Eini munurinn á þrælnum og þrælahaldaranum er svipan og keðjan. Rétt eins og munurinn á hægri og vinstri er forskeytið á isma. Ekki làta þig dreyma að ég vilji viðurkenningu þína eða sé að berjast með þér gegn rotnu kerfi meðan þú ert hluti þess.
Þó ég hljómi stundum eins og hinir í andófinu er það ímyndun þess sem heyrir það sem hann vill heyra.
Allur hugmyndaheimur mannsins er rotinn. Munurinn á skeinipappír og kúk er enginn þegar búið er að sturta niður.
Minn vilji er að bera fram vilja föðurins eftir skilningi mínum og er það bæði verðlaun mín og svipa. Annað skiptir mig engu. Allir bræður mínir sem gengnir eru, og systur, gerðu hið sama. Að reysa bæði vegvísi og dóm spilltri kynslóð sem hrópaði eftir lausn um leið og hún formælti henni.
Finndu sannleika og þú tælist inn í nýja flækju í völundarhúsi blekkingar. Hvers vegna ótrastu eigin mátt? Ó friðarborg, ó friðarborg, þú sem hrópar eftir skjólborðum fögnuðar um leið og þú ofsækir spámennina sem klambra þeim saman.
Þú reisir fyrirsagnir sjálfsþóttans á hverju horni og kaffærir eigin ljóma með gargi girndar og tómlegrar greindar. Ó, þú gull og gersemi; hvar sem þú arkar stynur jörðin undan ekka skugga þíns, og ástin sem ætti að vera byr vængja þinna er akkeri losta þíns.
Meðan þú skilur ekki eigin trú muntu ekki sjá eigið myrkur og þaðan af síður skilja myrkur annarra, heldur muntu taka þátt í hverri þeirri krossferð sem býðst til að fá útrás fyrir ljótleika sálar þinnar og nota alla hæfileika egós þíns til að ýmist réttlæta það eða afneita sannleikanum.
Áður en þú jarmar, þá er trú ekki sannfæring um eitthvað yfirskilvitlegt heldur sannfæring um gildi hugmyndar sem stjórnar hugsun þinni. Því hugmynd er óáþreifanleg rétt eins og hið yfirskilvitlega, nema sú skilvitlega er röklæg en hið röklæga er næst beittasta vopn egósins og hið beittara er tilfinningalíf þitt sem þú hefur enga stjórn yfir. Þetta skilur skuggavaldið og notar grimmt.
Þú lifir ekki aðeins í skuggaveröld heldur í hringleikahúsi hugarfarslegra öngstræta og skuggalegra skrímsla tilfinningasemdinnar, áttavillt(ur) í völundarhúsi hugmynda og leiðin út er aldrei sú sem þú heldur. Rétt eins og með speglasal sjö milljón spegla, það er ein hurð á bak við einn spegil en þú getur ekki gáð bak við þá alla.
Þú getur aðeins brotið speglana eða klifið veggi völundarhússins, og faðmað tröllin í skuggunum. Þannig fetarðu leiðina til hins himneska innblásturs, sem mun skera í sál þína af sama sársauka og þegar lungun þín drógu fyrsta andardráttinn.
Óttalaust líf er góð byrjun.