Alþingi Lýðveldisspunans fremur ofbeldi á fólki sem vill selja hágæðaþjónustu af persónulegum toga. Fjölmiðlar og viss grasrótarhópur hefur komið því inn hjá þjóðinni að þetta fólk hljóti allt að vera fíklar eða undir áþján mansals.
Engin raunveruleg rýni er til í þetta fag á meðan það er dæmt jafn harkalega og yfirborðsheilög elítan og nokkrir siðapostular halda þeim föngnum sem stunda fagið af faglegum áhuga og samviskusemi.
Bæði fagfólkið og viðskiptavinir þeirra eru í umræðunni stimplað sem ógæfufólk eða ómerkilegir aumingjar og fyrir vikið getur þetta fólk ekki stigið fram og verið það sem það er. Aðeins hinseginfólk má vera það sem það er.
Ef kona – eða karl – selur blíðuþjónustu og er hugsanlega að lifa á því eða fjármagna nám eða halda uppi fjölskyldu eða starfar við eitthvað sem hún – eða hann – hefur áhuga á, myndi viðkomandi stíga fram og viðurkenna það í því umtalsumhverfi sem samfélagið er staurblint að jarma sig í?
Enginn þeirra sem tjáir sig um þessi mál er aðili sem hefur beina aðkomu að faginu, hvoru megin borðsins sem er. Hér áður voru viðskiptavinirnir og blíðusalar glæpafólk, samkvæmt lögum. Svo voru þau ekki glæpamenn en nú eru bara kúnnarnir glæpamenn.
Darraðardansinn er algjör og þeir fáu sem stíga fram og vilja ábyrga umfjöllum er kveðið í kútinn með stimplum, fordómum, atkvæðisorðum og fleiru. Um leið sér enginn að umræðan á ekki að snúast um hvort blíðuþjónusta eigi að vera lögleg heldur hvort fólk í þessum geira eigi skilið mannlega virðingu eins og við hin eða ekki.
Enginn ræðir til að mynda um konu #1 sem er kona í mjög fínu starfi, er í efri millistétt, er þekkt í sínu fagi og sínum félagshring, og af áhuga á aukavinnunni velur sér kúnna sem hún vill sjálf sinna og sinnir þeim gegn greiðslu, báðum til ánægju.
Enginn ræðir um konu #2 sem fór skuldlaus í gegnum lögfræðinám og fjármagnaði nám sitt og uppihald með því að selja blíðu sína þeim sem hún sjálf sýndist.
Enginn ræðir um konu #3 sem var einstæð móðir og hafði engan félagslegan stuðning við uppeldi sitt og barðist í bökkum þar til hún ákvað að byggja upp valinn lista viðskiptavina sem hún sinnti reglulega. Komust færri á listann en vildu og þegar hún átti sitt skuldlausa heimili dró úr þjónustunni og hélt eftir litlum lista sem hún sinnti því hún vildi það sjálf.
Enginn ræðir um konu #4 sem fór að fikta við greiðvikniþjónustu af þeirri ástæðu einni að það kom henni til. Smátt og smátt varð hún háð aukafénu enda í áfengisfíkn á þeim tíma.
Enginn ræðir um konu #5 sem hefur áhuga á alls kyns útgáfum af kynhegðun og stundum drýgir einkatekjur sínar með því að falbjóða þjónustu bæði því hún er til í það og velur sjálf og einnig því hún veit að sumum finnst tilhugsunin örvandi.
Allt Íslenskar konur sem þú myndir ekki hafa minnsta grun um hvaða aukatekjur þær hafa.
Þú myndir mæta þeim í næstu matvöruverslun, klæddar eins og venjulegt fólk að kaupa sér inn. Konur sem er ekki víst að myndu falbjóða þér þjónustu því þær vilja sjálfar ráða hverjir verða kúnnar og hverjir ekki.
Engin þeirra hefur lögvernd. Engin þeirra hefur tök á starfstengdri heilsugæslu. Engin þeirra hefur rétt á virðingarverðri umræðu. Engin þeirra getur viðurkennt fyrir fólki í hverfinu sínu hvað þær gera, því þær yrðu sniðgengnar og forsmáðar. Engin sérstök úrræði eru til fyrir þær að leita til ef viðskiptavinur eða sjálfsréttlátir siðapostular reiðinnir gera þeim eitthvað.
Umfram allt; alveg sama hvaða kannanir eru gerðar, alveg sama hvaða greiningar eru framkvæmdar; þær munu aldrei viðurkenna fyrir þér hverjar þær eru né hvað þær gera, og aldrei vera með í skýrslunum, skýrslum sem segja meira um viðhorf þeirra sem gera skýrslurnar en að endurspegla veruleikann.
Þetta er ekki ádeila á fjölmiðla, stjórnmálafólk, stofnanafólk eða grasrótarhópa; heldur á þig. Því ef þú getur skrifað „ég er charlie“ þá geturðu líka skrifað „ég er hóra.“ Því hvort sem þær eru í mansali eða sjálfar – eða þeir – að selja þjónustu, þá er þetta fólk og allt fólk á virðingu skilið.
Þú hefur ekki hugmynd um, og munt aldrei hafa hugmynd um, hverjir eru blíðusalar og hverjir ekki og ýmist sem hænuhópsál eða í yfirborðs-sjálfsheilagleika ertu til í að taka þátt í því ofbeldi sem samfélagið beitir þær. Ég lofa þér að allir blíðusalar sem eru dregnir fram eru dregnir fram til að styðja skoðun þess sem dregur þær fram.