skyldu ríða til Þingvalla og gátu þrælar og konur fengið þingmenn til að flytja mál fyrir sína hönd. Þessi hópur skilgreindi og framkvæmdi þjóðsköpun en umfram allt mótuðu fyrstir manna það sem nefnt er Lýðræði.

Vissulega hafði verið skilgreint lýðræði í Aþenu og Róm, en það var stjórntæki stakra borga og aldrei mótað. Norður Evrópskir þjóðflokkar höfðu iðkað lýðræði öldum saman en aldrei Lýðveldi. Allt fram á miðja sautjándu öldina voru konungar Skandinava kosnir af goðum og jörlum án erfðahyllingar.

Það var nýfædd Íslensk þjóð sem skilgreindi sig samkvæmt frumspekilegri hugsun og skóp ríki og mótaði eftir henni. Allt fram að Bresku hugarfarsbyltingunni upp úr 1680 (The Glorious Revolution) var hún sú eina sem viðhélt slíkri reglu og hugsun sem ófrávíkjanlegum veruleika.

Þó Íslendingur samtímans þekki illa vægi þessarar rýni né hafi áhuga á dýpt hennar þá er þetta hinn sanni þjóðarauður okkar, ásamt orðhag í gegnum aldirnar. Allar götur til Kópavogsfundarins 1662 þegar við samþykktum að leggja hugsun okkar að fótum erfðavalds valdaverkfræðinga frá Evrópu, höfðum við sent unga og efnilega menn til mennta í álfunni.

Þegar hugvísindamenn Breta þvinguðu konung árið 1215 til að gefa þeim stjórnarskrána Magna Carta, sést glytta í hugmyndir sem þeir höfðu lært af samnemendum sínum, Íslenskum bændasonum, í menntasetrum Evrópu.

Í sjö aldir höfðu vísindamenn okkar dreift fræi öflugra hugvísinda til menntafólks sem síðar höfðu áhrif á sínar eigin þjóðir og beint eða óbeint höfðu mótandi áhrif á framvindu sögunnar. Magna Carta er eitt dæmi um rekjanlegt huglægt mat, kannski ekki hlutlægt, en hver veit?

Marteinn Lúter er álitinn steinvalan sem velti Páfanum úr þeim sess að vera konungum Evrópu andlegur áminnandi. Óbeint gaf hann þeim – og nú lýðræðisríkjum – vald yfir kirkjum og andlegri fræðslu. Getur verið að hann hafi misskilið langalangafason Sæmundar fróða, sem hafði lært með honum Skólaspeki (Scholasticism) í fræðasetri í Germaníu?

Kannski er sögurýni mín á villigötum. Það breytir ekki því að eftir tíu ár, 2030, verða sléttar ellefu aldir síðan forfeður mínir skilgreindu nýja þjóð og tóku áður skilgreinda lýðræðishugmynd og mótuðu hana í farveg sem síðan hefur sigrað heiminn.

Bandaríska ríkjasambandið hefur viðurkennt að hafa fengið grunnhugmydir sínar frá Iroquois ríkjasambandinu en Iroquois þjóðirnar fimm mótuðu Þjóðveldi sitt með líkum hætti og við, eftir að okkar fólk hafði ferðast um heimalendur þeirra.

Ég áminni lesandann; Ég er meðvitaður um að hér er á ferðinni djarft huglægt mat og ekki vísindaleg hlutlæg greining. Þannig bið ég lesandann um örlítið svigrúm og lofa að reyna ekki frekar á mörkin.

Þegar ég nota orðið Ástand (State) með upphafsstaf, þá er það í merkingunni „huglægur veruleiki hóps sem tekið hefur sér formfestu í ytri veruleika.“ Ástand er yfirleitt uppnefnt Ríki, en er hugmynd sem holdgerist þegar henni er trúað.

Skattstofa, Þjóðþing og Þjóðfáni eru atriði sem tilheyra formföstum veruleika ríkis en eru allt saman fyrirbæri sem eru byggð á mótuðum frumspekilegum viðhorfum og undirliggjandi fullvissu meðal hópsins, um hluti sem ekki er auðið að sjá en kalla má fram.

Þegar Skólaspekingar héldu þing sín í Trent á sextándu öldinni, komust þeir í aðalatriðum að tvennum megin niðurstöðum. Þeir hefðu gert Skólaspeki of fágaða og skipt sér of mikið af veraldlegu Ástandi. Ég nota töluna 1551 í orðræðu minni til að merkja (Branding) þetta, því um áhrifamikla jaðarsetta niðurstöðu er  að ræða.

Segja má að 1551 merki ákvörðun áhrifamikils hóps um að sleppa hömlum á framförum vísinda og hugverka. Það er rekjanlegt að Endurreisnin (Renaissance) og Endurmótunin (Reformation) var afleiðingin þessara þinga en ekki illa mótaðra uppreisna fáeinna klerka.

Nú eru 3332 ár  (samkvæmt Hebresku tímatali) síðan frum- og dulspekingurinn Móse setti saman fyrstu stjórnarskrá mannkynsins, sem aftur skilgreindi svo sterkt ástand að þjóð fæddist af og síðan hafa flestar þjóðir reynt að endurnálgast.

Hugmyndirnar voru hugsanlega innblásnar af ofurvætti og hugsanlega afurð djúpra hugleiðinga. Einfaldleiki þeirra og afl, dylst þó engum. Þetta var endurtekið fyrir 1090 árum, á Þingvöllum. Við erum engin smáþjóð, en fámenn.

Í ár á Guðdómlegi Sáttmálinn stórafmæli, því í september komandi verða 3333 ár liðin. Eftir tíu ár eigum við Íslendingar stórafmæli. Kannski er þetta merkingarsnautt í dag, kannski ekki.

Virtir Ríkisráðsmenn* (Statesmen) segja Skjalavaldið eilíft. Aðrir ræða hið varanlega ástand (Eternal State). Ég sé hvað þeir eiga við og skil hvernig heimspeki samtímans styður þá. Mig grunar þó að til sé dýpra og varanlegra ástand, en að það feli sig óverðugum og birtist í ljóma þeim sem lauga sig agaðri frumspeki og einlægri auðmýkt, þeim sem leitar og knýr á.

* Ríkisráðsmaður er ekki til í orðabókum en er sett saman eftir samráð við tvo fræðimenn og einn leikmann.

Þessi grein var rituð 7. apríl 2020 og samdægurs stytt í fimm þúsund slög og send Morgunblaðinu, sem góðfúslega birti hana laugardaginn 18. apríl.

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.