Ótti við Íslam er óttahvötin ómenguð

Ástæðan fyrir að Iðnveldið er svo hrætt við Íslam er ekki Múhameð og ekki öfgamenn sem fremja ofbeldisverk í skjóli hans. Hver sá sem lesið hefur Kóraninn eða rannsakað Múhameð veit að hann var jafn mikið á móti ofbeldi og Jósúa Maríuson – þessi sem þú trúir á síðan í fermingu.

img-coll-0250Einnig var hann jafn hrifinn af fyrirgefningu og aðrir spámenn eingyðistrúarinnar. Fyrsta súra – eða bók – Kóransins tekur sérstaklega fram við trúaða að Guð geri engan greinarmun á Gyðingum, Kristnum eða Múslímum þegar komi að degi dómsins.

Einnig er – rétt eins og í Biblíunni – sífellt minnt á að þegar við dæmum, hvort heldur við dæmum út frá trúnni eða eigin skoðunum – eigum við að hafa í huga að Guð mun dæma okkur sjálf(a) þegar þar að kemur og að dómharka okkar sjálfra muni hafa áhrif á þá dómhörku eða mildi sem við sjálf munum njóta.

Vissulega væri auðvelt að benda á hvernig meginfjölmiðlar Iðnveldisins ala á nýjum óvin til að réttlæta áframhaldandi hergagnaiðnað og tilheyrandi jaðarstarfsemi. Sem einnig er forsenda þess hve ofdekruð *við* höfum það gott, því ef hergagnaiðnaður Iðnveldisins hryndi þá hyrfi 70% af þeim iðnaði sem heldur okkur uppi og hrunið frá 1929 væri veisla í samanburði.

En það er önnur ástæða fyrir því að Iðnveldislýðurinn óttast trú Múslíma og hún er einföld. Við erum alin upp við að hafa enga trú, ekki á okkur sjálf, ekki á örlögin, ekki á æðri gildi, ekki á heiður eða afstöðu; heldur eigin vellíðan og eigin sjálfsheilagleika (sem er egóið).

Fólk sem hefur sannfæringu um eitthvað sem er þeim sjálfum æðra og er tilbúið að sýna þessa sannfæringu í verki – hvort heldur með fyrirgefningu eða sérvisku – mun ávallt virka ógnvekjandi fyrir menningu sem veit ekki hvað hún stendur fyrir.

Hver vegna er ég sífellt að verja Múslíma, væri nú rökrétt að spyrja. Ég sjálfur tilheyri hvorki þessari trú né hinni yfirborðskristnu trú sem okkar menning þykist fylgja en hefur löngu týnt.

 

 Myndskeið um konur í Englandi sem skipta um trú

httpv://www.youtube.com/watch?v=BIJsStKLE7A

 

Ég fylgi engum skipulögðum trúarbrögðum, heldur hinum upprunalega innblæstri spámanna Guðs, sem hefur ekkert að gera með niðurritaðar reglur presta og annarra spekinga sem öll miða að því að stýra huga fólks í átt til skurðgoðadýrkunar og ófrelsis sálarinnar.

En ég þoli ekki þegar dáleiddur múgurinn er heilaþveginn og tekur þátt í að dímonísera menningu sem þeir þekkja ekki.

Ég er á þeirri trúarskoðun að eingyðistrúin hafi þynnst út í öllum greinum hennar og að ef hún verði ekki endurvakin muni mannkynið fyrirfara sjálfu sér og satt að segja erum við langt komin með það.

Gyðingar gerðust skurðgoðadýrkendur á tíma herleiðingarinnar til Babýlon, Kristnir gerðust skurðgoðadýrkendur þegar þeir leyfðu Konstantín að gera sig að Míþrasdýrkendum og Múslímar fór að skurðgoðadýrka sinn eigin spámann á fyrstu öld eftir að ekkja hans, Aisha, tók þátt í að færa skilaboð hans í letur.

Meðan fólk er fast í stormviðrum englanna sjö sem foringi föllnu englanna fól að dáleiða lýðinn – fyrir mörgum öldum síðan – þá eru sálir þeirra fastar í fangelsi. Enginn er frjáls sé sálin falin sjónum; úr augsýn er úr hugsýn og meðan þú hleypir ekki andagift skaparans að sál þinni ertu blint egó.

En hvernig er höggvið á hlekkina?

Vesturlandabúar hafa enga trú lengur, ekki á sjálfa sig, ekki á gildi eigin menningar, og þaðan af síður á eitthvað sjálfum sér meira. Þetta hafa Múslímar, hvort sem okkur líkar trú þeirra eða ekki.

Hver sá sem lesið hefur mannkynssögu – eða grúskað í Nítjsé – veit að menning sem glatað hefur innihaldi sínu mun ekki standast hugarfarslega né ofbeldiskennda atlögu grófari menningar sem veit hvað hún stendur fyrir.

Enn og aftur spyr ég; ef við höfum glatað okkar eigin innri siðferðisstyrk, hvernig var hann eyddur og hvernig má fá hann aftur?

 

 

This entry was posted in Heimssýn and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.