Kjarni allra sjálfsblekkinga

Blekkingin sem við lifum í er ofureinföld enda bjuggum við hana til sjálf. Við settum hana þó saman úr legókubbum sem okkur voru gefnir af fólki sem ekki hafði sýn, en við vorum of ung til að spyrja hvaðan kubbarnir komu.

img-coll-0149Þegar við vorum orðin nógu stór til að sjá í gegnum blekkinguna var barnshjartað enn að líta upp til fólks sem við höfðum þó vaxið uppfyrir.

Þetta er kjarni allra sjálfsblekkinga en það gerist í lífi hvers einasta manns og konu að vakna til vitundar um þetta. Þá fæðist sjálfsblekking hin síðari, að við reynum að vekja aðra til vitundar um þetta og það pirrar okkur því það fyrsta sem við rekumst á er að allar sjálfsblekkingar eru í eðli sínu granít sem er harðast að utan.

Aðeins þegar við hættum að berja hausum annarra við okkar eigin hugargrjót sjáum við í gegnum hina fyrri og hina síðari. Að við sjáum að allan tímann vorum við mótuð til að fylgja og við ætluðumst til þess að fá aðra til að fylgja.

Þegar við erum vöknuð getum við aðeins einbeitt okkur að ræktun eigin garðs en ef við viljum að nágrannar okkar rækti sinn eigin og vakni líka þurfum við að sjá hvað sjálfsblekkingin er. Því þeir munu byrja að rumska þegar okkar eigin garður verður vænn og fagur og þeir munu spyrja hvernig fórstu að og hvað get ég gert.

Á því andartaki er sekúndubrotið sem grípur eða brýtur (Make or break). Til að grípa hann með þér þá svararðu engu en ert þó tilbúinn til aðstoðar eftir þörfum og þannig grípurðu samkennd, samræðu, samstarf og styrkir hans eigin vitund til að fylgja sjálfum sér.

Reynirðu hins vegar að fá hann til að vinna með þér og gera eins og þú, þá brýturðu andartakið því hann var að vakna frá að fylgja og önnur martröð var ekki það sem hann bað um.

Þetta er kjarnalýðræði. Það hefst heima og það byggist á samfélagi jafningja sem eiga virk samskipti og trúa á samheldni og samstarf, en ekki fylgni við bull og þvætting, sem nefnist fulltrúalýðræði.

 

This entry was posted in Orðastungur and tagged , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.