Alþingi Lýðveldis hefur leyfi til landráða

Samkvæmt grein 21. í Stjórnarskrá Lýðveldis frá 1944 er bannað að gefa afsal eða kvaðir á landinu nema Alþingi samþykki það sérstaklega. Við fyrstu lesningu mætti skilja þetta sem svo að bannað sé að gefa öðrum vald yfir landinu.

img-coll-0107Við nánari rýni í setninguna sést að leyfilegt er að gefa öðrum vald yfir landinu ef Alþingi samþykkir svo.

Einnig er ljóst af grein 26. í sömu stjórnarskrá að Forseti Lýðveldisins getur komið í veg fyrir slíkt með því að neita undirritun viðkomandi laga.

Nú er eftirtektarvert í þessu samhengi að stjórnmála elítan hefur lengi barist gegn því að forseti hafi það vald sem segir í grein 26 en um leið blekkir fólk.

Vald forsetans er ekkert ef hann beitir því ekki og aðeins einn forseti lýðveldistímans hefur þorað að beita þessu valdi. Þegar samningurinn um Evprópska Efnahagssvæðið (EES) var samþykktur af Alþingi og lögin um hann samþykkt af Vigdísi Finnbogadóttur voru háværar deilur í landinu.

Þúsundir lýðveldisþegna kröfðust þjóðaratkvæðis um lögin en Vigdís tók þá ákvörðun að hefð skyldi ríkja um undirritun. Hefðin er sú að forseti lúti vilja Alþingis, sem gengur í bága við anda stjórnarskrár.

Fyrir áhugasama bendi ég á þrjá tengla varðandi EES samninginn:

Fyrir leikmann er ekki létt að yfirfara hvað þetta merkir allt saman og uppeldi þjóðarinnar – eða uppeldi mitt sem atóms í þjóðinni – er ekki létt að átta sig á þessu. Ég hef enga skólun í lagalæsi né heldur þjálfun í merkingarfræði og hugtakanotkun umfram það sem grunnskólinn kennir.

Þetta þrennt er þó forsenda þess að ég geti sett mig inn í lög, stjórnarhætti, merkingu orða og hugtaka en mest af öllu að hafa sjálfsöryggi til þess að skipta mér af. Þegar þykkni frumskógar eykst þá fallast hinum ólærða hendur og hann fer af sálrænum ástæðum að leita til þeirra sem vit hafa á.

Við treystum hinum fína forseta sem talar vandað mál, er valinn af okkur merkara fólki. Við treystum þeim sem eru kjörnir til hins háa Alþingis og fara með lög og virðast skilja þau eða í það minnsta getað þrefað um þau. Við virðum vald embættakerfisins og þess faglega orðagjálfur. Hver er ég að láta þrefa um mál sem bæði eru öðrum mér merkari falin og ég þar að auki hef nauman skilning á?

Ég hef þó komist að þeirri niðurstöðu að ef ég sem borgari – frekar en þegn – ríkis ætla mér að taka þátt í lýðræði þá verð ég að taka afstöðu og móta mér skoðanir hvort sem þær eru vitrænar eða ekki. Svo ég skoða þessi mál lítillega á hverju ári, ég held til haga athugunum mínum, ég hef skrifað fátæklega um þessi mál, og ég hef á endanum skrifað tillögur að stjórnarskrá.

Ég læt mér þetta varða og hvet með fordæmi mínu þig til þess einnig; það er að segja viljir þú lýðræði á borði?

Ef ég skoða til að mynda lög frá Alþingi sem hafa verið samþykkt frá 1959 fram í miðjan desember 2014 þá get ég skannað með fljótum hætti hvað séu EES reglur og hvað ekki. Í fljótheitum taldi ég um það bil 240 lög sem Alþingi hefur tekið inn beint samkvæmt EES samningi og leyft þar með Evrópubandalaginu að skilgreina lög fyrir landið.

Til gamans gerði ég leit í lagasafni Lýðveldisins á althingi.is og leitaði alls efnis sem inniheldur leitarorðið EES og fékk eftirtalda niðurstöðu auk tengla í hvert skjal:

  • +Lagasafn: 171
  • +Ályktanir Alþingis: 143
  • +Þingskjöl: 73
  • +Samantektir um þingmál: 3
  • +Erindi til þingnefnda: 58
  • +Ræður: 54
  • +Æviágrip þingmanna: 29
  • +Fréttatilkynningar: 38
  • +Upplýsingasíður: 20

Hugleiðum í fáeinar mínútur að þegar bankabólan sprakk haustið 2008 var oft bent á að bankar hefðu komist upp með að verða útblásin blaðra, og að þeir hefðu getað svindlað á Hollendingum og Englendingum, í skjóli við EES lögin. Þetta er ekkert annað en blóri.

Fyrir þá sem ekki muna hvað Blóri merkir þá stendur það hugtak fyrir að þú getur gert eitthvað, og þá jafnvel gert eitthvað af þér, í blóra við annan. Það sé því annar sem veiti þér annað hvort vald eða skjól til að haga þér eins og svín, ef þú vild. Allt fer jú eftir siðferðisvitund.

Með öðrum orðum fyrrir Alþingiselítan sig ábyrgð á bankabólunni enda sé hún Evrópusambandinu að kenna.

Að EES samningurinn hafi verið landráð kemur ekki til greina því Alþingi megi gera slíkan samning. Ef við rifjum upp 21. grein þá má ekki veita öðrum vald yfir landinu nema Alþingi leyfi það. Með öðrum orðum; öll greinin er þvættingur því hún bannar það sem hún leyfir.

Ég spyr þó til gamans; hefðu Íslendingar ársins 1944 samþykkt þessa grein í stjórnarskrá ef þeir hefðu áttað sig á gildi hennar? Ennfremur spyr ég hvort við séum viss um að við viljum þennan samning? Vissulega eru margir að græða á honum og margir óttast að missa hann, en hvers virði er virðing og frelsi í peníngum?

Aukin heldur spyr ég hvers vegna Almenn Hegningarlög skilgreini Landráð? Áður en við lítum á þann kafla skulum við athuga hvenær lögin voru skilgreind. Almenn hegningarlög eru skilgrind númer 19 frá 1944 og útgefin þann 12. febrúar. Það merkir að þetta eru lög sem Konungsíkið Ísland skilgreindi og Lýðveldið Ísland tók upp með beinum hætti.

Merkingarfræði tiltekur að eitt ríki sé ekki sjálfkrafa annað ríki og að nýtt ríki þurfi ekki sjálfkrafa að taka upp lög fyrra ríkis á sama landsvæði. Nú vitum við að Lýðveldið er arftaki Konungsríkisins og sátt ríkti um það. Vil ég aðeins benda á í þessu samhengi að um tvö aðskilin ríki er að ræða; samkvæmt merkingarfræði.

Kafli X í Almennum hegningarlögum eru greinar 86 til 97. Þar segir orðrétt:

„Hver, sem sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess, skal sæta fangelsi ekki skemur en 4 ár eða ævilangt.“

Hér kemur dálítið sérstakt í ljós. Stjórnarskráin bannar að landið sé sett undir erlend yfirráð en bætir þó við að Alþingi megi það. Sem er ótrúleg yfirlýsing og gengur berlega á skjön við anda þess sáttmála sem hún er. Í anda þess sáttmála er refsivert að koma íslenska ríkinu – það er ríkisvaldinu – undir erlend yfirráð að og má fangelsa fyrir.

Hér er komin pattstaða því hægt er að dæma alla þá sem kusu lögin um EES samninginn fyrir landráð; þá embættismenn sem komu að samningi hans, þá þingmenn sem samþykktu hann og forsetann sem undirritaði. Nema til séu lög sem útfæri grein 21. í stjórnarskránni.

Í þessu samhengi vil ég minna lesanda minn á að í ársbyrjun þessa árs átti ég samtal við fulltrúa hjá Umboðsmanni Alþingis um brot á stjórnarskrá og refsingu við henni. Var ég upplýstur um að aldrei hefði verið kært fyrir stjórnarskrárbrot og að ekki væri vitað um refsiákvæði við slíku.

Ef þú ætlast til þess að ríkiselítan virði stjórnarskrá og hegningarlög, þá skiptir þetta jafn miklu máli og þegar nauðgarar eða þjófar brjóta lög.

Er EES samningurinn landráð? Ég legg það í þinn dóm, enda flækjan orðin mér ofviða. Mín skoðun er sú að hann sé það og ennfremur að spíralar valdsins og elítunnar séu slíkir að eina leiðin til að hreinsa húsið sé að byggja annað.

Ó sorrý, það eru víst ekki landráð því allir vilja þetta og telja sig græða á þessu og maður má ekki vera skrýtinn. EN! Ef við þekkjum ekki þjóðarsamninginn og ef við höfum hvorki vald né getu til að neyða valdakerfið til hlýðni, þá erum við þegnar þessa valds en ekki frjálsir eigendur þess.

 

 

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.