Allt er hugmyndum háð

Þegar hinum almenna manni er gefinn kostur á að bera ábyrgð og sýna hvað í honum býr mun hann standa sig jafn vel og fræðingar og sem best hugsandi menn. Jafnvel betur því hann á skýrari hagsmuna að gæta.

Fræðingar eiga það ennþá til að pissa upp í vindinn, svo mjög að almenningi blöskrar. Gleymum ekki að menntun hins almenna stúdents nútímans er á pari við menntuðustu menn liðinna alda.

Menntun hins almenna manns er jafnvel meiri en þeirra sem gengnir eru. Þó eru mennta og stjórnkerfin okkar enn sniðin að liðnum tímum.

Að kosningar séu á fjögurra ára fresti en ekki árlega, átti við í heimi fólks sem notaði hesta, hestvagna og strandflutninga til að komast á kjörstað og safna atkvæðum saman.

Þetta fyrirkomulag hentaði hinni svifaseinu veröld fyrir hundrað árum. Öldin okkar breyttist fyrir löngu síðan með nýrri tækni og stjórnkerfi hlýtur að neyðast til að laga sig að vilja Þjóðarinnar. Nema lýðræðið Lýðveldið sé farsi.

Tæknigeta, hraði og menntun nútímans er slík að við getum umbreytt aðstæðum okkar og tekið risastór skref áfram á mettíma. Ég get ekki séð, í veröld rafrænna viðskiptahátta og lifandi netsamskipta, að ekki sé hægt að kjósa rafrænt, jafnvel oft á ári.

Þjóðveldið er eldra en lýðveldið. Það var nýtt í 350 ár. Lýðveldið er núna rétt um 100 ára. Hvort stóð sig betur? Hvers vegna muna Íslendingar enn eftir Þjóðveldi? Við skulum ekki gleyma því að Héraðsþingin voru haldin oftar en árlega, og haldið var til Alþingis árlega, rétt eins og stefna Þjóðveldisfélagsins er.

Ef fólk gat ferðast árlega fyrir þúsund árum, þá er það líklega erfitt fyrir okkur þar sem bensínið er dýrt og við gætum misst af næsta framhaldsþætti í sjónvarpinu. Svo ég gantist nú smávegis.

Fólk kennir gjarna hægri mönnum um hrunið, vitandi að miðjufólk var í hrunstjórninni. Sama miðjufólk og herti sultarólina að þjóðinni síðustu ár. Sumt miðjufólkið er nú að hópast inn í annan miðjuflokk með sömu markmið en bjartara heiti. Hægri flokkarnir hafa enn ekki gert hreint fyrir sínum dyrum og þeir sem lengst eru til vinstri kunna ekki að skammast sín.

Með öðrum orðum þá voru það stjórnmálamenn sem voru við völd fyrir hrun, stjórnmálamenn við völd frá hruni og stjórnmálamenn að sleikja okkur upp núna fyrir kosningar. Hvort vængurinn er til hægri eða vinstri skiptir litlu máli sé saga þeirra og hegðun skoðuð aftur í tímann. Hins vegar höfum við ekki átt valkost fyrr en nú.

Þjóðveldisfélagið er að dusta rykið af stjórnarhugmynd sem notuð var í 350 ár, og var vel látið af.

Við erum önnum kafin við aðlögun hennar að nútíma háttum. Við teljum að sú stjórnarhugmynd Sem Danir skildu hér eftir hafi dæmt sjálfa sig úr leik. Eina spurningin í okkar huga er hve hratt hinn almenni maður kemst að því að nú eru tvær hugmyndir í gangi. Lýðveldishugmynd og Þjóðveldishugmynd, tvær virkar hugmyndir sem báðar hafa verið reyndar.

 

This entry was posted in Þjóðveldi and tagged , , . Bookmark the permalink.

Um Guðjón E. Hreinberg

Heimspekingur með áhuga á Stjórnmálum, Guðfræði, Heimspeki, Sálfræði, og Hundaþjálfun. Haldinn þeirri Íslensku sérvisku að skrifa um áhugamálin.

Comments are closed.