Sjálfsvald er hið eina vald

Mannkynið er ein risastór fjölskylda. Og sem betur fer sjá það sum ættmennin. Tilvera okkar er fallvölt og aðeins skapandi hugsun, umburðarlyndi og samheldni minnkar veltuna og varnar falli.

img-coll-0224Allt byggist þetta á hugsun og við höldum oft að skoðanir okkar og rökstuðningur þeirra sé hugsun, því hvorutveggja fer fram í höfðinu.

Ennfremur höldum við oft að þær hugsanir sem spretta af tilfinningum okkar sé einnig hugsun því tilfinning vekur hugsanaviðbragð.

Við erum alin upp í tvívíðu samhengi en sjáum ekki alltaf að samhengið krefst hugarviðbragðs, sem eru hugtök og rökleiður. Þeir sem takast á hendur innra ferðalag þekkja þetta vel. Slíkt er yfirleitt tímabil þar sem manneskjan þarf að horfast í augu við ímyndir og tilfinningar fortíðar sem eru grafnar undir yfirborði sálarinnar og vinna úr því sem þar er.

Eftir því sem innra ferðalag líður áfram tekur heimssýnin og sjálfsmyndin talsverðum breytingum, stundum hratt og stundum hægfara. Niðurstaðan er nær ætíð sú að sá sem maður var er ekki lengur til heldur er maður orðinn einhver annar. Sami búkur, sama nafn, oft svipaðar venjur, en nálgun á lífinu allt önnur eða ný.

Stærsta breytingin hjúpast – að mínu mati – þannig: „Allar skoðanir mínar, afstöður og niðurstöður voru rangar og stóðust ekki prófraun tilverunnar. Sumar skoðanir mínar hafa staðist raunina en þær eru ekki lengur neinn sannleikur heldur skoðanir sem ég vel og ég veit hvers vegna, þar sem áður ég vissi ekki hvers vegna en gat þó rökstutt þær í sjálfsþótta.“

Hér er stiklað á talsvert stórum steinum varðandi sjálfshvatningu og innri endurskoðun en niðurstaðan er ætíð sú sama. Hún er sú að umburðarlyndi fyrir heimssýn annarra eykst og stjórnlaus tilfinningasemi eða sjálfsdáleiðsla dvínar eða hverfur. Út úr slíkum glundroða kemur hugsun afstöðu sem vegur upp á móti skoðunum.

Afstaða er skoðun sem maður stendur með, ekki vegna þess að hún sé nauðsynlega rétt heldur vegna þess að hún stenst raunir og maður áttar sig á að þegar staðið er með afstöðu styrkist sjálfið eða sálin. Maður áttar sig á að lífheildin sem maður tilheyrir er til muna stærri, dýpri og flóknari en maður hélt áður en þó á vissan hátt einfaldari.

Þannig sprettur vitund og lífssýn manns sjálfs út úr mælanlegu og tvívíðu yfirborði hægri og vinstri, rétts eða rangs, yfir í frjálsan anda, frjálsa hugsun og innri styrk.

Þar fær maður vald yfir sjálfum sér, sem er hið raunverulega vald, og maður skilur að valdakerfi er í sjálfu sér blekking huga sem hefur valið að trúa blekkingunni því hann hefur ekki þann styrk að geta mótað sitt eigið í skapandi hugsun og samræðu við aðra.

Bylting og mótmæli er ekkert annað en dáleiddur lýður í fangbrögðum við tvívíð skrímsli hugans. Aðeins frjáls maður og frjáls kona geta endurskapað samfélagið og þetta vita þau sálarlausu skrímsli sem móta umræðuna (sem er ekki samræða) og hræra upp í fólki.

Ást og friður er vopn mitt og afstaða mín. Því ást sprettur af þekkingu, skilningi og virðingu en friðsemd er sá maður sem ekki lætur aðra eyða tíma hans og orku í fjas, rifrildi og rökræðuþvætting heldur yfirgefur glundroðann og tekur höndum saman með þeim sem eru frjálsir; til að endurskapa og endurmóta.

Þannig er hugsun þegar eldri punktar eru splæstir saman á nýjan hátt svo úr verður nýr punktur. Það er ekki tvívíð hugsun og ekki þrívíð heldur margvíð. Maður sem hefur vald yfir eigin huga og sál, honum er ekki stjórnað af hugarkerfum annarra. Hann er frjáls og hann velur ætíð að skapa frjálst samfélag við aðra.

<3 og ?

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.