Kína Sússí og innihaldslýsingar

Ég veit alveg að Sússí á að rita Sushi, eða ég held það. Einnig veit ég vel að hrár fiskur sem lostæti er Japanskt fyrirbæri en ekki Kínverskt. Sömuleiðis ritum við Bandaríki Norður Ameríku en ekki United States, svo ég má vel rita Sússí.

img-coll-0599Sömuleiðis veit ég að upphaf þessarar færslu er versta bull. Enginn Íslendingur hefur áhyggjur af því að Þjóðverjar grandskoðuðu Ísland fyrir stríð.

Þeir skoðuðu alla Evrópu, sums staðar með hervaldi og sumsstaðar sem gestir, þegar þeir undirbjuggu þúsund ár friðar.

Hver einasti kristinn maður sem lesið hefur Biblíuna veit að veröldin er á valdi hins vonda svo líklega voru Bandamenn hans handbendi þegar þeir lögðu að velli það ríkiskerfi sem lýsti yfir stuðningi við Hvítakrist.

Já ég veit að ég er ennþá að bulla.

Sömuleiðis vita allir sem lesið hafa hernaðar- og mannkynssögu að Rússar höfðu engan áhuga á Íslandi, annan en þann að vita hvernig hér væri umhorfs ef þeir þyrftu að verja hendur sínar gagnvart vestrinu. Það var farsi hins tíðindalitla kalda stríðs sem þjónaði þeim tilgangi einum að halda mannfólki vestrænna Lýðvelda og austræanna kúgunarvelda kyrrum fyrir í ótta, kvíða og vantrausti.

Þetta síðastnefnda er bara bull í augum þeirra sem eru ólæsir og sinnulausir um samtíma sinn.

Norðurljós eru afar vinsæl í Asíu. Sjálfur á ég kunningjafólk af Asískum uppruna sem ég hef kynnst í gegnum samfélagsmiðla Internetsins. Allt þetta fólk hefur áhuga á norðurljósum og spyr um þau. Mjög algengt er sömuleiðis að fólk í Asíu, Suður Ameríku og Afríku – já þar er líka fólk með aðgang að netinu – spyrji um snjóinn.

Það kann að hljóma fáránlega, eins og margt annað í upphafi færslunnar að ég stend í samskiptum við fólk erlendis. En hugsum það nánar. Við Íslendingar höfum öll áhuga á að ferðast um ókunn lönd, skoða heminn og kynnast fólki. Sjálfur hef ég ferðast mikið og einnig verið í sambúð með erlendri konu. Ég hef mikinn áhuga á menningu, hugsunarhætti, trúarbrögðum og öðrum veruleika hugsunar.

Er það svo skrýtið að ég nota tæknina til að lesa erlenda fréttamiðla, skoða hvað gerist í grasrótunum og tengja punkta? Hver sá sem les greinar mínar, á blog.is, hreinberg.is, logostal.com eða hundasport.is, veit hvað ég hef gaman af að skyggnast undir húddið og skoða hvernig vélin er tengd og tikkar.

Tökum sem dæmi einn málkunningja minn sem býr í austarlega í mið Afríku. Það er land sem er á við tvö og hálft Ísland að stærð. Þar býr tífalt fleira fólk en á Íslandi. Þar er stærra heilbrigðiskerfi en hjá okkur, mjög öflugt menntakerfi, sterk menningarvitund, stórborgir og mjög mikil gróska af trúarbrögðum, tungumálum og alls kyns kræsandi menningarstraumum.

Héðan séð, ef maður skoðar það í gegnum nálaraugu frétta sem birta fáeinar sekúndur árlega af sama landi, þá er það strjálbýlt og ólæst svertingjaland þar sem börn með uppblásinn maga búa í moldarkofum.

Við höfum hins vegar ekki búið í moldarkofum í áttatíu ár!

Ég hef áður ritað um Kínagrýluna og borið saman við Rússagrýluna og aðrar grýlur. Mín skoðun er sú að meginfjölmiðlar elska að þeyta upp rjómafroðu vantrausts og kvíða gagnvart samfélögum sem við ekki þekkjum.

Kínversk menning hefur ekki haft áhuga á útþennslu í meira en þúsund ár og jafnvel meira en tvöþúsund ár. Þetta fólk hefur áhuga á eigin menningu og viðskiptum. Umfram allt hefur kinversk menning – óháð stjórnvöldum – fyrna mikinn áhuga á ábatasömum viðskiptum. Einnig elskar þetta fólk að velta fyrir sér mat og matargerðarlyst. Hver er það sem ekki hefur notið góðs af því?

Á ferðalögum mínum hef ég tekið eftir einu sem tengist mat og matargerðarlyst. Skoðum til að mynda Ítalíu sem er eitt fremsta matarmenningarríki Evrópu eða Frakkland sem sækir fram á því sviði einnig. Bæði þessi lönd eru búsett þjóðum sem hafa verið heimsveldi og vita því hvað er hvers virði. Rétt eins og Kínverjar og Indverjar.

Skellum Tælendingum inn í þessa mynd. Þar býr þjóð sem stendur líklega fremst í heiminum í dag á sviði matargerðar lista. Þar býr harðduglegt og glaðvært fólk, sem oft er litið niður á í okkar fagra landi því konur sem þaðan hafa flust hingað eru oft í illa menntuðum og illa launuðum störfum.

Víða í þessum störfum vilja Tælendingar síður vinna við hlið Íslendinga því þeim finnst við vera löt.

Tæland er eina ríkið í Asíu sem vesturlöndum tókst aldrei að brjóta á bak aftur.  Öll þessi ríki sem hér eru nefnd forðast skylmingar ef hægt er, því þau vita hvað skiptir máli. En hvað skiptir máli?

Þegar ég bjó á Írlandi hitti ég eitt sinn Skota sem átti sameiginlegt áhugamál með mér, sem er tölvunarfræði. Hann sagði mér að eftir að hann útskrifaðist frá Glasgow háskóla fór hann í þriggja mánaða ferðalag til Indlands. Við ræddum það í smástund þar til hann klikkti út  „þegar ég kom til baka vissi ég hvað skipti máli“.

Hvað skiptir máli? Spurði heimspekingurinn ég, albúinn í spennandi hugtakaskylmingar. „Fjölskylda og góður matur“ var svarið, svo skáluðum við bjórinn í botn. Það var komið að mér að kaupa annan.

Í hvert sinn sem ég sé meginfjölmiðla spinna upp kvíðafroðu, óttafroðu eða eitthvað annað sem engu máli skiptir. Hvað þá sakleysislegar jónunarmælingar á öræfum – sem auðvelt er að fylgjast vandlega með t.d. með því að skikka vísindamenn til að hafa Íslenska leiðsögumenn öllum stundum – þá vaknar mér önnur spurning:

Hvað er verið að fela í umræðunni? Sumarið sem öræfin voru síðast notuð ásamt Kínagrýlunni tóks vinstri stjórninni að kæfa alla umræðu um sjálfa sig í heilt sumar, þjóðinni til mikillar kæti. Hvað á að fela núna?

Hvaða vogunarsjóðir eiga bankana sem eru að hirða aleiguna af þjóðinni? Hvers vegna eru það tuttugu einkavinir sem eiga allan þorskinn? Hvers vegna er ekki hægt að frysta verðtrygginguna? Hvers vegna er ekki hægt að koma á beinu lýðræði?

Eitt skemmtilegt dæmi að lokum, því fáir Íslendingar hafa lesið stjórnarskrána sína (sem tekur tuttugu mínútur): Meðan fjölmiðlar og stjórnmálabjöllur hræra í þér varðandi grein 26 – sem er öryggisventill lýðræðis – hvarflar ekki að þér að skoða grein 20, sem er mun áhugaverðari frá sjónarhóli valdabrölts.

Hvers vegna áttu að hlýða og vera góður þegn, þegar þú getur verið öflugur borgari? Hvers vegna er ekki hægt að kæra stjórnarskrárbrot? Hvers vegna má ekki segja opinberlega að EES samningurinn er landráð? Engar þessara spurninga koma Kína neitt við.

 

Þessi grein var fyrst rituð á gudjonelias.blog.is veturinn 2012/2013.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.