Almennt heldur fólk að nafn guðs sé Drottinn, og að drottinn sé Jesú. Enn aðrir halda það sama en rita guð sem Guð.
Svo er til fólk sem veit að í gamla testamenti var nafn Guðs ritað YHVH, sem sumir túlka sem Jahve en aðrir sem Jehóva. Vafalaust eru til aðrir framburðir.
Sjálfur trúði ég þvi áratugum saman að þetta skipti öllu máli; að vita hið rétta nafn Guðs og nota það í bænum og á öðrum stundum.
En er heimurinn svarthvítur? Eru blómin í öllum regnbogans litum? Er fjölbreytni í náttúrunni? Er veröldin sköpuð? Ef hún er sköpuð, hver skóp hana nema Guð?
Sé hann svo hrifinn af fjölbreytni, hvers vegna ætti hann að hanga í nafninu sem Hebrear töldu vera hans rétta?
Sumar fullyrðingar vekja fleiri spurningar. Loka spurningin er þessi: Áttu að nota nafn Guðs eins og það birtist á bók, eða eins og hann blæs í þitt eigið brjóst á stund bænar? Með öðrum orðum, er Guð fyrir þér persóna sem þú þekkir eða hugmynd byggð á frásögn annarra?
Hvert svosem nafnið er þá skulum við muna að Drottinn, drottinn, Guð, guð eða Allah eru ekki nöfn heldur skilgreiningar. Rétt eins og Herra eða Frú eða Ráðherra eða Forstjóri eru ekki nöfn heldur skilgreiningar.
Margir sem taka Eingyðistrúna alvarlega setja nafn guðs og rétta stafsetningu þess, og jafnvel framburð, á stall; Sem er hið sama og gera nafnið að skurðgoði. Því allt sem þú setur á stall sem er ekki beintengt við sál þína og er ekki bein tenging á milli þinnar sálar og sálar Skaparans, er sjálfkrafa skurðgoð eða eitthvað þriðja einindi sem er komið inn á milli og blekkir þig.
Nafn Skaparans er eitthvað sem enginn getur sagt þér nema hann sjálfur – eða hún. Ert þú frammi fyrir Guði þínum eða stendur presturinn á milli, eða einhver flókin bók?