Hryðjuverk eru falskir vitar í dáleiðslu skuggavaldsins

Það eru um það bil tvö ár síðan ég ákvað að kynna mér aðeins menningarheim eins fimmta hluta jarðarbúa. Ég þekki minn fimmta því ég er alinn þar upp og ég þekki sérstaklega vel skuggann af okkar eigin sjálfsblekkingaheimi. Stór orð?

img-coll-0304Ég nennti þó ekki að lesa endalausar áróðursgreinar með eða móti þessum menningarheim.

Vissulega ákvað ég að lesa „þeirra heilögu ritningu“ og hef kynnt mér hana nægilega vel í dag til að sjá skýrt að okkar eigin menningarheimur, kristinna lýðræðisþjóða, veit nær ekkert um þessa ritningu þó nóg sé af skyrinu sem slett sé í hana og fullyrðingum um það sem í henni stendur.

Ákvað ég að nota samskiptasíðurnar okcupid og tagged til að eignast samræðuvini af veikara kyninu í þessum menningarheimi. Vildi ég kynnast því sem grasrótin segir og hugsar, sérstaklega frá sjónarhóli „hins kúgaða hluta“ þess heims.

Ekki þurfti margar samræður til að sjá að sýn okkar sjálfheilagra iðnþjóða er stórlega bjöguð og eins og venjulega; frekar á þeirri línu sem hentar hernaðariðnaðinum og bankamafíunni. Enn á ég vini á samskiptamiðlum úr þessum menningargeira og ég hef einnig skrifast á við fólk erlendis sem er áberandi í umræðunni þar.

Allt ber að sama brunni; við vitum ekkert um þennan heim nema kynna okkur hann. Hér áður sá ég þennan heim í gegnum sama tvívíða og líflausa prisma og megnið af okkar djúphyglu þjóð sér; og í dag furðar mig að þeir sem mest amast við þessum menningarheim eru að nota sama áróðursefni – með og móti – og meginmiðlar hafa matreitt handa fólki.

Sumir landa minna fullyrða jafnvel að þeir hafi lesið trúarrit þessa fólks á sama tíma og það slettir skyri og grjóti sem mest það má, rétt eins og það sé á launaskrá Rothschild og Mossad. Mig langar því að taka tvo punkta fram, bara til gamans.

Ein þeirra kvenna sem ég var svo heppinn að fá að spyrja út í heimsmálin er kona, alin upp í Tyrknesku afdalahéraði, nútímaleg í framkomu, tali og með tvær háskólagráður (sem er móðins og virt hérlendis). Hún starfar í upplýsingatækni og alþjóðaviðskiptum og er vel með á nótunum.

Þegar ég spurði hana um kvennakúgun og Búrkur svaraði hún að bragði „þetta er mest vandamál í karlaveldunum í Arabistan og hefur ekkert með Íslam að gera.“ Þegar ég spurði hana um slæður sem hylja hárið þá sagði hún mér að hún notaði slæður þegar hún færi í Moskuna og yfirleitt fyrsta daginn þegar hún færi heim í fjallaþorpið í fríum, en það væri hennar val og konur litu svo á í flestum múslímaríkjum.

Þá finnst mér áhugavert sem ein kona benti mér á og ég grúskaði í síðar og fann út að er rétt. Að ekkja spámanns þeirra, Aisha, stóð fyrir því að koma á þessari búrku- og slæðuhefð um það bil tveim áratugum eftir lát eiginmanns síns, á sama tíma og hún vann að því – ásamt fleirum s.s. Hafsa annarri ekkju hans, að færa munnlega geymd Kóransins í letur.

Ég hef síðan þetta var rætt við fleiri múslíma – af báðum kynjum – og ég hef í dag enga fordóma gegn þessu fólki. Vissulega stendur mér stuggur af vissum hefðum sem ríkja í þeim menningarheimi. Sjálfur yrði ég vafalaust grýttur í Pakistan og Sádí ef ég vogaði mér að minnast þar á mína eigin trú. Veröldin er jú marglit.

Tökum því annan snúning til gamans.

Ég hafði aldrei heyrt orðið Arabistan fyrr en Tyrkneska – kúgaða – múslímakonan skyrpti því út úr sér. Læt ég aðra um að flokka hvaða lönd falla þar inn í. Síðan þetta var hef ég lært að einungis 11% múslíma býr í Arabistan og að múslímar eru álíka margir og þegnar Iðnveldisins eða hálfur annar milljarður.

Einnig sýnist mér að 99% af svonefndum hryðjuverkamönnum séu úr þessari 11% sneið og að þeir komi því sem næst einungis frá þrem til fjórum afmörkuðum svæðum sem öll eru ofsótt af velmeinandi hreppum Iðnveldisins sem ætla að gefa þeim flokksræði í gervi fulltrúalýðræðis.

Læt íslenskum Ísraelsfasistum og vel meinandi Íslamahöturum um að rífast um þessa skilgreiningu, en ég nenni ekki að svara heiladauðum spunaþvættingi þeirra, í það minnsta ekki hér á FB þar sem frið og ró ríkir yfir vötnum. Mig langar þó í lokin að benda á skemmtilegan farsa í þessu öllu.

Sumir hafa bent á að múslílmaríki séu óvilhöll öðrum trúarbrögðum en sínum eigin.

Látum svo vera en minnum á að hin heilaga Íslenska stjórnarskrá frá 1944 (sem allir Íslendingar hafa lesið) tiltekur skýrum stöfum hver sé hin Íslenska ríkistrú, og sú trú skírir ungabörn inn í trú sína þó trúarrit þeirra hafi einungis stutt við skírn fullorðinna meðvitaðra einstaklinga inn í trú.

Ennfremur minni ég á að yfirgnæfandi meirihluti upplýstra og menntaðra kjósenda Íslenska Lýgveldisins kvittaði fyrir það haustið 2012 að áfram skyldi viðhaldið ríkistrú á landinu bláa.

Þetta ku hvorki tvískinnungur né skynhelgi meðal krossfara hins heilaga vestræna rétttrúnaðar, um það hvað sé gott og gilt fyrir fólk hinumegin á hnettinum.

Annað dæmi sem kemur upp í þessu samhengi er punktur sem Reza Aslan (prófessor í trúarbrögðum) benti á í frægu viðtali, er að hin svonefndu múslímaríki hafi kosið fleiri konur í leiðtogahlutverk ríkja sinna en lýgræðisríki iðnveldanna – hef ég ekki kannað þetta sjálfur en gaurinn er þekktur fyrir sannsögli (þó ókristinn sé) svo ég læt þetta fjúka.

Í því samhengi dettur mér dálítið merkilegt fyrirbæri í hug. Eins og allir vita er Íranska lýðveldið eitt af fáum ríkjum heims sem ekki hefur látið bankamafíu og hernaðarvél Iðnveldisins buga sig til hlýðni. Enda mikill áróður í gangi gegn því.

Eitt af því sem þeir eru gagnrýndir fyrir er einmitt kúgun kvenna en mér skilst að umræða þar í landi, sérstaklega meðal háskólaborgara, sé farin að taka þetta fyrir og að byrjað sé að liðka fyrir um þessi mál. Ég veit lítið um það enn og minnir að þetta hafi komið fram í orðastað (debate) á milli Tariq Ramadan og Christopher heitins Hitchens. Hlakka til að fá meira að vita um þetta (einhver).

Nýlega var ég einmitt að grúska í stöðu gyðinga í hinu forna Persaveldi því ég hafði rekist á þá fullyrðingu að þar í landi væri stærsta gyðingasamfélag mið-austurlanda fyrir utan Ísrael sjálft. Svo minn fór á kaf í að grúska í því ástandi, sérstaklega vitandi hversu auðvelt er fyrir þetta fólk að komast til Palestínu ef það vill.

Rakst ég á nokkuð áhugaverðar upplýsingar við þetta grúsk. Lýðræðið þar í landi miðast við einn fulltrúa inn á þing fyrir hverja 200.000 íbúa. Þó er gerð undantekning fyrir samfélög gyðinga og zóróaster trúar og fleiri minnihlutahópa til að tryggja að þeirra rödd heyrist á þingi þess lýðræðis sem þeir iðka.

Þetta væri svipað og að Alþingi Íslenska Lýgveldisins færi að bjóða Óla Ufsa að sitja á þingi um kvótamálin.

Mér er tíðrætt um þetta múslímamál og ég vona að fólk misskilji mig ekki. Því í mínum huga er enginn munur á trúarbrögðunum. Í minni trú eru öll skipulögð eða kerfisbundin trúarbrögð ein risastór skurðgoðadýrkun og mín trú býður mér að standa utan við slíkt.

Ég hins vegar hata forpúkun, trúarfyrirlitningu, áróðursvélar, og forheimskun falda á bak við orðagjálfur og ég sé það jafn skýrt og hver sá sem nennir að virkja sínar litlu gráu, að Íslam er „tilbúinn óvinur“ af áróðursvélinni sem Eisenhower nefndi „the industrial military complex.“

Einnig eiga hér við rök Chris Hedges sem komu fram nýlega í frábæru viðtali við Abby Martin, sem of langt mál væri að rekja svo ég læt það fylgja hér með. Mig langar þó í lokin að benda á áhugaverða sálfræði, sem ég veit að fólk kannast við.

 

httpv://www.youtube.com/watch?v=mYnf6KfEroE

 

Tvennt er merkilegt í viðtalinu við Hedges. Annars vegar hvernig komið er fram við franska ríkisborgara af Alsírskum ættum – en við vitum ekkert um það hér. Einnig að franska leyniþjónustan getur hlerað og flokkað sjálfkrafa sex mismunandi mállýskur þeirra í rauntíma og lyklað á lykilorð og frasa. Reiknaðu nú (do the math).

Einnig má taka fram að hin pínkulitla terrorsitaklíka sem meginfjölmiðlar og yfirborðsstjórnmál markaðssetja, er fjármögnuð (að talið er) af Wahabista* ófögnuði, sem er sami sértrúarhópu og tekur fólk af lífi í Sádí; samherja Iðnveldisins.

Þegar hampað er ákveðnum grunnhyggnum og bjöguðum machogildum í fjölmiðlum þá mun viss tegund grunnhygginna einstaklinga samsaga sig þeim ímyndum og tileinka sér. Rétt eins og þegar þú segir eitthvað sniðugt í partý, þá heyrist í einhverjum „já ég hef einmitt alltaf haldið þessu fram,“ og terrorismi getur orðið tíska í vissum hópum fólks sem hafi svipað mentalitet og norski maðurinn sem ég neita að nefna á nafn.

Ég lofa þér að ef megin-fjölmiðlar beittu þöggun á terrorisma myndi allur terrorismi minnka um 90% og ári síðar færi klíkan hans Eisenhower á hausinn. Það myndi þó ekki henta klíkunni sem á þá báða og stjórnast af höfðingja þessa heims. Um sama leyti myndu vissir þverplankar Íslenskir finna nýjar grýlur til að amast við.

 

* Wahabismi er einnig nefndur Salafi.

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.